Stjórn fiskveiða

Fimmtudaginn 03. febrúar 2000, kl. 19:15:09 (4026)

2000-02-03 19:15:09# 125. lþ. 56.5 fundur 249. mál: #A stjórn fiskveiða# (framsal veiðiheimilda) frv., Flm. GHall
[prenta uppsett í dálka] 56. fundur, 125. lþ.

[19:15]

Flm. (Guðmundur Hallvarðsson):

Herra forseti. Það er mjög liðið á fundartímann og ég ætla ekki að halda langa tölu. En aðeins út af síðustu orðum hv. þm. Jóhanns Ársælssonar. Hann gat um heimsendaspá hæstv. forsrh. en ég held að honum og flokksmönnum hans og öllum alþingismönnum hafi brugðið við því fljótlega eftir Vatneyrardóminn mátti heyra af því og sjá í fréttum að a.m.k. 30 skip voru komin á sjó sem höfðu ekki kvóta eða heimildir til veiðanna. Okkur er öllum ljóst að eins og menn hafa lýst áhyggjum sínum yfir niðurstöðu Hæstaréttar þá hafa menn áhyggjur af þessu og hv. síðasti ræðumaður gat um áhyggjur sínar af þessu. Hin svonefnda heimsendaspá sem hv. þm. nefndi áðan er náttúrlega engin heimsendaspá. Þetta er spá um alvarleika málsins við Íslandsstrendur ef dómur fellur í þá átt að allir megi fara á sjó. Það er því ákveðið vandamál sem fylgir þessu og hæstv. forsrh. gerði sér fulla grein fyrir og gerði þjóðinni eftirminnanlega grein fyrir því. Hitt er svo annað mál að tungutak hans í útlistuninni á því hvernig málin muni þróast virðist hafa farið fyrir brjóstið á samfylkingarmönnum ef svo fer sem menn eru ýmist að vona að fari eða fari ekki.