Þróunarsjóður sjávarútvegsins

Fimmtudaginn 03. febrúar 2000, kl. 17:31:21 (3997)

2000-02-03 17:31:21# 125. lþ. 56.4 fundur 231. mál: #A Þróunarsjóður sjávarútvegsins# (fasteignagjöld) frv. 92/2000, GHall
[prenta uppsett í dálka] 56. fundur, 125. lþ.

[17:31]

Guðmundur Hallvarðsson:

Herra forseti. Hv. þm. Einar K. Guðfinnsson hefur nokkuð til síns máls. En mér þykir þó rétt að leiða hugann að því sem hér er sett á blað og hefur verið rætt.

Ég hef alltaf litið svo á að Þróunarsjóðnum væri raunverulega ætlað að koma til hjálpar þegar fiskvinnslufyrirtæki væru komin í vandræði. Í ljósi þess sem við okkur hefur blasað í gegnum árin, minnkandi fiskvinnslu í landi og þar af leiðandi færri hús nauðsynleg til fiskverkunar, hafa málin þróast þannig að mörg fiskvinnsluhús stóðu auð í fjölmörgum byggðarlögum og voru til vandræða. Þau fóru jafnvel á uppboð og lítil voru afskipti af viðkomandi húsnæði. Þess vegna má segja varðandi Þróunarsjóðinn sem kemur til hjálpar og leitar leiða til að leysa þann vanda sem við blasir ef húsin eru ekki lengur nýtanleg vegna breyttra ytri aðstæðna í sjávarútveginum, leitar leiða til þess að selja húsnæðið aftur --- honum er skylt að gera það --- að það er umhugsunarefni hvort ekki sé eðlilegt að fasteignagjöldin séu látin niður falla á meðan þetta ástand varir.

Hins vegar get ég alveg tekið heils hugar undir það með hv. þm. Einari K. Guðfinnssyni að fari Þróunarsjóðurinn hins vegar að reka viðkomandi hús, leigi það t.d. út eða sé í beinni samkeppni við aðra fasteignaeigendur á viðkomandi stöðum þá er í hæsta máta óeðlilegt að hann greiði ekki fasteignagjöld.

Þetta er mín meginskoðun á þessu máli án þess að ég ætli að teygja lopann lengi í þessu. Ég skil það mæta vel að sveitarfélögin eru ekkert allt of vel sett og ekkert allt of sæl af sínu miðað við það sem hefur verið að gerast á höfuðborgarsvæðinu. Ég tel þó að ekki sé hægt að leggja það að líku að segja beint að jafnræðisreglan sé hér brotin með það í huga að þarna er Þróunarsjóðurinn í björgunaraðgerðum og á meðan það varir a.m.k. er ekki eðlilegt að rukka hann um fasteignagjöld.