Skráning og mat fasteigna

Mánudaginn 07. febrúar 2000, kl. 17:46:22 (4070)

2000-02-07 17:46:22# 125. lþ. 57.9 fundur 290. mál: #A skráning og mat fasteigna# (Landskrá fasteigna) frv. 47/2000, 281. mál: #A þinglýsingalög# (Landskrá fasteigna) frv. 45/2000, 285. mál: #A brunatryggingar# (Landskrá fasteigna) frv. 40/2000, JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur, 125. lþ.

[17:46]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Ég skil málflutning hans svo að hann sé í megindráttum sammála mér og þeirri gagnrýni sem ég hef sett fram varðandi þetta frv. Ekkert tillit hefur verið tekið til persónuverndar eða það hefur ekki verið skoðað sérstaklega hvort frv. stangist á við lög um persónuvernd. Ég óska þess að þar sem hæstv. dómsmrh. er ekki hér viðstödd að hæstv. ráðherra beini því til hæstv. dómsmrh. að hér hafi komið fram eindregin ósk um að tölvunefnd láti umsögn sína í té um frv. áður en það verður að lögum. Ég tel það grundvallaratriði að svo verði gert. Það er auðvitað ámælisvert að ríkisstjórnin og ráðherrar setji fram þetta frv. án þess að skoðað hafi verið sérstaklega hvort ekki hafi verið tekið tillit til persónuverndar í frv.

Ég fagna því sem hæstv. fjmrh. segir, hann tekur raunverulega undir það að notendur eigi að greiða en ekki skattpíndir fasteignaeigendur og íbúðareigendur. Hann tekur undir það sjónarmið að þeir sem njóta hagræðis, notendurnir, tryggingafélögin, fasteignasalarnir, atvinnulífið, sýslumannsembættin og sveitarfélögin, eiga að standa straum af þessari Landskrá en ekki fasteignaeigendur með 150 millj. kr. skattpíningu eins og hæstv. starfandi viðskrh. leggur hér til. Ég vil spyrja hæstv. viðskrh., sem hlýtur að koma fram með það hér á eftir hvert sjónarmið ráðherrans er í þessu máli, hvort fallið verði frá skattheimtu á íbúðaeigendur en þess í stað verði notendur látnir greiða.

Síðan fagna ég því sem fram kom hjá hæstv. ráðherra að aðgangsheimildin verði skilgreind betur en gert er í frv. með tilliti til þess hver á hlut að máli. Verði þessir þættir skoðaðir ásamt því að fara ítarlega yfir þessar 600 millj. og rekstrarkostnaðinn og stofnkostnaðinn sem hér er lagður til, þá sé ég ekki annað en að hugsanlega verði hægt að ná bærilegri sátt um frv.