Umhverfisstefna í ríkisrekstri

Miðvikudaginn 09. febrúar 2000, kl. 14:28:21 (4140)

2000-02-09 14:28:21# 125. lþ. 60.9 fundur 306. mál: #A umhverfisstefna í ríkisrekstri# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., Fyrirspyrjandi KolH
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur, 125. lþ.

[14:28]

Fyrirspyrjandi (Kolbrún Halldórsdóttir):

Virðulegi forseti. Ríkisendurskoðun gaf nýverið út ritið Umhverfisstefna í ríkisrekstri, framkvæmd umhverfisstefnu í skrifstofuhaldi Stjórnarráðsins. Er þessu riti ætlað að varpa ljósi á það hvernig unnið er eftir umhverfisstefnu í ríkisrekstri en tillögur um slíka stefnu voru samþykktar í ríkisstjórninni í febrúar 1997 og var það gert að frumkvæði þáv. hæstv. umhvrh. Guðmundar Bjarnasonar sem stofnaði starfshóp um slíka umhverfisstefnu 1996 í kjölfar fundar umhverfisráðherra aðildarlanda Efnahags- og framfarastofnunar Evrópu, OECD. Í upphafi máls míns má geta þess að umhvrn. gekk að sjálfsögðu á undan með góðu fordæmi og skjalfesti umhverfisstefnu fyrir það ráðuneyti.

Meðal þess sem kemur hins vegar fram í þessu riti Ríkisendurskoðunar er að það hefur verið grennslast fyrir um hversu vel að sér stjórnendur ráðuneytanna eru almennt um innihald þeirrar stefnu. Í ljós hefur komið að í flestum ráðuneytum hafa stjórnendur vitað um tilvist hennar en fæstir þeirra virðast hafa sýnt henni sérstakan áhuga eða sett markmið hennar í forgang að nokkru leyti. Einungis fjögur af tólf ráðuneytum hafa skjalfest einhvers konar umhverfisstefnu og mikið virðist á það skorta að nógu langt sé gengið. Hvergi er t.d. lífrænn úrgangur aðgreindur frá öðru sorpi sem er þó sú aðgerð sem mestan ávinning hefur í för með sér út frá umhverfissjónarmiðum.

[14:30]

Þau fjögur ráðuneyti sem skjalfest hafa einhvers konar umhverfisstefnu eru, auk umhvrn. sem þegar er nefnt, heilbr.- og trn. og menntmrn. sem bæði hófu átak í sínum málum á síðasta ári, og loks samgrn. En samgrn. nýtur talsverðrar sérstöðu í hópi þessara fjögurra því það er eina ráðuneytið sem gert hefur svokallaða umhverfisyfirlýsingu sem á þá við málaflokk ráðuneytisins allan en ekki einungis skrifstofuhald þess.

Í riti Ríkisendurskoðunar kemur einnig fram að samkvæmt upplýsingum frá fjmrn. muni ekki vera á döfinni að gera Ríkiskaupum, sem er sú stofnun sem sér um innkaup fyrir öll ráðuneytin, skylt að hafa umhverfissjónarmið að leiðarljósi við innkaup þrátt fyrir ákvæði umhverfisstefnu þeirrar sem ríkisstjórnin samþykkti 1997. En í umhverfisstefnunni segir að við innkaup skuli tekið tillit til umhverfissjónarmiða jafnt sem kostnaðar og gæða.

Herra forseti. Þegar á allt er litið er niðurstaða þeirrar umhverfisendurskoðunar sem fram hefur farið sú að leiðbeiningum umhverfisstefnu í ríkisrekstri sé slælega fylgt í ráðuneytunum og ég legg á það áherslu að Ríkisendurskoðun var einungis að skoða skrifstofuhald ráðuneytanna sjálfra í þessari yfirferð. Og nú spyr ég hæstv. umhvrh.:

Til hvaða aðgerða má gera ráð fyrir að gripið verði í ljósi þessarar nýútkomnu skýrslu um stöðuna í umhverfisstefnu í ríkisrekstri?