Viðskiptasiðferði og verklagsreglur á fjármálamarkaði

Miðvikudaginn 09. febrúar 2000, kl. 13:57:30 (4128)

2000-02-09 13:57:30# 125. lþ. 59.94 fundur 300#B viðskiptasiðferði og verklagsreglur á fjármálamarkaði# (umræður utan dagskrár), ÍGP
[prenta uppsett í dálka] 59. fundur, 125. lþ.

[13:57]

Ísólfur Gylfi Pálmason:

Herra forseti. Ég þakka hv. málshefjanda Margréti Frímannsdóttur fyrir að vekja máls á þessu máli og þakka afdráttarlaus svör hæstv. viðskrh. Hæstv. viðskrh. brást mjög hratt og vel við þegar í ljós kom að ákveðnir starfsmenn í ákveðnum fjármálafyrirtækjum höfðu jafnvel verið að bjóða í hlut í þeim fyrirtækjum og um hugsanleg innherjaviðskipti hafi verið að ræða, og ber að þakka hæstv. ráðherra fyrir skörulega framgöngu í því máli. (ÖJ: Og ríkisstjórninni allri.)

Íslenskur fjármálamarkaður er barn síns tíma eins og hv. þm. Ögmundur Jónasson veit og hér á landi er í raun og veru svipuð þróun og átt hefur sér stað í öðrum löndum hvað hlutafjármarkaðinn varðar þar sem hlutafjármarkaður hefur verið að ryðja sér til rúms. Auðvitað spyrja menn sig um verðgildi ákveðinna hlutabréfa en það er greinilegt að Íslendingar hafa vaxandi áhuga á fjármagnsmarkaðnum og fjármögnun í þeim efnum og jafnvel er talað um að ákveðnir hópar í samfélaginu leiki sér á þessum fjármagnsmarkaði eins og um spilakassa, lottóspil eða þess háttar væri að ræða.

Við megum heldur ekki gleyma því að gerbreyting hefur orðið á fjölmörgum fyrirtækjum sem hafa verið boðin út á þessum frjálsa markaði. Rekstur þeirra hefur gengið um margt betur en áður var og hagkerfi okkar er mun opnara en það var.

Í ríkisstjórnartíð Framsfl. hefur verið gætt að verðgildi þeirra stofnana, ríkisstofnana sem seldar hafa verið, passað hefur verið upp á að selja þær á sem allra hæstu verði. Þar hefur betur tekist til en í ríkisstjórnartíð Alþfl. og Sjálfstfl. (ÖS: En Áburðarverksmiðjan?)