Viðskiptasiðferði og verklagsreglur á fjármálamarkaði

Miðvikudaginn 09. febrúar 2000, kl. 13:42:39 (4121)

2000-02-09 13:42:39# 125. lþ. 59.94 fundur 300#B viðskiptasiðferði og verklagsreglur á fjármálamarkaði# (umræður utan dagskrár), ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 59. fundur, 125. lþ.

[13:42]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Eftir umræður undanfarnar vikur um þetta efni, bæði innan þings og utan, stendur eitt upp úr og það er skortur á siðgæðisvitund og sjálfsaga innan fjármálaheimsins. Ekki er rétt að alhæfa í þessu efni og ekki er ég að vísa til allra starfsmanna sem starfa við þennan geira, en það er greinilega svo að margir þeirra sem sýsla með verðbréf hafa séð að þar getur verið skjótfenginn gróði og margir þessara aðila ruglast í ríminu og láta eigin hag og fégræðgi stýra för og gerðum sínum.

Af þessum sökum er mjög mikilvægt að um þessi efni séu mjög skýrar reglur og fyrir hönd Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs krafðist ég þess í tengslum við mál sem komu upp hjá Búnaðarbankanum að þessi mál yrðu tekin til skoðunar á Alþingi um leið og það kæmi saman.

Í gær var ágæt yfirferð í efh.- og viðskn. þingsins um reglugerðarverkið og lögin og mér sýnist að þverpólitísk samstaða geti skapast um að taka á þessum málum á ábyrgan hátt. Hitt er svo annað mál að ekki er séð fyrir endann á þessum málum og vísa ég þar í hádegisfréttir Bylgjunnar þar sem því er haldið fram að Búnaðarbankinn hafi gefið Fjármálaeftirlitinu og Seðlabankaum vísvitandi rangar upplýsingar um viðskipti bankans við fyrrverandi viðskiptavin. Þessi mál þarf öll að skoða. En hvað siðgæðið og sjálfsagann snertir, þá er ég ekki viss um það eins og hitt að við náum pólitískri samstöðu. Það munum við ekki gera meðan landinu stjórnar ríkisstjórn sem telur að ábatavonin og græðgin séu helstu aflvakar samfélagsins. Við því kann ég aðeins eitt ráð og það er að efla þann pólitíska valkost í landinu sem segir þessari hugsun stríð á hendur og vill efla samkennd og samvinnu og það er Vinstri hreyfingin -- grænt framboð.