Stjórn fiskveiða

Fimmtudaginn 03. febrúar 2000, kl. 16:56:38 (3993)

2000-02-03 16:56:38# 125. lþ. 56.3 fundur 230. mál: #A stjórn fiskveiða# (frystiskip) frv., Flm. GAK
[prenta uppsett í dálka] 56. fundur, 125. lþ.

[16:56]

Flm. (Guðjón A. Kristjánsson):

Herra forseti. Ég þakka undirtektir hv. þm. sem komið hafa í ræðustól og tekið undir það meginsjónarmið að rétt sé að takast á við að skilgreina flotann einhvern veginn. Frv. gerir auðvitað ráð fyrir því að sá hluti flotans sem hefur í raun haft mesta möguleika á undanförnum árum verði skorinn frá öðrum hlutum flotans að því er varðar uppkaup á aflaheimildum og að frystitogaraflotinn og nótaflotinn, a.m.k. frystitogaraflotinn og æskilegt væri að nótaflotinn verði tekinn þarna líka út fyrir sviga af því að þetta eru hvort tveggja flotar veiðiskipa og útgerðarmynstur sem á undaförnum árum hafa haft yfirdrifin verkefni við veiðar innan og utan lögsögunnar. Mér finnst ekki ástæða til að ganga frekar á kvótarétt annarra í flotanum með því að hafa þetta óbreytt og hefði verið betra að það hefði verið gert fyrr.

Hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson spurði mig hvað ég teldi að hefði sérstaklega valdið vanda Vestfirðinga umfram aðra. Ég er alls ekki viss um að reyna eigi að svara þeirri spurningu á þessum nótum. Það kann að vera að vandi okkar fyrir vestan hafi birst fyrr en annars staðar á landinu. Ég hygg að hann hafi birst fyrr vegna þess að við höfðum svo fátt annað að fara í.

Þegar grálúðukvótinn, sem var stór hluti í afla togara á Vestfjörðum, var færður til með millifærslum í gegnum meðalkvóta og annað slíkt, og þegar þorskurinn var skorinn niður sem var 60--70% af tekjum vestfirskrar útgerðar þá var ekkert annað sem tók við. Menn reyndu í staðinn að gera t.d. út rækjuskip sem menn tóku þá á leigu. Hvað gerðist þegar kvótinn var settur á rækjuna? Þá fengu útgerðirnar sem skipin áttu rækjukvótann en ekki þeir sem til höfðu kostað með því að setja veiðarfæri á skipin og jafnvel breyta þeim til viðkomandi veiða. Því tók þetta talsverðan kraft úr útgerð á Vestfjörðum.

[17:00]

Ég býst náttúrlega við að allir þeir sem setið hafa hér á þingi og fylgst með þjóðmálum undanfarin ár viti um þann mikla vanda sem fylgdi rangt skráðu gengi á árunum fyrir 1990. Það hafði veruleg áhrif á tekjur á Vestfjörðum eins og reyndar á öðrum landshlutum. En við höfðum hins vegar ekkert annað, síld eða loðnu til að bjarga okkur. Hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson bar ástandið saman við Austfirði. Þá ber að hafa í huga að Austfirðir hafa af miklum krafti farið út í uppsjávarveiðar sem var mikið atvinnuátak þó að það hafi hins vegar orðið til þess að vinna á Austfjörðum hefur á undanförnum árum orðin árstíðabundin. Vinna á Austfjörðum er orðin allt öðruvísi en hún var fyrir nokkrum árum. Hún er miklu meiri skorpuvinna meðan síldveiðar standa yfir eða meðan loðnuveiðar standa yfir. Á öðrum tíma ársins er ekkert sérstaklega gott atvinnuástand á Austfjörðum. Það veit ég að þingmaðurinn veit eftir sameiginlega ferð okkar um Austfirði fyrr í haust þar sem greinilega kom fram að atvinnuástandið á Austfjörðum er gott meðan mikið veiðist af loðnu og síld en ekkert sérstakt þegar svo er ekki. Austfirðingar hafa vissulega misst aflahlutdeildir í botnfiski almennt eins og Vestfirðingar.

Það kann hins vegar vel að vera að Vestfirðingar hafi ekki verið nógu fljótir til á sínum tíma að fara yfir í frystitogaraútgerðina. Reksturinn þar var að mestu í landvinnslu og útgerð togara sem öfluðu hráefnis fyrir landvinnsluna. Við fórum tiltölulega seint yfir í frystiskipin. Það kann að vera einhver skýring.

En við skulum heldur ekki gleyma því að við vorum með fiskveiðistjórnarkerfi frá árinu 1984 og fram undir 1990 sem samsett var af tveimur kerfum, sóknarkerfi og aflamarkskerfi. Hvað sem hver segir þá væri hægt að fletta upp tölum sem sýna að útgerðarmennirnir, margir hverjir, völdu sér frekar sóknarmarkskerfi en aflamarkskerfi. Fleiri og fleiri fóru inni í sóknarmarkskerfi. Þeim fjölgaði á árunum 1986--1989 sem völdu sér sóknarkerfi öndvert við þá sem völdu sér aflamarkskerfi. En það voru hins vegar hinir hörðu hagsmunir samtaka útgerðarmanna sem börðu það fram að hér var eingöngu tekið upp aflakvótakerfi.

Guðmundur vék hér að brottkastinu, sagðist hafa af því áhyggjur og velti fyrir sér hve mikið það væri, það kæmi oft upp í umræðunni og það er auðvitað alveg rétt. Þetta er ein af þeim huldustærðum sem ákaflega erfitt er að festa hendur á. Á meðan ég gegndi starfi forseta Farmanna- og fiskimannasambandsins fékk ég mörg símtöl þar sem menn sögðu mér frá því að þeir hefðu lent í að hafa ekki heimildir fyrir aflanum sem þeir veiddu og þeir hafi þurft að velja úr.

Annað og verra gerði það líka að verkum að menn fóru að velja úr aflanum í miklum mæli, það voru leiguviðskipti á aflaheimildum. Þegar leiguverð fer upp í jafnmiklum mæli og þá, eins og menn hér í salnum muna, er auðvitað komin upp erfið staða hjá hinum kvótalitla hluta flotans sem eru nú ekkert mjög fá skip, líklega hafa á milli 100 og 120 skip í bátaflotanum litlar aflaheimildir eða jafnvel engar og eru í þessum leiguviðskiptum, ýmist hjá fiskvinnslufyrirtækjum sem eiga útgerð nú eða leigja hann frá stórútgerðinni. Þá standa menn uppi með það að leiguverð á þorski er yfir 100 kr., 115--116 kr., og verð fyrir landaðan þorsk getur á markaðnum verið 150 og upp í 200 kr. fyrir stærsta fiskinn. Það er auðvitað mjög mikil pressa á menn að reyna að hafa eitthvað út úr þessari okurleigu þrátt fyrir allt ef þeir þurfa að gera út á leigðan afla.

Ég hygg einmitt að í dag sé það frekar á bátaflotanum sem menn lenda í þessu brottkasti gegn vilja sínum, þeir eiga kannski fárra kosta völ. Ég veit að hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson þekkir glögglega til að jafnvel verðsamningar kveði á um að menn fá í viðskiptasamning og að landa skuli fiski af ákveðinni stærð til viðkomandi manns. Ég veit að Guðmundur Hallvarðsson veit þetta fullvel og hefur séð svona samninga. Hvað gera menn þá við hitt? Það er mjög margt að athuga í þessu máli. Þegar menn eru spurðir hvort þeir hafi tekið þátt í að kasta fiski fyrir borð þá segja þeir: ,,Já já, en það er ekki á skipinu sem ég er á í dag.`` Það var alltaf á skipunum sem þeir voru á áður. Þetta eru bara eðlileg viðbrögð. Menn geta ekkert sagt: Ég er á skipinu Jóni Jónssyni og ég þarf að henda fiski. Menn geta ekkert sagt það. Það þýðir ekkert að tala neina tæpitungu um það. Jafnvel þó menn séu í svona ömurlegri stöðu þurfa þeir að halda atvinnu sinni. Þeir kjósa fremur að lenda í svona leiðinlegum og erfiðum kringumstæðum heldur en missa lífsafkomuna. Þetta er einn af göllunum við leiguframsal aflaheimildanna og hið mikla vald sem þeir sem eiga aflaheimildirnar, hafa til að setja mönnum alls konar skilyrði.

Auðvitað er alveg rétt hjá hv. þm. Guðmundi Hallvarðssyni að menn ættu að hafa áhyggjur af harðnandi sókn smábáta. Sem betur fer held ég þó að þessi skip, smábátarnir, plastbátarnir nýjustu séu ákaflega góð sjóskip. Á undanförnum árum hafa menn öðlast mikla reynslu við að stjórna þessum skipum. Við skulum ekkert gleyma því að það eru engir viðvaningar sem stjórna þessum smábátum í dag. Þar eru jafnvel okkar reyndustu togaramenn í gegnum árin, menn sem byrjuðu ungir, ólust upp á smábátum með feðrum sínum eða frændum og fóru síðan á vertíðarbátana og þaðan á togara. Þeir eru búnir að veiða um öll heimsins höf og eru nú aftur komnir á þessa litlu báta. Og ég hygg að ef menn fara með gætni á þessum bátum og nota ekki vélarnar úr hófi fram við erfiðar aðstæður þá megi lengi ferðast svo framarlega sem bátarnir eru rétt hlaðnir.

Það er alveg rétt sem hv. þm. Jóhann Ársælsson vék að. Menn veltu því oft fyrir sér þegar verið var að setja þetta kerfi á til bráðabirgða, fyrst í eitt ár, aftur í eitt ár og síðan í tvö ár með tvenns konar stýrikerfi, hvort þetta væri frambúðarkerfi eða kerfið sem fleiri og fleiri útgerðaraðilar völdu sér, sem var sóknarkerfi, yrði ofan á. Staðreyndin er hins vegar sú að hið framseljanlega kvótakerfi var tekið upp með lögum nr. 38/1990 og sóknarkerfið lagt til hliðar. Við þá framkvæmd tel ég að menn hafi ekki gætt þess hvaða afleiðingar það gæti haft. Ég minnist þess að Farmanna- og fiskimannasambandið, sem ég veitti forstöðu árið 1990, sendi frá sér alveg sérstaka ályktun um hvaða afleiðingar gætu fylgt þessari breytingu á fiskveiðistjórnarkerfinu, að hér yrði tekið upp frjálst framsal og færa mætti aflaheimildir af skipum án þess að skipið fylgdi með. Það þýddi auðvitað að menn gerðu skip kvótalaus. Ljóst þótti að vandamál mundu koma upp í misjafnri tekjuskiptingu milli sjómanna innbyrðis, milli hinna dreifðu byggða úti um landið. Þetta var allt tekið saman í þessari ályktun og við sendum þetta frá okkur árið 1990. Því miður var of lítið hlustað á orð okkar þó að ég viti að þingmaður eins og Guðmundur Hallvarðsson, sem þekkti til málsins, hafi hlustað á, fylgst með þessum málum og séð að það sem menn vöruðu við er því miður vandi dagsins í dag. Það hefði verið betra ef menn hefðu fengist til þess á skynsemisnótum að setjast niður eins og boðið var upp á, m.a. af Farmanna- og fiskimannasambandinu, og reyna að finna þessa ágalla sem menn töldu að væru á kerfinu og reyna að ýta þeim til hliðar þannig að sátt mætti nást um þetta fyrir framtíðina.

Það var ekki gert og menn sitja uppi með þær stórkostlegu deilur sem í þjóðfélaginu eru. Mönnum finnst óréttlátt að einstakir aðilar í útgerð, þó þeir hafi staðið sig mjög vel, geti labbað út úr þessu með milljarða á milljarða ofan. Það er óréttlæti og þýðir ekkert að mæla því mót.

Ég skal fyllilega viðurkenna að margir af þeim sem hafa verið að gera út skip á undanförnum árum eru útsjónarsamir dugnaðarforkar sem hefðu spjarað sig í hvaða fiskveiðistjórnarkerfi sem er. Það breytir þó ekki þeirri staðreynd að löggjöf frá Alþingi færði mönnum gjafakvóta. Það er stór hluti af þeim verðmætum sem menn eru að selja í dag og það særir réttlætiskennd fólks að sumir geti labbað út úr þessu kerfi moldríkir, ef hægt er að orða það svo. Ég hef ekki nokkra öfundartilfinningu til þeirra sem verða moldríkir. Ég hygg að við verðum allir jafnríkir þegar við förum undir græna torfu, hvort sem við vorum ríkir í þessu lífi eða öðru. Ríkidæmi er ekki bara peningar. Ríkidæmi er líka hamingja fólks og annað sem fólk hefur út úr lífinu þannig að menn ættu ekkert að öfundast sérstaklega út af því.

Málið snýst heldur ekkert um það. Málið snýst um að þetta er óeðlilegt. Það er hreinlega óeðlilegt að menn hafi þessar heimildir og geti selt þær svona. Þetta átti aldrei að vera annað en nýtingar- og veiðiréttur eins og ég veit að hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson er algjörlega sammála mér um.