Áhrif stækkunar Evrópusambandsins á Evrópska efnahagssvæðið

Miðvikudaginn 09. febrúar 2000, kl. 14:08:40 (4132)

2000-02-09 14:08:40# 125. lþ. 60.1 fundur 307. mál: #A áhrif stækkunar Evrópusambandsins á Evrópska efnahagssvæðið# fsp. (til munnl.) frá utanrrh., utanrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur, 125. lþ.

[14:08]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Hvorki innri þróun Evrópusambandsins né stækkun þess breyta í sjálfu sér efnisákvæðum EES-samningsins. Hann stendur eftir sem áður sem hluti af samningsskuldbindingum Evrópusambandsins gagnvart Íslandi, Liechtenstein og Noregi. Stofnanakerfi það sem sett er á fót með samningnum stendur óháð stækkun ESB. Ný aðildarríki ESB verða jafnframt aðilar að EES-samningnum og því þátttakendur með Íslandi í fjórfrelsinu svokallaða. Eftir að þessi ríki eru orðnir aðilar verða þau kölluð til umsagnar um öll þau mál sem varða okkar hagsmuni og EES-samninginn. Því ríður á að efla tvíhliða samskipti við þau hvert og eitt.

Almennt má segja að kostir EES-samningsins felist einkum í því að hann gefur aðgang fyrst og fremst að þeim þáttum Evrópusamstarfsins sem voru áhugaverðastir fyrir okkur á þeim tíma en aðrir þættir, sem hafa höfðað minna til íslenskra hagsmuna, standa utan samningsins. Gallar hans eru einkum fólgnir í verulegum takmörkunum á aðgangi að almennri umræðu og mótun nýrra gerða. Þessi munur á aðstöðu aðildarríkja annars vegar og EFTA/EES-ríkja hins vegar er innbyggður í EES-samninginn og var alltaf ljós.

Áhrif framkvæmdastjórnar ESB á mótun nýrrar Evrópulöggjafar hafa verið takmörkuð. Þetta hefur áhrif á aðgang okkar að ákvarðanatöku og ákvarðanamótun þar sem samningsbundinn aðgangur EFTA/EES-ríkjanna að mótun gerða á vegum ESB var í gegnum og er í gegnum framkvæmdastjórnina. Vegna fyrirsjáanlegrar stækkunar má vænta enn frekari breytinga á stofnanakerfi ESB. Ólíklegt er að það auki hlut framkvæmdastjórnarinnar aftur og því líklegra að það veiki enn frekar stöðu okkar í þessu samstarfi.

Gangi eitt eða fleiri EES-ríkjanna í ESB á næstu árum er ljóst að það mun hafa umtalsverð áhrif á EES-samstarfið og stöðu okkar í Evrópusamstarfinu almennt. Ákveðið var sl. haust að gera úttekt á þessu máli þar sem farið væri yfir starf Evrópussamstarfsins lið fyrir lið. Þar verður leitast við að draga fram hver staða Íslands yrði án samninga, því næst hvernig EES-samningurinn, samstarfssamningurinn um Schengen og aðrir þeir samningar sem gerðir hafa verið nýtast okkur og loks hugað að þeim möguleika að Ísland sé aðili að ESB.

Skýrslugerðinni miðar vel og ég vonast til þess að geta lagt úttektina fyrir ríkisstjórn fljótlega og í framhaldi af því hér á Alþingi. Ekki er ætlunin að setja fram beinar tillögur í þessu máli heldur skýra stöðu okkar við breyttar aðstæður. Úttekt af þessu tagi ætti því að geta skapað grundvöll fyrir góða og málefnalega upplýsta umræðu á næstu missirum um þetta mikilvæga mál.