Löggæsla í Grindavík

Mánudaginn 07. febrúar 2000, kl. 15:21:18 (4044)

2000-02-07 15:21:18# 125. lþ. 57.2 fundur 281#B löggæsla í Grindavík# (óundirbúin fsp.), ÁSJ
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur, 125. lþ.

[15:21]

Árni Steinar Jóhannsson:

Virðulegi forseti. Ég fagna að sjálfsögðu þeirri lausn sem er komin að því er virðist fyrir Grindavík og að því er virðist er komið á móts við óskir íbúanna ef ég skil hæstv. dómsmrh. rétt. Það er einmitt þetta sem brennur á mönnum raunar út um allt land, það er þessi grennd eða að lögreglan sé á staðnum. Víða eru menn að gera miklar breytingar og ástæða er til að vekja athygli á því. Ég tel að mál Grindavíkur sé bara eitt mál af mörgum sem gera íbúana órólega. Það er verið að færa til og þjóna með bílum, sums staðar um lengri veg og fólk sættir sig ekki við þetta í nútímasamfélagi. Ég vildi bara koma þessu að.

Ég árétta enn og aftur að enn er það áhyggjuefni mjög margra frá bænum Grindavík hvernig málum er komið og hvernig á að skipa þeim þó svo hér hafi verið gefnar upplýsingar um að fullnægjandi sé.