Stjórn fiskveiða

Fimmtudaginn 03. febrúar 2000, kl. 16:54:42 (3992)

2000-02-03 16:54:42# 125. lþ. 56.3 fundur 230. mál: #A stjórn fiskveiða# (frystiskip) frv., JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 56. fundur, 125. lþ.

[16:54]

Jóhann Ársælsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Kerfið sem nú er í gangi mismunar á mjög margan hátt og við þurfum auðvitað að losna út úr því kerfi. Ég tel hins vegar að við verðum að passa okkur á að fara ekki úr öskunni í eldinn. Við verðum að hafa reglur sem taka við þannig að rétturinn sé sem almennastur og við getum fært okkur til baka í tímanum þannig að byggðarlögin fái að njóta sín að nýju. En handstýrðar úthlutanir á einhvers konar réttindum og sérréttindum munu einungis leiða til ófarnaðar. Menn þurfa að geta stýrt þessum fiskveiðum fyrst og fremst með almennum hætti og við það eiga reglurnar að miðast.

Ég tel að hægt sé að ná þeim árangri til að byrja með með því að koma á leigu aflaheimilda á markaði þar sem allir hafa jafnan aðgang og það sé sú sáttaleið sem menn þurfi að sætta sig við að fara til að komast út úr eignarhaldskerfinu sem við erum í og ná eignarhaldinu til baka. Eftir að það hefur verið gert þá held ég að umræðan um stjórn fiskveiða geti loksins farið að snúast um raunverulega stjórn fiskveiða og hvernig við getum nýtt okkur lífríkið sem allra best allt í kringum landið.

En við skulum taka eina byltingu í einu.