Stjórn fiskveiða

Fimmtudaginn 03. febrúar 2000, kl. 17:21:16 (3995)

2000-02-03 17:21:16# 125. lþ. 56.3 fundur 230. mál: #A stjórn fiskveiða# (frystiskip) frv., Flm. GAK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 56. fundur, 125. lþ.

[17:21]

Flm. (Guðjón A. Kristjánsson) (andsvar):

Herra forseti. Oft hefur verið rætt um með hvaða aðferðum menn gætu áttað sig á þessu brottkasti. Ég held í raun og veru að það sé hægt en það þarf þá kannski svolítið snögg viðbrögð og áræði til. Ég held að það væri ákaflega fróðlegt ef hæstv. sjútvrh. gæfi út þá heimild að menn mættu landa afla utan aflamarks í t.d. einn og hálfan mánuð yfir vertíðina. Menn yrðu þá bara að gera grein fyrir því hvaða afli væri utan aflamarks og hann yrði seldur á fiskmörkuðum. Þá sæist vafalaust hvað kæmi að landi, hvort það væri í algjöru ósamræmi við það sem verið hefur í veiðum á undanförnum árum. Hvort allt í einu færi að koma mikið af dauðum fiski að landi, dauðblóðguðum fiski eða smáum fiski.

Þetta væri hægt að gera. Það er vissulega umdeilanlegt og menn mundu deila um hvort þetta væri eðlileg aðferð til að kanna þetta mál. En það er líka hægt, eins og hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson nefndi, að fá einhvern óvilhallan utanaðkomandi aðila til að gera könnun á því leynilega hvort afla er hent og þá hversu miklum. Þetta eru nú þær tvær aðferðir sem ég held að væru fljótlegastar til að átta sig á því hvernig þetta er gert.

Þetta verður ekki gert af Fiskistofu eða sjútvrn. Menn munu ekki segja rétt til um það, það er alveg borin von. Ef sjómannasamtökin gera könnun þá verður sagt: Ja, þeir segja ykkur eitthvað allt annað. Ef LÍÚ gerir könnun þá verður sagt að það væri ótrúverðugt.