Persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga

Þriðjudaginn 08. febrúar 2000, kl. 14:51:48 (4104)

2000-02-08 14:51:48# 125. lþ. 58.8 fundur 280. mál: #A persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga# (heildarlög) frv. 77/2000, ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 58. fundur, 125. lþ.

[14:51]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Hér er til umræðu mjög mikilvægt mál, frv. til laga um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Ég vil taka undir ábendingar og gagnrýni sem fram hefur komið í máli þeirra tveggja þingmanna sem fjallað hafa um málið auk hæstv. ráðherra, hv. þm. Lúðvíks Bergvinssonar og Bryndísar Hlöðversdóttur. Þau hafa bæði vakið athygli á frumvarpsdrögum sem sýnd voru einni starfsnefnd Alþingis haustið 1998 þegar gagnagrunnur á heilbrigðissviði var til umfjöllunar á Alþingi.

Hvers vegna voru nefndinni sýnd þessi drög? Jú, vegna þess að menn höfðu áhyggjur af persónuvernd í nýjum lögum um gagnagrunn á heilbrigðissviði. Þess vegna voru frumvarpsdrögin sýnd nefndinni.

Ég er ansi hræddur um að hæstv. heilbrrh. skuldi Alþingi skýringar á því að úr frumvarpinu eins og það liggur nú fyrir hafa verið tekin ýmis ákvæði sem áður var að finna í umræddum frumvarpsdrögum. Hv. þm. Lúðvík Bergvinsson og hv. þm. Bryndís Hlöðversdóttir gerðu grein fyrir þessu og vísuðu til 2. gr., 9. gr. og 7. gr. frumvarpsins og einnig má vísa til 33. gr. Ég vil gera ábendingar þeirra að mínum að mestu leyti.

Í 2. gr. er m.a. fjallað um skilgreiningu á viðkvæmum persónuupplýsingum. Eins og fram kom í máli þeirra hafa tveir liðir verið felldir út í frv. eins og það kemur nú fyrir Alþingi, annars vegar upplýsingar um einkafjárhag, það ákvæði hefur verið fellt út úr frv., og hins vegar ákvæði sem er svohljóðandi, með leyfi forseta:

,,Upplýsingar um félagsleg vandamál og önnur einkalífsatriði sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari.``

Þetta ákvæði hefur einnig verið fellt úr frv. Hér erum við að vísa til skilgreiningar á viðkvæmum persónuupplýsingum.

Þegar flett er upp á 33. gr. frv. segir, með leyfi forseta:

,,Án leyfis Persónuverndar er vinnsla viðkvæmra persónuupplýsinga óheimil í öðrum tilvikum en þeim sem falla undir 1. mgr. 9. gr.``

Með öðrum orðum, hér er í fyrsta lagi vísað til skilgreiningar á viðkvæmum upplýsingum og það er gert í 2. gr. frv. Í 33. gr. frv. er vísað til hvaða upplýsingar er heimilt að vinna með. Í 9. gr. frv., sem 33. gr. vísar til, er að finna ákvæði þar sem segir, með leyfi forseta: ,,vinnslan sé nauðsynleg vegna tölfræði- eða vísindarannsókna.`` Vinnslan er heimil sé vinnslan nauðsynleg vegna tölfræði- eða vísindarannsókna. Í frumvarpsdrögum sem kynnt voru heilbrn. Alþingis í nóvember 1998 er rekinn endahnútur á þessa setningu. Þar segir, með leyfi forseta:

,,... enda sé útilokað að hún geti haft bein áhrif á hagsmuni einstaklinga.``

Þar erum við aftur komin að hinum viðkvæma gagnagrunni á heilbrigðissviði. Það er deilt um að hvaða marki þær upplýsingar sem fara inn í grunninn séu persónugreinanlegar. Miklar deilur standa um það í þjóðfélaginu að hvaða marki þær eru persónugreinanlegar. Þess vegna skuldar hæstv. heilbrrh. Alþingi skýringu á því hvers vegna verið er að þrengja vernd einstaklingsins eins og gert er í þessu frv.

Herra forseti. Þetta frv. er mjög mikilvægt og því nauðsynlegt að það fái vandaða umfjöllun í meðferð þingsins. Ég get heitið því að ég mun leggja mitt af mörkum sem áheyrnarfulltrúi í allshn. til að svo verði gert.

Almennt vil ég segja um þetta frv. að það er eitt af mikilvægustu verkefnum samtímans að feta einstigið á milli þess annars vegar að verja og vernda upplýsingar um einstaklinginn og hins vegar að sjá til þess að við lokum ekki samfélaginu, að feta einstigið á milli lokaðs samfélags og samfélags þar sem einstaklingurinn nýtur persónuverndar. Margt er að gerast í samtímanum sem veldur því að þessi vandi er stór og mikill. Annars vegar fleygir tækninni fram á tölvusviði og gefur okkur og samfélaginu mikla möguleika á að skrá niður hvers kyns upplýsingar og þar af leiðandi að fylgjast með einstaklingnum. Annars vegar er það tæknin og hins vegar er það pólitíkin, hvernig þessi tækni er nýtt og hér á þinginu erum við stöðugt að fjalla um lagasetningu sem snýr að þessu, Schengen er eitt, gagnagrunnur á heilbrigðissviði er annað.

Í gær var til umfjöllunar frv. til laga um mat og skráningu á fasteignum og þótti þar mörgum of langt gengið gegn einstaklingnum. Ég á eftir að skoða það betur sjálfur og hug minn í því efni en ég verð að segja fyrir mitt leyti að ég vil þjóðfélagið eins opið og kostur er þegar snýr að eignum og tekjum fólks. Þess vegna er ég ekki viss um að ég muni gera athugasemdir við það þó eitthvað verði dregið úr verndinni varðandi einkafjárhaginn. Ég er ekki viss um að það snerti hjarta mitt á sama hátt og ég hef áhyggjur af öðrum lið sem þar var felldur út sem lýtur að félagslegum vandamálum og atriðum sem sanngjarnt getur talist að leynt fari.

[15:00]

Eins vitum við að margir telja það óeðlilegt og óæskilegt að þjóðin hafi upplýsingar um tekjuskiptingu. Það veldur titringi þegar skattskýrslurnar koma til umfjöllunar í fjölmiðlum á hverju sumri. Ég er því fylgjandi sjálfur, ég vil hafa opið samfélag að þessu leyti. Ég fylgdi því mjög eindregið eftir þegar upplýsingalögin voru til umfjöllunar á Alþingi að ekki yrði lokað á upplýsingar um tekjur opinberra starfsmanna. Sú viðleitni er mjög rík að loka á upplýsingastreymi á því sviði. Samtök launafólks hafa barist gegn þeirri lokunartilhneigingu sem gerir vart við sig í ráðuneytum og stofnunum samfélagsins. Ég er því fylgjandi að opna allt, opna allar gáttir hvað þetta snertir. En þetta nefni ég aðeins til að leggja áherslu á að við erum að feta einstigi á milli persónuverndar og lokaðs samfélags hins vegar. Ég vil tryggja persónuverndina en ég vil ekki loka samfélaginu.