Umhverfisstefna í ríkisrekstri

Miðvikudaginn 09. febrúar 2000, kl. 14:37:07 (4143)

2000-02-09 14:37:07# 125. lþ. 60.9 fundur 306. mál: #A umhverfisstefna í ríkisrekstri# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., umhvrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur, 125. lþ.

[14:37]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir):

Virðulegur forseti. Skýrsla Ríkisendurskoðunar sýnir nákvæmlega það sem hv. fyrirspyrjandi var að draga hér fram og ég var að ýja að í svari mínu, þ.e. að menn hefðu getað gert betur. Það er alveg ljóst. Það er því mjög gott að fá þessa skýrslu í hendurnar til að nota hana til að ýta á ráðuneytin og undirstofnanir þeirra. Það höfum við gert með því að eiga fund --- sem vonandi er afstaðinn --- með ráðuneytisstjórunum þar sem á að ræða sérstaklega við þá um að þeir taki sig á og láti þessa stefnu ganga betur fram innan ráðuneytanna og hafi einnig áhrif á undirstofnanir viðkomandi ráðuneytis. Menn verða að treysta því að það verði gert.

Að sjálfsögðu verða þessi mál skoðuð í framhaldinu aftur og við þurfum að vera sívakandi og ýta á af því að þessi mál eru þess eðlis. Það er svona ákveðin nýjung að setja sér svona umhverfisstefnu á vinnustað. Það á alveg jafnt við um ráðuneyti og aðra vinnustaði.

Í umhvrn. eru þessi mál í góðum farvegi að mínu mati. Við höfum átt fund með forstöðumönnum undirstofnana okkar þar sem rædd voru fjölmörg mál og þar á meðal umhverfisstefnan. Forstöðumennirnir gerðu grein fyrir því hvernig að þessum málum var staðið í viðkomandi stofnunum og ýmsir gallar komu í ljós. Sumir gleymdu að slökkva ljósin og svo voru einhver atriði sem mönnum þykir þó frekar einfalt að muna eftir. En þeir töldu að menn þyrftu að vera sívakandi yfir umhverfisstefnunni til þess að ýta á að menn framfylgdu henni.

Ég tel að þessi mál séu í góðum farvegi og ég vona að sjálfsögðu að menn taki sig á af því að niðurstaðan sýnir að menn hafa ekki gert nógu vel. En ég vona að sá farvegur sem við erum að setja málin í núna muni ýta við ráðuneytum og undirstofnunum þeirra.