Stjórn fiskveiða

Fimmtudaginn 03. febrúar 2000, kl. 18:14:14 (4007)

2000-02-03 18:14:14# 125. lþ. 56.5 fundur 249. mál: #A stjórn fiskveiða# (framsal veiðiheimilda) frv., GuðjG
[prenta uppsett í dálka] 56. fundur, 125. lþ.

[18:14]

Guðjón Guðmundsson:

Herra forseti. Frv. sem við ræðum nú er flutt í annað sinn. Í fyrri skiptin fór það til sjútvn. þingsins en var ekki afgreitt þaðan, því miður. Hér er gerð þriðja tilraun. Markmið frv. sem við ræðum hér er að framsal veiðiheimilda verði að mestu bannað nema þegar um er að ræða skipti á jöfnum heimildum og á þeim tegundum sem sæta aflamarki. Þar með teljum við að komið verði í veg fyrir þá takmarkalausu verslun sem verið hefur með aflaheimildir um langt árabil. Það er enginn vafi á því að þessi verslun er höfuðástæða þeirrar miklu óánægju sem kraumar víða í þjóðfélaginu vegna fiskveiðistjórnarkerfisins.

[18:15]

Óánægja þessi hefur ekki síst verið hjá sjómönnum sem hafa talið kjör sín skerðast vegna þátttöku í kvótaleigu og sú óánægja hefur ítrekað leitt til allsherjarverkfalla sjómanna, líklega í þrígang.

Það er fróðlegt að fletta upp í þeim umsögnum sem sjútvn. bárust um þetta frv. þegar það var fyrst lagt fram. Í umsögn LÍÚ segir að stjórn LÍÚ hafi samþykkt að mæla gegn samþykkt frv. og kom engum á óvart. Síðan er lögð áhersla á ágæti framsalsveiðiheimilda. Í niðurlagi umsagnar LÍÚ segir, með leyfi forseta:

,,Það er sama hvar borið er niður um efni þessa frumvarps. Með samþykkt þess yrði sjávarútveginum valdið ómældum skaða um alla framtíð.``

Þessi umsögn kemur svo sem ekkert á óvart. Hér er verið að fjalla um gríðarlaga hagsmuni, hagsmuni sem nema milljörðum og jafnvel tugum milljarða og það er út af fyrir sig skiljanlegt að handhafar kvótans verji þá hagsmuni af öllu afli. Ég er reyndar þeirrar skoðunar að skynsamlegra væri hjá LÍÚ að ljá máls á því að sníða af kerfinu verstu vankantana, þ.e. að hætt verði þessari ótakmörkuðu verslun með óveiddan fisk í sjónum sem er sameign þjóðarinnar skv. 1. gr. laga um stjórn fiskveiða. Ég tel að það hefði verið skynsamlegt hjá þeim að gera það vegna þess að það verður aldrei sátt um þetta verslunarkerfi og óánægjan með það hefur vaxið ár frá ári og kraumar um allt þjóðfélagið. Ég hefði haldið að það væri útvegsmönnum í hag að ná sem víðtækastri sátt um stjórn fiskveiðanna. Það gera menn ekki meðan þeir lemja hausnum við steininn og vilja engar breytingar á þessu sviði. Í umsögn Farmanna- og fiskimannasambandsins segir, með leyfi forseta:

,,Farmanna- og fiskimannasamband Íslands lýsir yfir stuðningi við lagafrumvarpið og hvetur alþingismenn til þess að afgreiða málið eins og það liggur fyrir. Með slíkri afgreiðslu er hægt að vona að meiri sátt gæti skapast um gildandi fiskveiðikerfi sem virðist eiga þverrandi stuðning hjá almenningi í landinu.``

Sjómannasamband Íslands sendi mjög ítarlega umsögn og þar segir m.a., með leyfi forseta:

,,Allt frá því að byrjað var að stjórna fiskveiðum með þeim hætti sem nú er gert hefur Sjómannasamband Íslands haft fyrirvara varðandi þann þátt fiskveiðistjórnarinnar er snýr að frelsi útgerðarmanna til að versla með veiðiheimildir. Sérstaklega hafa hin svokölluðu leiguviðskipti með veiðiheimildir, þ.e. framsal veiðiheimilda innan fiskveiðiársins, verið þyrnir í augum Sjómannasambandsins. Á undanförnum árum hefur það sýnt sig að viðskipti með veiðiheimildir eru nánast eingöngu notuð til að lækka uppgjörsverð til sjómanna, þar sem aðeins er gert upp við sjómenn miðað við peningagreiðslu fyrir aflann, en verðmæti veiðiheimildanna, sem einnig er hluti af greiðslu fyrir aflann, er sleppt við uppgjör.

Framangreind viðskipti hafa átt sér stað í skjóli ímyndaðrar hagræðingar, en þegar grannt er skoðað á þessi viðskiptamáti ekkert skylt við hagræðingu. Ekki er eingöngu verið að hlunnfara sjómenn með slíkum viðskiptaháttum heldur þýðir þetta að hafnir landsins eru hlunnfarnar um hafnargjöld og sama er að segja um sjóðagjöld til Fiskveiðasjóðs. Það sem alvarlegast er í þessum viðskiptum er að ríki og sveitarfélög eru einnig hlunnfarin um opinber gjöld af þeim tekjum sjómanna sem þeir ættu að fá ef rétt væri gert upp samkvæmt kjarasamningi.``

Síðar í þessari sömu umsögn segir, með leyfi forseta:

,,Sú skoðun hefur verið ríkjandi innan Sjómannasambands Íslands að afnema þyrfti sem fyrst frelsi einstakra útgerðarmanna til að versla með veiðiheimildir. Sjómannasamband Íslands hefur margsinnis lagt til þá reglu sem fram kemur í 1. gr. frumvarpsins, þ.e. að geti skip ekki veitt það magn sem því er heimilt samkvæmt úthlutun veiðiheimildanna ætti að skila því sem eftir er til baka, þannig að hægt væri að endurúthluta því til annarra skipa. Sjómannasamband Íslands fagnar því 1. og 3. gr. frumvarpsins þar sem gert er ráð fyrir að útgerðir skili til baka þeim veiðiheimildum sem þær ekki geta nýtt sjálfar auk þess sem leiguviðskipti með veiðiheimildir verða afnumin. Þrátt fyrir breytingar á lögunum um stjórn fiskveiða skv. 3. gr. frumvarpsins um afnám leiguviðskipta verður áfram hægt fyrir útgerðir að skipta innbyrðis á jöfnum verðmætum heimildanna. Sjómannasamband Íslands fellst á að þannig viðskipti leiði til hagræðingar og samþykkir því að slík viðskipti verði ekki afnumin. Að öðru leyti felur frumvarpið í sér afnám leiguviðskipta með veiðiheimildir og er sú aðgerð löngu orðin tímabær. Sjómannasamband Íslands styður því 1. og 3. gr. frumvarpsins og leggur til að Alþingi samþykki þær óbreyttar.``

Í umsögn Vélstjórafélags Íslands segir, með leyfi forseta: ,,Vélstjórafélag Íslands hefur frá upphafi stutt hið svokallaða ,,kvótakerfi`` og talið að þrátt fyrir fjölmarga galla sé það engu að síður skásta kerfið sem völ er á í dag. Félagið hefur einnig talið að frjálst framsal veiðiheimilda sé ein af forsendum þess og studdi það á sínum tíma með því skilyrði að kaup einstakra útgerða á veiðiheimildum hefði ekki áhrif á kjör sjómanna, þ.e. rýrði þau ekki. Um þetta skilyrði taldi félagið á sínum tíma að ríkti fullt samkomulag við forustu útvegsmanna en það er í andstöðu bæði við landslög og gerða kjarasamninga að láta sjómenn taka þátt í kaupum á veiðirétti. Því miður hefur forusta útgerðarmanna ekki staðið við sitt nema síður sé sem hefur leitt til þess að brask með veiðiheimildir er komið út fyrir öll velsæmismörk og bara það eitt, ef látið verður afskiptalaust, mun ganga af þessu stjórnkerfi dauðu innan skamms. Að öllu þessu skoðuðu er það mat félagsins að þær breytingar sem hér eru lagðar til séu nauðsynlegar. Þær ættu að geta tekið fyrir braskið en viðhalda engu að síður allnokkrum sveigjanleika varðandi millifærslur aflaheimilda.``

Ég ætla að lokum að vitna í umsögn Alþýðusambands Vestfjarða þar sem segir, með leyfi forseta:

,,Stjórnarfundur Alþýðusambands Vestfjarða mælir eindregið með samþykkt frv. til laga með breytingu á lögum nr. 38, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum.`` --- Þ.e. þetta mál sem hér er til umræðu. Síðan segir í umsögninni:

,,Með samþykkt þessa frumvarps væri að miklum hluta komið í veg fyrir það gengdarlausa brask með veiðiheimildir sem átt hefur sér stað undanfarin ár og skert hefur lífskjör sjómanna og fiskverkafólks í ríkum mæli. Atvinnuöryggi og afkoma þessa fólks er komið undir því hvernig hinir svokölluðu umráðamenn veiðiheimildanna, útgerðaraðilar, ráðstafa og selja þessa þjóðareign. Öll framkvæmd þeirra viðskipta hefur verið svo siðlaus að við svo búið er ekki hægt að una. Með samþykkt þessa frumvarps væri hægt að ná einhverjum áttum í þeim frumskógi sem kvótakerfið er.``

Þessar umsagnir helstu samtaka sjómanna eru mjög skýrar. Öll þessi samtök mæltu eindregið með því að óheft framsal veiðiheimilda verði afnumið. Farmanna- og fiskimannasambandið, Sjómannasambandið, Vélstjórafélag Íslands og Alþýðusamband Vestfjarða tala fyrir munn nánast allra þeirra sjómanna sem vinna eftir gildandi kerfi. Og þegar þessi heildarsamtök sjómanna tala með svo skýrum hætti gegn ákveðnum þætti í lögum um stjórn fiskveiða, þá held ég að flestir hljóti að sjá að taka verður tillit til slíkra sjónarmiða. Það gengur einfaldlega ekki að skella skollaeyrum við þeim, enda mun þetta kerfi auðvitað ekki halda velli óbreytt þegar svo eindregin andstaða er gegn því meðal sjómanna. Óánægja þessara aðila með óbreytt kerfi hefur, eins og ég nefndi fyrr í ræðu minni, leitt til ítrekaðra allsherjarverkfalla sjómanna. Ég held að það bendi ekkert til annars en óánægja með þetta óhefta framsal veiðiheimildanna muni halda áfram og muni halda áfram að vaxa ef ekkert verður að gert. Framsalið hefur þróast á allt annan hátt en gert var ráð fyrir þegar lögin um stjórn fiskveiða voru upphaflega sett. Framsalið var fyrst og fremst hugsað til hagræðingar, t.d. til að skipta á veiðiheimildum, karfa fyrir þorsk eða ýsu fyrir ufsa o.s.frv. eða færslu heimilda milli skipa í eigu sömu útgerðar eða óvæntra atvika eins og skipsskaða eða bilana. En allar þær fjölbreyttu aðferðir sem þróast hafa til að versla með heimildirnar, óveiddan fiskinn í sjónum, sá enginn fyrir. Um þetta geta menn sannfærst með því að lesa ræður þingmanna frá þeim tíma sem lögin voru upphaflega sett.

Þegar slík verslun með veiðiheimildir er gagnrýnd, þá er svar þeirra sem vilja óbreytt kerfi eiginlega staðlað: ,,Frjálsa framsalið er undirstaða kerfisins, án þess er kvótakerfið einskis virði.`` Þetta höfum við heyrt aftur og aftur síðasta áratuginn og er má segja staðlað svar. Meiningin með frjálsa framsalinu þegar lögin um stjórn fiskveiða voru sett var út af fyrir sig ágæt, en það sem ég tel að hafi brugðist er að undirbúningur hefur ekki verið sem skyldi þegar lögin voru sett og lögin urðu einfaldlega of götótt þannig að kvótaeigendum tókst að finna hinar fjölbreyttustu leiðir til að gera veiðiheimildirnar að verslunarvöru.

Það er um gífurlegar fjárhæðir að ræða í þessum kvótaviðskiptum. Tilfærslur aflaheimilda milli aðila hafa verið á þriðja hundrað þúsund tonn reiknað í þorskígildum. Stærsti hluti þessara tilfærslna er talinn vera skipti á tegundum og færsla milli skipa í eigu sömu útgerðar og þær tilfærslur eru eðlilegar og sjálfsagðar og til mikils hagræðis. Menn hefur greint nokkuð á um það hve hátt hlutfall framsalsins eru slíkar tilfærslur en talið er að varlega megi áætla að 20--30% framsalsins séu bein viðskipti, þ.e. leiga og sala á kvóta eða 40--60 þúsund þorskígildistonn og þá er það náttúrlega reikningsdæmi hversu gífurlegar fjárhæðir eru á ferðinni í slíkri verslun.

Hörð viðbrögð þeirra sem hafa aðstöðu til að fénýta kvótann skýrast náttúrlega af þessum gríðarlegu hagsmunum. Þeir vilja ekki breyta þessu, vilja geta verslað áfram með veiðiheimildirnar og út af fyrir sig er ekkert við þá aðila að sakast. Þeir eru ekki að gera neitt rangt. Þeir eru einfaldlega að vinna eftir gildandi lögum, en það er skoðun okkar flutningsmanna þessa frv. að þeim lögum þurfi einfaldlega að breyta og út á það gengur frv.

Bent hefur verið á að skuldir sjávarútvegsins hafi vaxið mikið á undanförnum árum en fjárfestingar í greininni hafi hvergi nærri aukist að sama skapi. Skýringin er auðvitað sú að menn hafa verið að fara út úr greininni með mikinn söluhagnað af kvótanum en þeir sem eftir sitja hafa skuldsett sig stórlega til að kaupa af þeim kvóta.

Því hefur oft verið haldið fram í þessari umræðu að vertíðarbátum muni fækka mjög ef leiga á kvóta verði bönnuð því að kvótaleigan sé forsenda fyrir rekstri þessara báta í dag. Ég er algerlega ósammála þessu. Staðreyndin er sú að þeim bátum hefur fækkað mjög ört á undanförnum árum. Vertíðarbátarnir svokölluðu eru flestir horfnir úr flotanum. Nýlega var sagt í útvarpi frá fundi sjómanna á Ísafirði þar sem fram kom að eftir væru orðnir þrír vertíðarbátar á öllum Vestfjarðakjálkanum. Hver hefði trúað því fyrir tíu árum að það væru þrír vertíðarbátar á Vestfjörðum því að óvíða eiga vertíðarbátarnir betur við en á því svæði. Þróunin hefur orðið þessi og mun halda áfram að öllu óbreyttu. Ástæðan er náttúrlega sú að menn halda það ekki út ár eftir ár að gera út báta á leigukvóta, kvóta sem þeir þurfa að leigja til sín á svipuðu verði og þeir fá fyrir fiskinn upp úr bát. En yrði þetta frv. að lögum mundu þessir bátar fá aukinn kvóta þegar farið verður að endurúthluta þeim kvóta sem ekki veiðist og ekki verður þá hægt að versla með eins og tíðkast hefur á undanförnum árum.

Herra forseti. Sá þáttur fiskveiðistjórnarinnar sem lýtur að óheftu framsali aflaheimilda hlýtur að láta undan. Það verður enginn starfsfriður í þessum undirstöðuatvinnuvegi okkar, sjávarútveginum, ef við búum við það kerfi sem sjómannastéttin og reyndar stærsti hluti þjóðarinnar er jafnósátt við og raun ber vitni. Það verður aldrei sátt um óbreytt ástand með öllum þeim aðferðum sem menn hafa þróað til að versla með fiskveiðiheimildirnar sem kórónast í því að kvótinn gengur í arf og er bitbein í skilnaðarmálum hjóna. Það verður að stöðva kvótaverslunina. Því fyrr, því betra.

Þetta frv. gerir ráð fyrir að það sé gert með því að bannað verði að fénýta kvótann en skipti á veiðiheimildum leyfð, enda er stórkostlegt og ótvírætt hagræði af þeim. Þetta frv. gengur út á að framsal aflaheimilda verði með þeim hætti sem þingmenn ætluðust til þegar lögin um stjórn fiskveiða voru sett og allir þeir braskmöguleikar sem menn hafa þróað í kerfinu eftir að hið frjálsa framsal var samþykkt á Alþingi 1990 verði afnumdir. Það er von mín að þingmenn geti sameinast um það þjóðþrifaverk. Þá fyrst verður sátt um stjórn fiskveiðanna og er nú tími til kominn.

Ég vil aðeins, herra forseti, áður en ég lýk máli mínu víkja að makalausri ræðu hv. þm. Guðmundar Árna Stefánssonar. Hann kom hér í ræðustól, hélt langa og ítarlega ræðu og komst hjá því að segja eitt einasta orð um málið sem er á dagskrá. Ég var nákvæmlega jafnnær á eftir hvort hv. þm. var sammála einhverju í frv. eða ekki því hann minntist ekki á það. Öll hans ræða var eitthvert kersknishjal í garð hæstv. sjútvrh., einhverjir Hafnarfjarðarbrandarar, þeir eru jú báðir úr Hafnarfirði, en ég held að það sem við þurfum á að halda í umræðunni um þennan mikilvæga málaflokk, sjávarútvegsmálin, sé eitthvað annað en Hafnarfjarðarbrandarar.

Hv. þm. sagði eitthvað á þá leið að við sem stæðum að þessu frv. hefðum jafnan setið hjá þegar hér hefðu komið fram merkar breytingar á fiskveiðistjórnarkerfinu. Þetta er bara einfaldlega rangt. Við höfum hins vegar ekki verið tilbúnir að samþykkja tillögur Samfylkingarinnar sem allar ganga út á skattheimtu, aukna skattheimtu á undirstöðuatvinnuveg okkar. Við erum einfaldlega ósammála því. Við teljum okkur hins vegar benda á raunhæfa leið með frv. til að eyða ósættinu um fiskveiðistjórnina og þó að við gerum það, þá erum við ekki endilega sammála öllu ruglinu sem kemur frá Samfylkingunni, síður en svo.

Hv. þm. nefndi líka að lítið hefði farið fyrir þeim köppum þegar ráðherrar sjávarútvegsmála og flokksbræður okkar hefðu verið að berja í gegn ýmis mál, og ég skildi hv. þm. þannig að við hefðum alltaf látið það yfir okkur ganga og verið sammála. Það er einfaldlega rangt líka. Ég minni á að ég hef í öllum tilfellum greitt atkvæði gegn því þegar verið var að festa í sessi eitthvað sem varðaði framsalið. Ég greiddi atkvæði gegn afnámi línutvöföldunarinnar og fleiru og fleiru, en ég minnist þess hins vegar að þegar hv. þm. og ég studdum sömu ríkisstjórnina og ég var að brölta þetta og greiða atkvæði gegn einstökum málum, þá greiddi hann alltaf atkvæði með þeim. Þá var hann ráðherravænni en allir aðrir menn í þeim ríkisstjórnarflokkum.