Stjórn fiskveiða

Fimmtudaginn 03. febrúar 2000, kl. 17:11:33 (3994)

2000-02-03 17:11:33# 125. lþ. 56.3 fundur 230. mál: #A stjórn fiskveiða# (frystiskip) frv., GHall
[prenta uppsett í dálka] 56. fundur, 125. lþ.

[17:11]

Guðmundur Hallvarðsson:

Herra forseti. Ég vil þakka Guðjóni A. Kristjánssyni fyrir það sem hér kom fram og ágæta ræðu hans. Ég spurðist fyrir um sérstöðu Vestfirðinga. Ég bið menn um að skilja mig ekki svo að það hafi verið í einhverri niðrandi merkingu um þá ágætu íbúa fyrir vestan. Einhverra hluta vegna hefur hins vegar borið meira á því í umræðunni frá Vestfjörðum hver staðan þar er.

Það var dálítið merkilegt að fara þangað vestur með hv. sjútvn., heimsækja fólkið á þessum stöðum og ræða við það. Þar var t.d. ungur maður sem nýbúinn var að kaupa sér húsnæði en allir í viðkomandi plássi töldu að hann væri ekki með réttu ráði, að fjárfesta í húsnæði í þessu óvissuástandi væri hrein firra. En hann sagðist samt hafa trú á framtíðinni. Hann trúði því að fiskveiðar yrðu áfram um ókomna tíð stundaðar á Vestfjörðum og einhvern tíma kæmi að því að hagurinn mundi nú vænkast. Það var kjarkur í þessum unga manni og betur að ekki væri fullt af úrtölufólki til að draga úr mönnum áræði, kjark og þor.

Mér fannst gott að hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson skyldi koma hér fram og skýra það sem mikil þörf hefur verið á að skoða gegnum árin, þ.e. stöðu Vestfjarða. Menn spyrja hvers vegna. Menn hafa sagt: Vestfirðingar. Ef eitthvað kemur upp á þá eru þeir fyrstir til að koma fram með athugasemdir eða heimta eitthvað annað og meira. Staðan er bara ekki þannig. Þetta er dugnaðarfólk sem vant er að vinna myrkranna á milli og lætur þess vegna í sér heyra ef illa stefnir sem því miður hefur gert um of langan tíma í þessu byggðarlagi.

Það er líka svolítið merkilegt þegar menn tala um framlegð í sjávarútvegi og þá miklu aukningu í verðmætasköpun sem orðið hefur í sjávarútveginum. Menn telja jafnvel að kvótinn eigi hlut að því máli vegna hagræðingar í veiðum. En hvað var þá með vinnsluna? Hvað með kröfur sjómanna á sínum tíma um markað? Þegar það loksins náðist fram þá spretta upp fullt af góðum, litlum fiskverkendum sem taka til sín meðafla sem stóru útgerðirnar hafa ekki hug á að vinna og kæra sig ekkert um. Einungis molarnir af borði stóra bróður duttu til þessara aðila. Þar birtist framlegðin, aukningin og verðmætasköpunin sem var miklu meiri þegar á allt var litið vegna þess að markaðirnir hjálpuðu þeim.

[17:15]

Nú höfum við því miður tekið það óheillaspor að ekki er lengur skerðing á sölu fisks í gámum til útlanda. Og það er eins og við manninn mælt þegar talað er við þá litlu aðila, einyrkjana, sem eru í fiskverkun með fáeina með sér að það er strax orðið vandamál. Nú eru menn farnir að flytja meira í gámum en þeir gerðu áður vegna þess að engin skerðingarákvæði eru á því að fiskur sé fluttur út í gámum.

Ég spyr sjálfan mig að því hvort þetta hafi verið rétt og svara því neitandi. Þó að menn tali um frjálsræðið og það eigi að vera allsráðandi, markaðslögmálið eitt eigi að gilda þá eru þó takmörk fyrir öllu. Og eftir að hafa hitt ungt fólk sem stýrði fiskvinnslu hér við Faxaflóasvæðið en flutti vestur til Bolungarvíkur af því að þar var meiri möguleiki á að afla hráefnis, fullt bjartsýni og vonglatt um að þarna gæti það staðið sig vel í stykkinu, betur en á Faxaflóasvæðinu, þá óttast ég að þessi breyting á útflutningi og afnám skerðingarinnar geti komið alvarlega niður á fiskvinnslunni og jafnvel dregið úr þeirri arðsemi sem við höfum séð þar á umliðnum árum.

Hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson kom inn á brottkast við veiðar og sagði eins og svör hafa verið frá sjómönnum í gegnum árin: Það er ekki kastað neinu frá mínu skipi en það er hins vegar hent af skipinu sem ég var á áður. Þetta er mjög alvarlegt mál. Við erum búin að standa frammi fyrir þessu ár eftir ár. Það er rætt um þetta, hafðar uppi getgátur í tonnum talið hve miklu er hent en við höfum ekki lagt í það að gera eina allsherjarkönnun. Og af því að hæstv. sjútvrh. er hér meðal okkar beini ég orðum mínum til hans: Er ekki grundvöllur fyrir því að fá óvilhallan aðila sem mundi í fullum trúnaði og trausti við sjómenn leita glöggra og skilmerkilegra upplýsinga um hvað er raunverulega að gerast á miðunum, hverju væri hent. Því að það væri slíkt vægi fyrir hæstv. sjútvrh., sjútvn. og fyrir Alþingi allt að taka á og skoða. Ef við fengjum slíkar upplýsingar sem við gætum stólað 100% á, þá hlyti að vera hægt að horfa til þessara átta enn frekar en við höfum gert og fiskveiðistjórnin tæki mið af því og málum yrði stýrt í samræmi við það.

Er það kannski rétta sporið sem við ættum að stíga, ef þetta næst ekki í gegn, að segja að koma skuli með allan afla að landi og það sem er undirmáls seljist á lægra verði en verði ekki dregið frá kvóta? Þetta er slíkt stórmál að við getum ekki lengur látið þessa eyðu við okkur blasa án þess að gera eitthvað í málunum.

Það er rétt sem hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson kom inn á varðandi hina fræknu sjómenn á litlu bátunum. Þetta eru, eins og sagt er, hundvanir sjómenn, búnir að vera áratugi til sjós, hafa eflaust byrjað á litlum hornum, á fjörðum, vogum og víkum og farið síðan á stór fiskiskip og eru nú komnir aftur nærri til uppruna síns ef svo má segja.

En hverjir eru það sem munu taka við? Hvert horfa menn til framtíðar? Horfum á Sjómannaskólann. Horfum á meðalaldur þeirra sem eru á togurunum. Greinilegt er að í ófremdarástand stefnir ef ekki verður eitthvað gert enn frekar og meira varðandi það að yngja upp og bæta í svo sjósókn, sjómennska og fiskimennskan verði eftirsóknarverð. Við sjáum hvernig kaupskipaflotinn hefur farið. Ég spáði því, þá formaður Sjómannafélags Reykjavíkur fyrir 20 árum, að stefna mundi í það sama með fiskiskipaflotann eins og þá stefndi í með kaupskipaflotann. Áður en við vissum af væri meginhluti íslenska fiskiskipaflotans aflagður en kominn undir hentifána.

Það er í umræðunni núna að vera með einhverja tvíflöggun og guð má vita hvað. Þetta er það sem blasir við okkur. Eins og ásóknin sýnir í Stýrimannaskólann eða farmannastéttina, er það þá álitlegt fyrir unga menn að leggja út í að læra til stýrimennsku eða vélstjórnar á skipum með það yfir höfði sér að ekki sé mikil framtíð í þeirri atvinnugrein? Ja, guð hjálpi þjóðinni þá.

Ég heiti á hæstv. sjútvrh. að beita sér fyrir því að efla gildi sjómannamenntunar svo að við stefnum ekki í þá glötun að þurfa jafnvel að fá erlenda aðila til að stunda sjósókn við Ísland.