Viðskiptasiðferði og verklagsreglur á fjármálamarkaði

Miðvikudaginn 09. febrúar 2000, kl. 13:47:28 (4123)

2000-02-09 13:47:28# 125. lþ. 59.94 fundur 300#B viðskiptasiðferði og verklagsreglur á fjármálamarkaði# (umræður utan dagskrár), JóhS
[prenta uppsett í dálka] 59. fundur, 125. lþ.

[13:47]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Það sýnir mikinn siðferðisbrest á fjármálamarkaðnum að sex fjármálafyrirtæki hafi brotið verklagsreglur um viðskipti starfsmanna og stjórnenda með verðbréf. Ég spyr hæstv. ráðherra hvort eftir því verði ekki gengið hversu lengi þessi brot hafi viðgengist og hversu umfangsmikil þau eru og einnig hvort hún telji að að fullu séu rannsökuð innherjaviðskipti sem fóru fram í Búnaðarbankanum nýlega.

Íslenski markaðurinn er í verulegri mótun og óþroskaður að mörgu leyti og full ástæða er til að ætla að upplýsingaleki um trúnaðarupplýsingar hafi leitt til óeðlilegra viðskipta með hlutabréf. Meðal annars þess vegna þarf í fullri alvöru að skoða lagasetningu sem hreinlega bannar viðskipti forstöðumanna eða starfsmanna fyrirtækja með hlutabréf þeirra fyrr en að liðnum tilteknum tíma eftir að uppgjör, milliuppgjör eða ársuppgjör er birt, og krefjast ákveðins eignarhaldstíma á bréfunum.

Ég held líka að ástæða sé til að vara við því að rýmkaðar verði heimildir til viðskipta með óskráð verðbréf en Verðbréfaþing áætlar að 10--20% markaðarins séu viðskipti með óskráð verðbréf sem þeir telja að hafi vaxið með tilkomu óskráðra verðbréfa í deCODE-fyrirtækinu sem raskað hafi þessum hlutföllum skráðum verðbréfum í óhag.

Það er líka fullt tilefni til að hafa áhyggjur af því og gera á því athugun hvort sú sprenging sem orðið hefur á gengi hlutabréfa í fjölda fyrirtækja endurspegli verðmæti fyrirtækjanna og hvort verðmyndun á bréfunum sé eðlileg. Spyrja má líka hvort það leiði ekki til hagsmunaárekstra og hvaða áhrif gífurlega mikil viðskipti verðbréfafyrirtækjanna sjálfra fyrir eigin reikning hafa á verðmyndun hlutabréfa og hvort hægt sé að treysta eðlilegri ráðgjöf verðbréfafyrirtækja við einstaklinga og fyrirtæki sem sjálf standa í miklu braski eða viðskiptum á hlutabréfamarkaðnum. Það mál mun ég sérstaklega taka upp í efh.- og viðskn.

Aðeins í lokin. Sé það rétt sem fram kom í fréttum að aðalbankastjóri Búnaðarbankans hafi gefið Fjármálaeftirlitinu og Seðlabankanum vísvitandi rangar upplýsingar, þá eru þar á ferðinni svo alvarlegir siðferðisbrestir og embættisafglöp að á því ber að taka af fyllstu hörku.