Stjórn fiskveiða

Fimmtudaginn 03. febrúar 2000, kl. 15:30:56 (3982)

2000-02-03 15:30:56# 125. lþ. 56.2 fundur 229. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðar umfram aflamark) frv., JÁ
[prenta uppsett í dálka] 56. fundur, 125. lþ.

[15:30]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Ég kem hér upp til að taka undir með hv. flm. þessa máls. Ég tel að hann sé með skynsamlega tillögu um hvernig eigi að breyta þeim reglum sem þarna hafa gilt. Ég ætla ekki að lengja umræðuna mikið. Ég held að búið sé að útskýra þetta mjög vel í þeim ræðum sem hafa verið haldnar hér. En ég minni á að ýmsir hlutar þessa kvótakerfis, sem hefur verið lýst þannig að þeir væru til að auka sveigjanleikann, liðka fyrir útgerðinni og gera henni kleift að búa við þetta kerfi, virðast í grundvallaratriðum hugsaðir út frá rekstri útgerðarinnar. Lífríkinu virðast menn hins vegar alveg gleyma.

Menn mega t.d. framselja veiðiheimildir. Ef þeir ekki geta fiskað á sinn bát það sem þeir mega fiska þá geta þeir komið því á einhvern annan. Ef ekki er hægt að ná því á einni verstöðinni þá er hægt að komast með þessar veiðiheimildir á aðra verstöð og veiða upp í þær þar. Gott dæmi er að þegar menn náðu engan veginn þeirri úthlutuðu þorskveiði sem leyfð var á árunum 1992 og 1993 voru veiðiheimildir sendar allt í kringum landið til að hægt væri að elta uppi þá þorska sem veiða mátti. Með svona kerfi er ekki tekið mark á lífríkinu. Harðast er gengið fram þegar stofnarnir eru verst settir. Einn af þeim göllum sem kvótakerfi í samanburði við sóknarstýringar, sem ævinlega eru miðaðar við að hamla sókn í lífríkið og draga þannig úr því sem veitt er, er að kvótakerfið virkar þegar verst gegnir með þessum hætti. Þá standa öll spjót á viðkomandi tegund.

Síðan virðist ráða sú hugsun að veiða eigi nákvæmlega jafnmikið öll ár, að til sé einhvers konar jafnstöðuafli sem alltaf eigi að reyna að ná. Gagnvart lífríkinu er það náttúrlega afskaplega heimskuleg aðferð. Ég get nú ekki haft önnur orð um það. Vitanlega vita það allir að fiskur gengur í mismiklum mæli á miðin. Auðvitað væri eðlilegast að veiðin væri dálítið misjöfn því að annars vill fara þannig að æti á miðunum gengur til þurrðar. Miðunum er hreinlega ekki sinnt eins og skyldi því að mátuleg veiði er ábyggilega það sem gefur mestan afrakstur af lífríkinu. Gallarnir á fiskveiðistjórnarkerfinu sem við höfum núna eru örugglega þeir að afköst lífríkisins eru miklu minni en ef menn stjórnuðu veiðunum fyrst og fremst með það í huga að ná sem mestum afrakstri úr lífríkinu.

Mér finnst einnig eiga við að minna á þessa umræðu líka í þessu sambandi. Mér fannst afar mikilvægt það sem hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson taldi hér upp með samanburði aftur í tímann, þ.e. hvað við höfum leyft veiðar á núna í miklu magni og hvernig þetta var áður. Það ætti nú kannski að verða einhverjum til umhugsunar sem hafa breitt út þann boðskap um allan heim að við höfum náð svo óskaplega miklum árangri í stjórn fiskveiða. Þannig lítur það út í yfirlýsingunum a.m.k., að sá árangur sé ekki bara efnahagslegur heldur og aðdáunarverður fyrir stjórnina á nýtingu lífríkisins.

Þessar tölur segja aldeilis aðra sögu. Það er engin spurning um að við veiðum miklum mun minna af þeim tegundum núorðið sem hér voru nefndar en áður. Þó að tæknin til að veiða hafi kannski breyst mikið, menn geti veitt og ekki standi á þeim afköstum sem til þarf þá hefur það allt saman tekist með þeim vopnum sem menn höfðu áður. Það virðist ekki hafa haft eins slæm áhrif á náttúruna þá og það virðist hafa núna, ef við eigum að taka mark á þeirri ráðgjöf sem stuðst hefur verið við.

Þá kem ég að því sem ég ætlaði að minnast á að lokum. Þar þurfa menn að fara nákvæmlega yfir hlutina og velta fyrir sér hvort við séum á réttri braut og hvort ýmislegt í þeirri ráðgjöf og framkvæmd á fiskveiðistefnunnar geti verið betra en nú er. Ég set a.m.k. æði mörg spurningarmerki við að þær aðferðir og veiðistjórnin sem viðhöfð hefur verið undanfarin ár sé sú eina rétta. Ég tel t.d. orka mjög tvímælis að við eigum alltaf að veiða jafnmikið á miðunum og fara bara eftir tölum og línuriti frá Hafrannsóknastofnun, nokkurn veginn jafnt á hverju ári, stígandi eða lækkandi eins og okkur hefur verið ráðlagt á undanförnum árum. Ég tel að á undanförnum árum hafi komið fram vísbendingar og upplýsingar sem taka ætti mark á, t.d. um að sennilega hefði mátt veiða verulega miklu meira af þorski undanfarin ár. Margir sjómenn sem þekkja miðin vel halda því fram að það þarna höfum við sleppt fram hjá okkur toppi í lífríkinu, séum að sleppa honum fram hjá og munum ekki geta nýtt okkur í sama mæli og ef við hefðum sveigjanlegri fiskveiðistjórn. Þá er ég ekki að tala um að menn eigi að taka glannalegar ákvarðanir í þessu efni heldur fyrst og fremst að menn horfi yfir þessi mál í heildina og gleymi því ekki að þetta er allt lifandi, lífríkið í hafinu, og að mestu máli skipti að afköst þess njóti sín í þeim tegundum sem skipta okkur mestu. Það gengur ekki að búa bara til svona hæfilegan skammt handa útgerðarmönnum í landinu til að skipta á milli sín, meira máli skiptir hvað hægt er að veiða í heildina til lengri tíma litið.