Stjórn fiskveiða

Fimmtudaginn 03. febrúar 2000, kl. 16:50:25 (3989)

2000-02-03 16:50:25# 125. lþ. 56.3 fundur 230. mál: #A stjórn fiskveiða# (frystiskip) frv., JB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 56. fundur, 125. lþ.

[16:50]

Jón Bjarnason (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Jóhann Ársælsson kom inn á jafnan rétt allra. Ég get svo sem tekið undir það, að hann sé jafn, en hann er líka félagslegur réttur og það er svolítill greinarmunur á því hvort þetta sé bara eins og hlutafélag þar sem allir eiga sína jöfnu hluta eða hvort þetta er félagslegur réttur og félagsleg sameign sem er ráðstafað af félagslegri ábyrgð til einstaklinga eða félaga.

Við verðum að hafa hugfast þegar við ætlum að tryggja að íbúar alls landsins eigi öruggan og jafnan aðgang, að þá getur þurft að beita einhverjum stýringarákvæðum og ráðstöfunum til þess að svo verði en mismunun getur líka komið til. Við vitum það nú þegar allir eiga að vera jafnir gagnvart ákveðinni þjónustu í landinu óháð búsetu en við vitum að svo er alls ekki. Í I. kafla laganna um um stjórn fiskveiða segir:

,,Markmið laga þessara er að stuðla að verndun og hagkvæmri nýtingu þeirra og tryggja með því trausta atvinnu og byggð í landinu. Úthlutun veiðiheimilda samkvæmt lögum þessum myndar ekki eignarrétt eða óafturkallanlegt forræði einstakra aðila yfir veiðiheimildum.``