Persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga

Þriðjudaginn 08. febrúar 2000, kl. 14:45:59 (4100)

2000-02-08 14:45:59# 125. lþ. 58.8 fundur 280. mál: #A persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga# (heildarlög) frv. 77/2000, dómsmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 58. fundur, 125. lþ.

[14:45]

Dómsmálaráðherra (Sólveig Pétursdóttir) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hér koma fram margar spurningar og ábendingar. Ég vil fyrst taka fram að hv. þm. hefur greinilega undir höndum drög að sem voru í vinnslu og voru kynnt í heilbr.- og trn. á síðasta ári. Ég hef þau drög ekki undir höndum og get því ekki farið í nákvæman samanburð í þessu máli. Ég vil hins vegar vísa til þess sem ég sagði áðan við hv. þm. Lúðvík Bergvinsson um að skoða þurfti málið mun betur og koma með ákveðnar breytingar, m.a. til að aðlaga það betur að þessari tilskipun. Það er greinilegt að það mál þurfti ákveðinn tíma. Ég vil þó vekja athygli á því að þetta frv. kom fram fyrr í vetur en eins og hv. þingmönnum er kunnugt um þá gafst ekki tími til þess að ljúka meðferð þess fyrir jólin.

Einnig var minnst á lög um gagnagrunn á heilbrigðissviði og þau borin saman við það frv. sem hér er til umræðu. Þau eru sérlög og ganga því framar almennum lögum um persónuvernd. En það er sérstaklega farið inn í þetta mál varðandi skilgreiningar sem hv. þm. spurði um á bls. 43 í frv. Ég vitna til þess í grg. og hv. þm. geta litið á það.

Varðandi 14. gr. segir í athugasemdum að þar sé gengið lengra en er í tilskipun ESB, þar er ekki að finna heildar\-ákvæði eins og hér er lagt til að lögfest verði heldur aðeins dreifð ákvæði um kröfu til málsaðila af hálfu ábyrgðaraðila. Mér sýnist því að þetta ákvæði feli í sér réttarbætur fyrir einstaklinginn frekar en hitt.