Sala jarðeigna ríkisins

Mánudaginn 07. febrúar 2000, kl. 15:12:55 (4038)

2000-02-07 15:12:55# 125. lþ. 57.2 fundur 280#B sala jarðeigna ríkisins# (óundirbúin fsp.), SJS
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur, 125. lþ.

[15:12]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég biðst undan því að ræða þessi mál út frá tilteknum nafngreindum einstaklingum. Það er án efa svo að það er fjöldi ágætra Íslendinga sem eru vel að því komnir út af fyrir sig að geta búið vel um sig einhvers staðar í landinu. En ég tel að við eigum ekki að ræða þetta út frá þeim hlutum heldur út frá grundvallaratriðum málsins.

Það er alveg ljóst að við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs erum andvígir því í grundvallaratriðum að taka land og ég tala nú ekki um verðmætar og sérstæðar náttúruperlur eins og sumar af merkustu eyjum við landið eru, taka þær úr almannaeigu og selja þær í hendur einstaklingum, hverjir sem þeir eru, sem geta í framhaldinu lokað þær af og jafnvel torveldað afganginum af landsmönnum að njóta þeirra sem slíkra. Það er röng stefna og verið að fara í öfuga átt með þessa hluti. Þess vegna fer ég fram á að það verði meira en orðin tóm af hálfu hæstv. ríkisstjórnar þó að mér þyki það í sjálfu sér gott að forsrh. hvetur til þess að þarna sé farið varlega.

Ég skora á hæstv. forsrh. að hlutast til um að nú verði ekki um frekari sölur af þessu tagi að ræða fyrr en mótuð hefur verið almenn og samræmd stefna um meðferð þessara mála.