Skráning og mat fasteigna

Mánudaginn 07. febrúar 2000, kl. 18:12:28 (4082)

2000-02-07 18:12:28# 125. lþ. 57.9 fundur 290. mál: #A skráning og mat fasteigna# (Landskrá fasteigna) frv. 47/2000, 281. mál: #A þinglýsingalög# (Landskrá fasteigna) frv. 45/2000, 285. mál: #A brunatryggingar# (Landskrá fasteigna) frv. 40/2000, ÁSJ
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur, 125. lþ.

[18:12]

Árni Steinar Jóhannsson:

Virðulegi forseti. Ég mun ekki lengja umræðuna mikið. Ástæðan fyrir því að ég kem hingað upp er fyrst og fremst orð hæstv. starfandi viðskrh., sem fór út um víðan völl í þjóðfélagsumræðunni þótt hann hygðist ekki gera það. Það er gott að fá fram að Framsfl. telur sig ekki vinstri- eða félagshyggjuflokk lengur heldur til hægri og fylgir þar af leiðandi pólitík þeirrar stefnu --- (Gripið fram í: Miðjan.) enda kemur það mjög fram. Hæstv. viðskrh. gumar af því að hagur heimilanna hafi batnað í ríkisstjórnartíð flokksins en ætli það sé ekki að meðaltali.

Auðvitað hefur hagur þeirra fjölskyldna batnað sem hafa fengið verkfæri upp í hendurnar á mjög auðveldan hátt á síðustu árum til þess að raka að sér stórfé í milljónatugum, hundruðum milljóna og milljörðum. Þetta gerir gott meðaltal en eftir standa tugþúsundir manna, ellilífeyrisþegar, örorkulífeyrisþegar, jafnvel þeir sem vinna í grunnatvinnugreinum þjóðarinnar, svo sem verksmiðjufólk. Ætli það gumi af bættum hag heimilanna, fólk sem er margt hvert á 70 þús. kr. mánaðarlaunum?

Ég kem upp, virðulegi forseti, til þess að taka undir með hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur, að það er alger nauðsyn að skoða málið betur í nefnd. Það kom fram hjá hæstv. fjmrh. að auðvitað hefur nefndin möguleika á að kalla eftir skoðunum tölvunefndar í þessu sambandi. Sú hæstv. ríkisstjórn sem nú starfar hefur áorkað að búa til og veita leyfi fyrir miðlægum gagnagrunni fyrir genin og iðrin öll. Nú á greinilega að hafa sömu tilburði gagnrýnislaust og gera miðlægan gagnagrunn ef að líkum lætur yfir hag allra, hvers sem er. Þetta er ekkert einfalt mál og það er ekki sama hverjir hafa aðgang að þessu. Þetta eru gríðarlegar upplýsingar sem þarna er safnað saman á einn stað og ég vil skoða það mjög grannt eins og kom fram hjá hv. 5. þm. Reykv., Jóhönnu Sigurðardóttur, hvernig að þessum málum er staðið. Vel getur verið að sumar upplýsingar úr fasteignaskrá eigi að vera aðgengilegar fyrir fasteignasala. En kannski eru margar aðrar upplýsingar sem eiga alls ekki að vera það og það er umhugsunarefni hverjir eigi eiginlega að hafa aðgang að þessum miðlæga grunni með fjölþættum upplýsingum. Ef ríkisstjórnin er inni á því að ganga svo fram að gerðir séu miðlægir gagnagrunnar til að fylgjast með nánast öllu og hafa yfirlit yfir allt sem við gerum í samfélaginu þá er hún sannarlega á réttri braut.

En ég legg áherslu á að málið verði tekið upp í nefnd, skoðað gagnrýnið tölvunefnd kölluð til og farið yfir þá vankanta sem hafa komið fram og hefur verið bent á í umræðunni. Það er meginmál.