Lífeyrissjóður sjómanna

Mánudaginn 07. febrúar 2000, kl. 18:16:44 (4083)

2000-02-07 18:16:44# 125. lþ. 57.13 fundur 150. mál: #A lífeyrissjóður sjómanna# (iðgjöld) frv., Flm. GAK (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur, 125. lþ.

[18:16]

Flm. (Guðjón A. Kristjánsson):

Herra forseti. Frv. sem ég mæli fyrir, um breytingu á lögum um Lífeyrissjóð sjómanna, nr. 45/1999, er ætlað að taka á mjög miklu vandamáli sem komið hefur upp í Lífeyrissjóði sjómanna. Fyrir því eru tvær ástæður. Áður en ég fer fleiri orðum um það langar mig að byrja á því að lesa 1. gr. frv. en þar er lagt til að 1. mgr. 5. gr. laganna orðist svo:

,,Iðgjald til sjóðsins skal nema 11% af heildarlaunum og greiðir launþegi 4% og launagreiðandi 7%.``

Jafnframt er lagt til ákvæði til bráðabirgða svohljóðandi:

,,Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. 5. gr. laganna myndar 1% af greiðslu launagreiðanda ekki réttindi til lífeyris frá gildistöku laga þessara til 31. desember 2009.``

Um alllangt skeið hafa eignir Lífeyrissjóðs sjómanna ekki staðið undir framtíðarskuldbindingum sjóðsins samkvæmt tryggingafræðilegu mati. Stjórn sjóðsins hefur leitað leiða til að minnka muninn milli eigna hans og skuldbindinga. Í nokkur skipti hafa verið gerðar lagabreytingar sem allar hafa haft í för með sér mikla skerðingu á lífeyrisskuldbindingum félaga í sjóðnum. Þrátt fyrir þetta vantar enn u.þ.b. 5% upp á að eignir sjóðsins standi undir skuldbindingum hans.

Með því að hækka lögbundið framlag launagreiðenda í Lífeyrissjóð sjómanna um eitt prósentustig, án þess að lífeyrisréttindi sjóðfélaga aukist, er stigið mikilvægt skref í þá átt að brúa það bil sem upp á vantar svo að sjóðurinn eigi fyrir framtíðarskuldbindingum sínum. Auk þess er það réttlætismál að launagreiðendur leggi fram sinn skerf og taki þátt í því að koma sjóðnum á réttan kjöl. Til þess hníga ýmis rök, svo sem afar háar greiðslur Lífeyrissjóðs sjómanna vegna örorkulífeyris sem er afleiðing af því hversu hættulegt sjómannsstarfið er. Á undanförnum árum hefur örorkulífeyrir verið nálægt 45% af heildargreiðslum Lífeyrissjóðs sjómanna. Sambærilegt hlutfall hjá öðrum sjóðum er mun lægra, í sumum tilfellum aðeins 20%.

Í frumvarpinu er lagt til að þessi hækkun á hlutfallslegri greiðslu launagreiðanda myndi ekki aukinn rétt til lífeyris til 31.desember 2009. Þess í stað muni auknar greiðslur í sjóðinn af þessum toga notaðar til að auka eignir svo að þær geti frekar staðið undir framtíðarskuldbindingum og bætt hag sjóðfélaga.

Eins og ég gat um í upphafi máls míns eru aðallega tvær ástæður fyrir því að svo er komið fyrir Lífeyrissjóði sjómanna að grípa þarf til þeirra skerðinga sem lýst hefur verið.

Í fyrsta lagi var það árið 1981 að sjómönnum í Lífeyrissjóði sjómanna var heitið því að fest skyldi í lög að sjómenn gætu tekið lífeyri frá 60 ára aldri eftir ákveðinn starfstíma til sjós. Þessi gerð var hluti af félagsmálapakka til sjómanna en þá tíðkuðust mjög félagsmálapakkar við lausn ýmissa kjaradeilna og gáfu sjómenn eftir hluta af fiskverðshækkun til að ná fram þessari lagabreytingu. Þessi lög voru samþykkt á Alþingi með samþykki allra alþingismanna, ef ég man rétt. Þessum lögum hefur hins vegar aldrei fylgt nokkur fjármögnun. Sá kostnaður sem fallið hefur á sjóðinn vegna hinna auknu réttinda sem lögin frá 1981 færðu sjóðfélögum hefur eingöngu bitnað á sjóðfélögum.

Hægt væri að vitna í margar greinargerðir frá fyrri árum um baráttu sjómannasamtakanna fyrir fjármögnun vegna þessarar lagasetningar. Til eru skjöl bæði frá árunum 1982 og 1984 sem vitna um að menn ætluðu að finna leið til fjármögnunar. Auðvitað var leitað til ríkisins með það en það verður að segjast eins og er að þrátt fyrir þrautagöngu sjómannasamtakanna í hartnær tvo áratugi þá hefur ekki fengist fjármögnun sem dugað hefur til að mæta þeim kostnaðarauka sem af reglunni varð.

Á sl. hausti var ákveðið í stjórn lífeyrissjóðsins að leita til fjmrh. með formlegt erindi um að bæta áfallinn kostnað sem á sjóðfélögum hafði lent á þessu tímabili frá árinu 1981. Tryggingafræðingur mat það svo að rúmir 1,3 milljarðar kr. hefði lent á sjóðfélögum á þessum árum. Búið er að breyta 60 ára reglunni þannig að menn geta eftir sem áður tekið lífeyrinn sextugir en þeir taka þá skerðingu með honum. Í raun er búið að gera 60 ára regluna hlutlausa sé miðað við lífslíkur karlmanna. Miða má við það að menn geta annars vegar tekið út úr lífeyrissjóðnum sextugir og þá með 0,4% skerðingu fyrir hvern mánuð. Lífeyrisþegi sem mundi ekki nýta sér þetta heimildarákvæði og byrjaði að taka út 65 ára mundi um 80 ára aldur hafa tekið út jafna upphæð úr sjóðnum. Nú er svo komið að þessi félagsmálapakki er í raun orðinn hlutlaus að þessu leyti. Menn hafa valið ef aðstæður þeirra eru þannig að nauðsynlegt er fyrir þá að byrja að taka lífeyri sextugir en þeir taka lífeyrinn skertan.

Erindi því sem ég gat um áðan og farið var með á fund fjmrh., um að fjármagna þessa 1,3 milljarða sem út af stæðu til að sjóðfélagar þyrftu ekki að bera þá í aukinni skerðingu lífeyrisréttindanna, neitaði fjmrn. með bréfi í byrjun nóvember á sl. ári. Viðbrögð mín m.a. við því voru að ég lagði 4. nóvember sl. fram þetta frv. sem ég er að mæla fyrir.

Annað ákvæði er mjög sérstakt í Lífeyrissjóði sjómanna og er rétt að gera grein fyrir því. Það er hluti af vanda Lífeyrissjóðs sjómanna einnig og í raun rök fyrir því að útgerðarmenn leggi sjóðnum nokkuð til, til viðbótar við þau almennu rök að þeir eru aðilar að Lífeyrissjóði sjómanna, eru þar í stjórn og hljóta að bera sameiginlega ábyrgð á lífeyrissjóðnum til jafns við sjómenn. Það er sá einkennilegi þáttur sem kemur fram í reikningum Lífeyrissjóðs sjómanna að örorkulífeyririnn er yfir 40% í þeirri útgreiðslu sem lífeyrissjóðurinn greiðir á hverju ári í lífeyri.

Eins og ég gat um áður er þetta hlutfall almennt 20--25% í öðrum lífeyrissjóðum. Það helgast auðvitað af hættulegu starfi sjómanna að örorkuþátturinn skuli vera svo hár. En þá kemur auðvitað þessi spurning: Var einhvern tíma ætlast til þess að Lífeyrissjóður sjómanna virkaði eins og tryggingafélag fyrir útgerðina að þessu leyti? Ég held að það sé ekki hægt að ætlast til þess. Þess vegna held ég að það sé komið að útgerðarmönnum að leggja sinn skerf til að mæta halla sjóðsins og skertum réttindum manna í Lífeyrissjóði sjómanna. Sú skerðing, upp á 11,5% sem síðar verður 12% árið 2001 ef ekki verður komin betri staða hjá Lífeyrissjóði sjómanna, er ekki eina skerðingin sem orðið hefur á réttindum manna í Lífeyrissjóði sjómanna á undanförnum árum.

Það hafa verið gerðar fleiri breytingar á lögum og reglum um Lífeyrissjóð sjómanna sem virkað hafa til lækkunar á lífeyri. Í því sambandi mætti nefna atriði eins og að hætta að miða við launavísitölu og miða við lánskjaravísitölu. Það hafði áhrif til lækkunar á útgreiddum lífeyri úr lífeyrissjóðnum.

Ég hef undir höndum nýlega stöðu Lífeyrissjóðs sjómanna eftir árið 1999. Sem betur er afkoma sjóðsins, þ.e. ávöxtun eigin fjár góð og kannski mun betri en menn þorðu að vonast eftir. Ávöxtunin á árinu 1999 var 12,5% en var 8% árið 1998. Afleiðing þess er að staða Lífeyrissjóðs sjómanna hefur batnað örlítið hraðar en menn gerðu ráð fyrir fyrir rúmu ári síðan. Þá var staða Lífeyrissjóðs sjómanna metin upp á -13,7% en er núna metin upp á -3,2%. Sú aðgerð að skerða lífeyrisrétt sjóðfélaganna var auðvitað stærsta lagfæringin í rekstrarlegri stöðu sjóðsins upp á framtíðina. Til viðbótar kemur góð ávöxtun sjóðsins og bætir um betur.

Auðvitað má velta því fyrir sér hversu hratt 1% getur lagað stöðu sjóðsins og hvort þetta ártal, 2009, sé eina rétta ártalið. Ekki ætla ég að fullyrða um það. Það kynni að vera að ef ávöxtun sjóðsins yrði áfram jafngóð og hún hefur verið að meðaltali síðustu þrjú árin, þá þyrfti þetta ákvæði ekki að vera fram til 2009 heldur gæti verið einhvers staðar nær okkur í tíma. En þetta má auðvitað skoða þegar málið fer til umfjöllunar í nefnd og meta hvaða líkur eru á að hægt sé að laga útgreiddan lífeyri úr Lífeyrissjóði sjómanna með þessu 1% sem lagt er til að verði aukið í inngreiðslu frá atvinnurekendum í sjóðinn, án þess að það myndi réttindi. Ég tel að ef þetta ákvæði yrði samþykkt væri innan tveggja ára hugsanlegt að fara að slaka út aftur bata til sjóðfélaga upp á kannski 3%, það væri sennilega ekki meira.

Lífeyrissjóður sjómanna hefur auðvitað lent í því eins og aðrir lífeyrissjóðir að þurfa að hlíta lögum nr. 129/1997, um almenna starfsemi lífeyrissjóða. Í þeim lögum segir að sjóðir skuli almennt eiga fyrir skuldbindingum sínum og stjórnir sjóðanna skuli bregðast við ef viðkomandi lífeyrissjóður á ekki fyrir 95% af sínum skuldbindingum, þá verði þeir að bregðast við. Staðan í Lífeyrissjóði sjómanna var einfaldlega sú að hann uppfyllti ekki þessi lagaákvæði eftir að þessi lög tóku gildi. Þess vegna urðu menn að bregðast við.

Ég tel hins vegar að svo mikið hafi verið gert í að skerða réttindi lífeyrisþega á undanförnum árum að það verði að grípa til einhverra lagfæringa. Þess vegna ákvað ég að leggja þetta frv. fram. Mér finnst frv. sanngjarnt og alls ekki ósanngjarnt að ætlast til að útgerðarmenn greiði í sjóðinn til að mæta því tekjutapi sem lífeyrisþegar hafa orðið fyrir. Ég verð líka að segja að ég hef orðið fyrir miklum vonbrigðum með fulltrúa ríkisvaldsins í þessu máli. Eftir að hafa starfað sem forseti Farmanna- og fiskimannasambands Íslands í 16 ár og gengið nánast á hverju einasta ári á fund fjmrh. hverrar ríkisstjórnarinnar á fætur annarri til að reyna að fá leiðréttingu þá verð ég að lýsa vonbrigðum mínum með þá niðurstöðu sem nú er fengin, sérstaklega með tilliti til þess að sjómenn hafa tekið á sig að skerða þau réttindi sem þeim voru þó fengin með félagsmálapakkanum 1981. Þau áttu að vera jafngildi ýmissa félagsmálapakka sem aðrir launþegahópar voru þá að fá og gerðu 60 ára regluna jafngilda 65 ára reglunni að því leyti til að hún er ekki lengur dýrari í sjóðnum. Það skiptir ekki máli fyrir sjóðfélagana hvort maður byrjar að taka lífeyrinn sextugur vegna þess að þá tekur hann lífeyrinn skertan eða hvort hann byrjar að taka hann 65 ára. Báðir hafa um 80 ára aldur tekið jafnmikla peninga út úr Lífeyrissjóði sjómanna að því gefnu að þeir hafi báðir haft sambærileg réttindi. Sjómenn hafa sýnt fulla ábyrgð í þessu máli en ég tel að formælendur ríkissjóðs á hverjum tíma, fjármálaráðherrar eða forsætisráðherrar hafi ekki gert hið sama.

Lífeyrissjóður sjómanna mun sjálfsagt fara í mál við ríkið og reyna að sækja þetta fyrir dómstólum. Ég hef heyrt því fleygt að ríkið ætli að bera fyrir sig í vörn sinni tómlætisáhrifum, að sjómenn hafi ekki sótt þetta mál af krafti fyrr en nú með málssókn. Ég held að einfalt verði að fletta upp í öllum þeim bréfaskriftum sem sjómannasamtökin hafa átt við fjmrh. á hverjum tíma og öllum þeim ferðum sem fulltrúar sjómannasamtakanna hafa farið til fjmrh. til þess að reyna að fylgja málinu eftir. Mér kæmi afar mikið á óvart ef vörn ríkisins, út frá tómlætisáhrifum, hefðu nokkuð að segja í þessu máli. Það eru þá einhver önnur rök sem þar duga.

Ég ætla ekki að lengja þetta mikið. Ég vona að ég hafi mælt það skýrt fyrir þessu að menn skilji um hvað málið snýst. Annars vegar örorkuþáttinn og hins vegar vanefndir á félagsmálapakka frá 1981 um það að sjómenn ættu að geta tekið lífeyri frá 60 ára aldri. Þann félagsmálapakka, sem samþykktur var samhljóða í Alþingi, hefði eðlilega þurft að fjármagna einhvern veginn. Það var því miður ekki gert og það hefur bitnað á sjómannastéttinni.