Gróðurvinjar á hálendinu

Miðvikudaginn 09. febrúar 2000, kl. 14:16:56 (4135)

2000-02-09 14:16:56# 125. lþ. 60.8 fundur 304. mál: #A gróðurvinjar á hálendinu# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., umhvrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur, 125. lþ.

[14:16]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir):

Virðulegur forseti. Í 37. gr. laga nr. 44/1999, um náttúruvernd, er kveðið á um landslagsgerðir sem njóta skuli sérstakrar verndar og skal forðast röskun þeirra eins og kostur er. Í því felst m.a. það að ef menn hafa áhuga á að raska slíkum svæðum þarf a.m.k. að leita umsagnar Náttúruverndar ríkisins og náttúruverndarnefnda áður en farið yrði í slíkt þannig að svæðin yrðu skoðuð sérstaklega.

Meðal þeirra landslagsgerða sem falla undir lagagreinina eru mýrar og flóar, þrír hektarar að stærð eða stærri. Samkvæmt upplýsingum mínum frá Náttúruvernd ríkisins falla flestar gróðurvinjar á hálendinu undir þessa skilgreiningu. Því var ekki talin ástæða þegar lögin voru sett í fyrra að taka sérstaklega út úr gróðurvinjar á hálendinu þegar náttúruverndarlögin voru sett. Ef raska ætti þessum stærri gróðurvinjum sem falla undir lögin eins og þau hljóma í dag þyrfti að sjálfsögðu einnig að fara í lögformlegt umhverfismat þannig að þau fengju sérstaka skoðun.

Það er hins vegar annað mál varðandi smærri gróðurvinjarnar á hálendinu, þær falla ekki undir 37. gr. náttúruverndarlaganna, en það eru smærri gróðurvinjar, sérstaklega á gosbeltinu, og þeim er helst ógnað af beit búfjár. Þau svæði eru til umræðu í tengslum við gerð náttúruverndaráætlunar, en skv. 65. gr. þeirra laga skal umhvrh. eigi sjaldnar en á fimm ára fresti láta vinna náttúruverndaráætlun fyrir allt landið og leggja fyrir Alþingi. Það á að leggja slíka áætlun í fyrsta sinn fyrir Alþingi árið 2002. Það er hlutverk Náttúruverndar ríkisins í samráði við Náttúrufræðistofnun Íslands, náttúrustofur og hlutaðeigandi náttúruverndarnefndir að sjá um undirbúning og öflun gagna vegna áætlunarinnar. Í dag eða á morgun er mér kunnugt um að Náttúruvernd ríkisins mun eiga fund við Landgræðsluna og Skógræktina þar sem verður einmitt fjallað um þessar minni gróðurvinjar á hálendinu til þess að fella það inn í náttúruverndaráætlunina hvernig menn ætla að standa að verndun þessara svæða.

Ég minni einnig á það í þessu sambandi að vinna við rammaáætlun ríkisstjórnarinnar um nýtingu vatnsafls og jarðvarma er nýhafin undir yfirskriftinni Maður, nýting, náttúra. Þar hefur verið skipuð sérstök verkefnisstjórn sem á að vinna með fjórum faghópum en það er markmið þessarar áætlunar að leggja mat á og flokka virkjunarkosti eftir ýmsum mælikvörðum þar sem á að taka m.a. tillit til náttúrunnar. Reiknað er með því að þessar tillögur muni liggja fyrir vonandi á þessu kjörtímabili, e.t.v. ekki fyrr en í upphafi næsta kjörtímabils, þannig að gróðurvinjarnar á hálendinu fá einnig sérstaka skoðun í gegnum rammaáætlunina.

Svar mitt við þessari fyrirspurn er að ég tel enga sérstaka ástæðu til að beita mér fyrir því að gróðurvinjar á hálendinu verði teknar sérstaklega inn í 37. gr. náttúruverndarlaganna þar sem ég tel að nú þegar séu þær að mestu leyti innan lagarammans fyrir utan að vinjarnar fá víðtæka skoðun, bæði í gegnum rammaáætlun ríkisstjórnarinnar og í gegnum náttúruverndaráætlun sem er verið að vinna að, og þá eru hinar smærri gróðurvinjar skoðaðar sérstaklega í gegnum þá vinnu.