Skráning og mat fasteigna

Mánudaginn 07. febrúar 2000, kl. 17:35:29 (4069)

2000-02-07 17:35:29# 125. lþ. 57.9 fundur 290. mál: #A skráning og mat fasteigna# (Landskrá fasteigna) frv. 47/2000, 281. mál: #A þinglýsingalög# (Landskrá fasteigna) frv. 45/2000, 285. mál: #A brunatryggingar# (Landskrá fasteigna) frv. 40/2000, fjmrh.
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur, 125. lþ.

[17:35]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Ég tel að hér hafi margt forvitnilegt borið á góma í tengslum við þetta mál. En það er með þetta eins og önnur framfara- og umbótamál að það vakna alltaf sömu spurninarnar. Í fyrsta lagi: Hvað kostar þetta og hver á að borga kostnaðinn? Í öðru lagi, vegna þess að hér er um að ræða mál sem byggir á tölvuvinnslu og stofnun tiltekins gagnagrunns, þá vakna spurningar um persónuvernd og hvernig unnt sé að tryggja hana og vernda réttindi einstaklingsins gagnvart slíkum grunni.

Ég tel að þetta séu eðlilegar spurningar. Ég tel sjálfsagt að spyrja þeirra og reyna að svara þeim eftir bestu getu. Við höfum lagt hér fyrir upplýsingar um hvað þetta kerfi muni kosta samkvæmt bestu fyrirliggjandi áætlunum. Talið er að það muni kosta um 615 millj. yfir fjögurra ára tímabil að koma þessu á laggirnar. Það eru vissulega miklir peningar en við gerum ráð fyrir tiltekinni fjármögnun eins og fram kom í máli hæstv. viðskrh., að þetta verði lagt á tiltekinn gjaldstofn sem fyrir er og fasteignaeigendur bera.

Ég tel hins vegar að það komi fyllilega til greina að kanna t.d. hvort eðlilegt sé að þeir sem njóta hagræðis af þessu fyrirkomulagi í framtíðinni, t.d. sveitarfélög eða aðrir, taki sinn þátt í þessum kostnaði. Auðvitað er sjálfsagt að þeir sem fá aðgang að skránni greiði eitthvað fyrir þann aðgang. Það er þá auðvitað upp í rekstrarkostnaðinn á skránni í anda þeirrar umræðu sem hér fór fram um þjónustugjöld áðan að menn greiði fyrir slík afnot. Enda er það þannig í dag að Fasteignamat ríkisins hefur þó nokkrar sértekjur vegna þeirra greiðslna sem t.d. fasteignasalar og aðrir sem þar geta leitað upplýsinga greiða fyrir þjónustuna. Það er því að sjálfsögðu opið mál og einboðið að menn geti ekki hagnýtt sér upplýsingar úr skránni án þess að greiða eitthvað fyrir þær. En það þarf þó að stilla því í hóf og vega og meta hvers konar upplýsingar er verið að láta af hendi.

Í tilefni af umræðum um persónuverndina, bæði af hálfu hv. þm. Péturs Blöndals og hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur, tel ég rétt að þingnefndin fari sérstaklega yfir það atriði. Þetta frv. hefur ekki, eftir því sem ég best veit, verið sérstaklega yfirfarið með tilliti til þess sem hv. þm. spurði um. En auðvitað hefur alltaf verið gengið út frá því að tryggilega yrði staðið að þessum þætti málsins. Ef einhver ákvæði vantar í frv. til að tryggja það þá þarf bara að bæta þeim inn í við meðferð þingsins. Þar hefur ekki annað staðið til en að gæta fyllsta öryggis um þær upplýsingar sem leynt eiga að fara. Hins vegar má ekki gleyma því, eins og ég sagði áðan, að mikið af þessum upplýsingum eru núna tiltækar ef fólk ber sig eftir þeim eins og kunnugt er, til að mynda í formi veðbókarvottorða og þess háttar skjala.

Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir spurði hvort aðgangsheimild að landskránni yrði skilgreind eftir því hver ætti í hlut. Ég tel að það sé augljóst að svo verði, að tilteknir aðilar geti fengið aðgang að tilteknum upplýsingum en ekki endilega öðrum. Það verður auðvitað að vinna það mál til hlítar og ekki víst að allt slíkt eigi erindi inn í löggjöfina heldur inn í reglur sem koma á eftir, á grundvelli laganna þegar þau hafa verið sett. Þannig á auðvitað eftir að vinna úr ýmsum atriðum.

Síðan bar hér á góma, eins og ég rakti í framsögu minni, að ætlunin er að nota þetta mál að hluta til til að efla tölvuvinnslu og atvinnuuppbyggingu norður í landi. Ég tel að það sé aukakostur við þetta mál að það skuli þess eðlis að hægt er að setja verulegan hluta af þessari skráningu og vinnslu niður úti á landi. Við höfum miðað við að það yrði gert á Akureyri vegna þess að þar er öflugasta umdæmisskrifstofa Fasteignamatsins í dag og það öflugt tölvuumhverfi að það á ekki að vera vandkvæðum bundið, að því gefnu að gagnavinnslulínur séu fyrir hendi, að setja þetta þar niður og afla þess starfskrafts sem þörf er á á atvinnusvæðinu í kringum Akureyri. Við erum þarna að tala um 10--12 viðbótarstörf á þessu sérhæfða sviði. Auðvitað getur endað með því að einhvers staðar annars staðar í ríkiskerfinu, t.d. á vettvangi einhverra sýslumannsembætta, kannski ekki síst hjá stóru embættunum fyrir sunnan, minnki þörfin fyrir starfskraft vegna þess að skráningin mun auðvitað breytast heilmikið eins og ég hef sagt. Eflaust minnkar líka þörfin fyrir starfskraft hjá stærstu sveitarfélögunum sem geta þá endurskipulagt störf byggingarfulltrúa sinna og starfsemi sem þeim tengist með þetta í huga. Ég tel að það sé viðbótar\-ávinningur í þessu máli að hægt sé að nota það sem stýritæki til að efla tölvuvinnslu og atvinnuuppyggingu á þessu sviði, annaðhvort með því að fela umdæmisskrifstofunni að annast þetta allt sjálf eða með því, eins og ég gat um og hæstv. viðskrh., að leita eftir samstarfi við fyrirtæki á þessu sviði fyrir norðan og eftir atvikum annars staðar á landsbyggðinni sem gætu tekið þetta að sér. En það er auðvitað matsatriði að hve miklu leyti eigi að vinna svona hluti innan dyra í starfsemi af þessu tagi og að hve miklu leyti eigi að leita út fyrir til fyrirtækja sem valdið geta þessu verkefni. Þetta held ég að sé mjög jákvæður þáttur í þessu máli og Akureyrarbær mun áreiðanlega taka því opnum örmum ef frv. verður að veruleika í þessari mynd og við náum að byggja þetta upp eins og hér er fyrirhugað.

Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir gat þess að rétt væri að fara ítarlega yfir þetta frv. í nefndinni. Ég tek að sjálfsögðu undir það. Auðvitað er margt í svona máli sem skoða þarf rækilega í þingnefnd. Hér er verið að fara út á nýjar brautir í ýmsu og þarf að skoða rækilega, m.a. gjaldtökuhliðina sem menn hafa rætt mikið hér, ekki síst hv. þm. Pétur Blöndal. Það þarf að fara í saumana á kostnaðaráætluninni en hún liggur að sjálfsögðu fyrir og verður lögð fram í þingnefndinni til að þingmenn geti þar áttað sig á tölunum sem liggja að baki áætlunum um kostnað við þetta mál.

Eins og ég gat um og hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir einnig, er þetta mál búið að vera sjö til átta ár á undirbúningsstigi, í vinnslu alveg frá því að hv. þm. var félmrh. Hún tók þátt í að skipa fyrstu nefndina og stýrihópinn í þetta mál. Þetta mál er ekki eitt af þeim málum sem verður hrist fram úr erminni á einni nóttu heldur er þetta vandlega unnið mál. Þetta eru vandlega unnin frv. sem margir fagaðilar og sérfræðingar hafa komið að. Útkoman er sú sem hér hefur verið kynnt þótt að sjálfsögðu megi eflaust endurbæta þar eitthvað og stendur ekki á mér að samþykkja betrumbætur sem kynnu að koma upp úr kafinu í hv. efh.- og viðskn.

Þegar öllu er á botninn hvolft er hér um að ræða mikið framfaraspor þar sem við færum okkur í nyt kosti þeirrar tækni sem nú er á boðstólum til að halda utan um upplýsingar. Við vitum að misbrestur hefur verið á því í gegnum tíðina að samræmi hafi verið milli þessara skráa, að þær hafi haft að geyma allar þær upplýsingar sem eðlilegt er að gera kröfu um. Einnig hefur vantað á að þær hafi verið uppfærðar jafnóðum eins og krafist er nú til dags. Ég sé ekki annað en þetta sé hið besta mál og ótvírætt framfaraspor í viðleitni okkar til að halda utan um þann stofn sem fasteignir á Íslandi eru, þennan grunnstofn efnahagslífs og velmegunar á landinu sem hér er á ferðinni.