Skráning og mat fasteigna

Mánudaginn 07. febrúar 2000, kl. 18:10:02 (4081)

2000-02-07 18:10:02# 125. lþ. 57.9 fundur 290. mál: #A skráning og mat fasteigna# (Landskrá fasteigna) frv. 47/2000, 281. mál: #A þinglýsingalög# (Landskrá fasteigna) frv. 45/2000, 285. mál: #A brunatryggingar# (Landskrá fasteigna) frv. 40/2000, landbrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur, 125. lþ.

[18:10]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég skal ekki lengja þetta. Ég vil þó segja við hv. þm. að gamalt spakmæli sem er nokkuð gott segir: Oft má satt kyrrt liggja. Ég ætla ekki út í þjóðfélagsumræðuna en vil þó segja að menn verða auðvitað að skoða heildarmyndina og sjálfsagt eigum við eftir að taka umræðu um þá stöðu. Það er skoðun mín og skoðun Framsfl. að auðvitað þurfum við mjög að huga að málefnum þeirra sem eru fátækir á Íslandi. Við þurfum að huga að málefnum barnmargra fjölskyldna. Auðvitað hefur barnmörgum fjölskyldum fækkað miðað við það sem áður gerðist en eigi að síður er mikilvægt að þar sé jafnræði. Fjölskyldan er stór í huga Framsfl. og við teljum málefni hennar mikilvægt. En við verðum þó að hafa í huga að við verðum einhvers staðar að staðsetja samhjálpina. Þó að menn séu vinstri menn mega þeir ekki vera svo vitlausir í skattamálum að ætla að drepa þá kynslóð sem á að vinna fyrir fyrir íslensku þjóðinni. Við megum ekki skattleggja svo hart að margt unga fólkið sem er á vinnumarkaðinum hreinlega sligist undan sköttum. (JóhS: Hætta að skattleggja ... ) Ég hef opnað á það eins og hv. þm. sagði að menn fari yfir allar skynsamlegar leiðir í þeim efnum, mér finnst það sjálfsagður hlutur. En ég vil minna á að það er líka til einn þolandi í viðbót, fólkið sem er úti á vinnumarkaðinum, vinnur langan vinnudag og borgar mikla skatta til þjóðfélagsins. Ég harma að í umræðum vinstri manna á Íslandi er oft eins og þeir sjái aðeins eina leið og enga aðra en þá að skattleggja vinnandi fólk og fyrirtæki. Þar með deyða þeir kraftinn í þjóðfélaginu, áhugann á vinnunni. Við þurfum fyrst og fremst að finna hverjir það eru sem þurfa á samhjálpinni að halda, þangað þurfum við að koma henni en síðan að reka þjóðfélagið skynsamlega á öllum sviðum.