Afnotaréttur nytjastofna á Íslandsmiðum

Fimmtudaginn 03. febrúar 2000, kl. 14:37:10 (3977)

2000-02-03 14:37:10# 125. lþ. 56.1 fundur 172. mál: #A afnotaréttur nytjastofna á Íslandsmiðum# þál., EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 56. fundur, 125. lþ.

[14:37]

Einar Oddur Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Ég vil byrja á að biðja hv. þm. afsökunar ef ég hef misskilið þetta eða lesið rangt. Mér fannst þetta bara augljóst í því sem ég las en ég hef þá hlaupið yfir hina setninguna. Það skiptir samt ekki máli. Ég er búinn að koma sjónarmiðum mínum á framfæri og þetta misskilst ekki.

Frá því að við hófum umræðunar fyrst um stjórn fiskveiða kom til mikilla átaka innan LÍÚ meðal útvegsmanna um hvernig við skyldum gera þetta. Ég var þá eins og ég gat um í fyrri ræðu minni sannfærður um að við værum að gera rangt með því að úthluta þyngdareiningum. Við ættum að úthluta sókn. Það væri hægt að skilgreina sóknarmátt og það er hægt að skilgreina sóknarmátt. Það hefur verið sýnt fram á það. Við ættum að gera það vegna þess að landsbyggðin ætti að njóta landkosta sinna. Það væri verðmæti í sjálfu sér að byggja þetta land. Ég er alls ekki sammála því að allir eigi að hafa sama rétt til sjávarútvegs. Ég held því fram að þeir sjómenn sem hafa stundað sjóinn, það fólk sem byggir sjávarbyggðirnar og það fólk sem á verðmæti kringum ströndina og á allt sitt undir því að þar sé byggð hljóti að hafa rétt umfram aðra. Ég veit ekki betur en að í stjórnarskránni sé fullt af atriðum þar sem fólki er mismunað og ég vil ekki trúa því að það verði þannig og ég treysti því að þessi löggjöf beri gæfu til að hafa það svo.

Hvernig sem þessi dómur fer, sem ég ætla ekkert að ræða um og er í engum færum til þess, þá treysti ég því að menn taki þetta upp frá grunni, reyni að skoða galla þess og kosti og reyni að horfa á það opnum augum hvaða tjón við erum búin að gera með því kerfi sem við höfum haft núna. Opnum það þannig að við förum að nýta hafið eins og við gerðum og nýtum þá einstaklinga sem hafa í gegnum alla tíðina sýnt forustu umfram aðra, gerhygli, dugnað og þrautseigju, þá einstaklinga sem hafa borið uppi sjávarútveginn og þessa þjóð.