Smíði skipa

Miðvikudaginn 09. febrúar 2000, kl. 14:47:50 (4147)

2000-02-09 14:47:50# 125. lþ. 60.4 fundur 178. mál: #A smíði skipa# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., iðnrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur, 125. lþ.

[14:47]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að leyna því að vitanlega hefði verið æskilegt að þau verkefni sem fallið hafa í skaut útlendingum og útlendum skipasmíðaiðnaði hefðu í stað þess verið unnin hérna heima. Þeirri skoðun deili ég með hv. fyrirspyrjanda. En við Íslendingar höfum lengi barist á móti ríkisstyrkjum til skipasmíða. Innan EES-svæðisins eru takmarkaðir ríkisstyrkir viðurkenndir samkvæmt svokallaðri 7. tilskipun ESB og nýta mörg aðildarríkin sér það. Stuðningur við þessa ríkisstyrki er þó á undanhaldi og skortir fyrst og fremst að fá samþykki Bandaríkjamanna til að svonefnd OECD-samþykkt um algert bann við opinberum styrkjum til skipasmíða verði staðfest á alþjóðavettvangi.

Hv. þm. talaði um reglur undirboðs- og jöfnunartolla. Ég tel ekki að þar sé einhverju ábótavant en mér finnst alveg sjálfsagt að láta fara yfir það í ráðuneytinu. Eins og ég sagði í upphafi ræðu minnar er ég sammála hv. þm. hvað það varðar að við vildum fá miklu meira af þessum verkefnum hingað heim. Hins vegar hefur ástandið verið bærilegt síðustu árin, en það er rétt, sem kemur fram í máli hans að frekar er farið að halla undan nú síðustu mánuði og missiri.