Skráning og mat fasteigna

Mánudaginn 07. febrúar 2000, kl. 17:52:10 (4073)

2000-02-07 17:52:10# 125. lþ. 57.9 fundur 290. mál: #A skráning og mat fasteigna# (Landskrá fasteigna) frv. 47/2000, 281. mál: #A þinglýsingalög# (Landskrá fasteigna) frv. 45/2000, 285. mál: #A brunatryggingar# (Landskrá fasteigna) frv. 40/2000, fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur, 125. lþ.

[17:52]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (andsvar):

Herra forseti. Það eru engir notendur að kerfinu fyrr en það er komið í gagnið og það mun taka ákveðinn árafjölda, þrjú til fjögur ár að búa þetta kerfi til. Það kostar ákveðna fjárhæð sem við höfum reiknað út að gæti numið um rúmlega 600 millj. Undir þessum kostnaði er ætlunin að standa með þeirri hækkun á umsýslugjaldi sem viðskrh. mælti fyrir.

Ég hef tekið undir það sjónarmið að það sé rétt að notendur kerfisins, eftir að það kemur í gagnið, greiði fyrir aðgang sinn að því og borgi eins og tíðkast þjónustugjöld fyrir þá þjónustu sem þeir fá út úr kerfinu og standi þar með undir hluta, vonandi sem stærstum hluta af rekstrarkostnaðinum við þetta, endurnýjunarkostnaði o.s.frv. Það má nú ekki snúa út úr öllu sem hér er sagt eða leggja hlutina alla út á hinn versta veg.

Ég verð síðan að segja að mér er farið að ofbjóða skammir hv. þm. á dómsmrh. fyrir að vera ekki hér. Það liggja góðar ástæður að baki því að dómsmrh. er ekki hér og við viðskrh. höfum tekið að okkur að standa fyrir málinu í fjarveru hennar. Ég er alveg sannfærður um að hún mun halda uppi vörnum fyrir sinn hluta að þessu máli þótt síðar verði en það er búið að kvarta undan þessu einum fjórum sinnum af hálfu þingmannsins í dag og mér finnst það meira en nóg satt að segja.