Skráning og mat fasteigna

Mánudaginn 07. febrúar 2000, kl. 16:59:34 (4065)

2000-02-07 16:59:34# 125. lþ. 57.9 fundur 290. mál: #A skráning og mat fasteigna# (Landskrá fasteigna) frv. 47/2000, 281. mál: #A þinglýsingalög# (Landskrá fasteigna) frv. 45/2000, 285. mál: #A brunatryggingar# (Landskrá fasteigna) frv. 40/2000, dómsmrh.
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur, 125. lþ.

[16:59]

Dómsmálaráðherra (Sólveig Pétursdóttir):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frv. um breyting á þinglýsingalögum, nr. 39/1978. Frv. þetta er lagt fram samhliða frv. fjmrh. til breytinga á lögum um skráningu og mat fasteigna og frv. iðnrh.- og viðskrh. til breytinga á lögum um brunatryggingar.

Í þessum frv. er gert ráð fyrir myndun sameiginlegs gagna- og upplýsingakerfis fyrir allar fasteignir er nefnist Landskrá fasteigna eins og nánar er rakið í skýringum athugasemda við 1. gr. frv. til breytinga á lögum um skráningu og mat fasteigna.

[17:00]

Í a-lið 7. gr. sama frv. er gert ráð fyrir að Landskrá fasteigna skiptist í:

Stofnhluta, fyrir grunnupplýsingar um auðkenni og afmörkum fasteigna.

Mannvirkjahluta, fyrir byggingarfræðilegar upplýsingar.

Fasteignamatshluta, fyrir matsforsendur og verð.

Þinglýsingarhluta, fyrir upplýsingar um þinglýsta eigendur og eignarhlut þeirra ásamt upplýsingum um veðbönd, kvaðir og önnur atriði er þinglýsingabók geymir.

Með tilkomu Landskrár fasteigna mun öll fasteignaskráning og þinglýsing fasteignatengdra skjala fara fram í sameiginlegu gagna- og upplýsingakerfi. Í sameiginlegum hluta Landskrár fasteigna verða fasteignir skilgreindar með heiti, auðkenni og afmörkun. Má að þessu leyti líkja stofnhluta Landskrár fasteigna við kennitöluskrá Hagstofu Íslands, þjóðskrár. Skráningaraðilar í Landskrá fasteigna verða byggingarfulltrúar um land allt, Fasteignamat ríkisins og þinglýsingarstjórar.

Til þess að takast megi að koma á samhæfðum vinnubrögðum allra þessara skráningaraðila er nauðsynlegt að taka upp reglur um hvernig fasteign verði stofnuð í Landskrá fasteigna. Um það eru sett nánari fyrirmæli í fyrrgreindu frv. fjmrh. til breytinga á lögum um skráningu og mat fasteigna auk fyrirmæla í 9. gr. þessa frv. Í meginatriðum er sett það skilyrði fyrir stofnun fasteignar í Landskrá fasteigna að Fasteignamat ríkisins hafi forskráð efni svonefnds stofnskjals í landskrána áður en til þinglýsingar þess kemur. Stofnskjal er nýtt hugtak í lögum. Með því er átt við skjal er felur í sér skilgreiningu nýrrar lóðar eða landeignar í Landskrá fasteigna.

Mikilvæg forsenda fyrir myndun Landskrár fasteigna er að þinglýsingabókum sýslumanna verði komið í tölvutækt form og er mælt fyrir um slíka tilhögun þinglýsingar í 2. gr. frv. Einnig er víða í frv. að finna nauðsynlegar breytingar á einstökum greinum þinglýsingalaganna af þessu tilefni.

Það nýmæli er lagt til í a-lið 1. gr. frv. að halda skuli dagbók yfir þau skjöl sem afhent eru þinglýsingarstjóra til aflýsingar. Með þessu munu réttaráhrif aflýsingar miðast við þann dag er beiðni um aflýsingu er móttekin en ekki hvenær aflýsing fór fram eins og nú er. Jafnframt er gert ráð fyrir því í a-lið 4. gr. að tölvuskráning aflýsingar komi í stað útstrikunar- og brottnáms skjala úr skjalahylkjum. Það hefur í för með sér nokkurn vinnusparnað fyrir starfslið þinglýsingadeildar sýslumannsembætta.

Í b-lið 1. gr. frv. er mælt fyrir um aukna heimild þinglýsingarstjóra til að vísa skjali frá þinglýsingu ef form þess er ekki í samræmi við auðkenni og afmörkun fasteignar í stofnhluta Landskrár fasteigna. Breyting þessi er nauðsynleg til að tryggja að skjali verði þinglýst á rétta fasteign í landskrá og fylgt verði þeim formkröfum er gilda munu um stofnun nýrra fasteigna.

Þá vil ég að lokum geta þess að í bráðabirgðaákvæðum frv. er mælt fyrir um hvernig samræmingu verði náð ef misræmi er á efni þinglýsingabóka og fasteignaskrár Fasteignamats ríkisins í Landskrá fasteigna.

Hæstv. forseti. Ég hef í meginatriðum gert grein fyrir efni frv. og legg til að því verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. allshn. og 2. umr.