Sala jarðeigna ríkisins

Mánudaginn 07. febrúar 2000, kl. 15:05:35 (4034)

2000-02-07 15:05:35# 125. lþ. 57.2 fundur 280#B sala jarðeigna ríkisins# (óundirbúin fsp.), SJS
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur, 125. lþ.

[15:05]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að spyrja hæstv. forsrh. hvað líði eða hver sé almenn stefna hæstv. ríkisstjórnar í málefnum ríkisjarða hvað varðar meðferð eigna ríkisins. Nú er uppi sérkennileg umræða í þjóðfélaginu á þá leið að Alþingi eða meiri hluti Alþingis hafi samþykkt að selja tilteknar eignir, tilteknar jarðir, t.d. eyjarnar Málmey og Elliðaey. Það sem hér var afgreitt fyrir jól, herra forseti, var að mínu mati fyrst og fremst heimildir til handa hæstv. ríkisstjórn að selja eða eftir atvikum selja ekki viðkomandi eignir.

Ég vil spyrja hæstv. forsrh.: Lítur hann svo á að sú skylda hvíli á ríkisstjórninni eftir að hafa fengið nefndar heimildir í hendur að koma þessum eignum út eða eru þetta heimildir samkvæmt orðanna hljóðan sem eftir atvikum má nýta eða nýta ekki?

Ég vil í öðru lagi spyrja hæstv. forsrh.: Er einhver samræmd stefna til staðar af hálfu ríkisstjórnarinnar eða gildir um þetta geðþóttavilji og tilviljanakenndar ákvarðanir einstakra ráðherra?

Jarðirnar heyra undir mismunandi ráðuneyti, þrjú, fjögur ráðuneyti, og jafnmargir hæstv. ráðherrar fara með forsvar þessara mála eftir því undir hvaða ráðuneyti viðkomandi stofnanir stjórnsýslulega heyra, hvort um er að ræða jarðadeild landbrn., Siglingastofnun undir samgrn. o.s.frv. Þar af leiðandi er eðlilegt að spurt sé: Gildir einhver samræmd stefna á vegum ríkisstjórnarinnar um meðferð þessara mála eða ekki?

Í þriðja lagi. Telur hæstv. forsrh. ekki að fortakslaust skuli auglýsa slíkar eignir ríkisins áður en þær eru seldar, sbr. t.d. 11. gr. stjórnsýslulaga, og sbr. reglugerð nr. 651/1994, um ráðstafanir á eignum ríkisins?

Að lokum. Hvað finnst hæstv. forsrh. sjálfum persónulega um það að selja í hendur einstaklingum tilteknar náttúruperlur og hvaða samræmi er í því og framgöngu ríkisstjórnarinnar að öðru leyti sem t.d. þykir gera nokkuð harðar kröfur á hendur landeigendum á grundvelli þjóðlendulaganna svonefndu? Er þá á ferðinni samræmi í framgöngu stjórnvalda að þessu leyti að á aðra hliðina eru gerðar miklar landakröfur en á hina hliðina stendur til að því er virðist að selja jarðnæði úr almannaeigu?