Gagna- og fjarvinnsla á landsbyggðinni

Miðvikudaginn 09. febrúar 2000, kl. 14:49:51 (4148)

2000-02-09 14:49:51# 125. lþ. 60.5 fundur 309. mál: #A gagna- og fjarvinnsla á landsbyggðinni# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., Fyrirspyrjandi SJS
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur, 125. lþ.

[14:49]

Fyrirspyrjandi (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að leggja fyrirspurn fyrir hæstv. iðnrh. hvað líði framkvæmd af hálfu ríkisstjórnar eða eftirfylgju á skýrslu um gagna- og fjarvinnslu á landsbyggðinni sem Iðntæknistofnun vann fyrir Byggðastofnun, forsrn. og sjálfa sig og gefin var út í septembermánuði sl.

Það er svo að á síðustu mánuðum eða missirum hefur orðið talsverð umræða um þá möguleika sem fólgnir væru í gagna- og fjarvinnslumöguleikum til að flytja verkefni og störf út um land og láta vinna hluti þar. Má nefna í því sambandi þá uppbyggingu sem orðið hefur hjá fyrirtækinu Íslenskri miðlun og hefur vakið mikla athygli og fjölmörg byggðarlög hafa nú þegar notið góðs af. Menn hafa eðlilega spurt: Úr því að slík þróun getur orðið á vegum einkaaðila, hvað þá með þá miklu möguleika sem hið opinbera ætti að hafa til að dreifa starfsemi á sínum vegum eða láta vinna hluta starfa sem tilheyra opinberri stjórnsýslu, opinberum rekstri af ýmsum toga út um landið á grundvelli þessarar tækni?

Þá má nefna að skýrslu þessari tengdust talsverðar væntingar þegar hún kom út í septembermánuði sl. og þar eru flokkaðir upp þeir kostir sem skýrsluhöfundar telja koma til greina eftir því hversu auðvelt og fljótt ætti að mega færa einhverja af þeirri starfsemi til með þessum hætti.

Síðan þetta var, herra forseti, eru liðnir allmargir mánuðir og enn bólar lítt á aðgerðum af hálfu hins opinbera og farið er að gæta vaxandi óþreyju eftir því að fá niðurstöður eða hreyfingu á hlutina. Reistar hafa verið stöðvar sem bíða eftir verkefnum og er þá ekki síst horft til þeirra verkefna sem fjallað var um í þessari skýrslu og vonir voru bundnar við að hið opinbera gæti stuðlað að að yrðu unnar út um landið. Má sem dæmi taka að í Ólafsfirði og í Hrísey, þar sem atvinnuástand er mjög bágborið vegna áfalla í sjávarútvegi, bíða menn nú eftir því að fá verkefni til fjarvinnslu sem menn hafa þar ætlað sér að reyna að koma í gang.

Ég hef því leyft mér, herra forseti, að leggja spurningar fyrir hæstv. iðnrh., sem fer með byggðamál samkvæmt nýrri skipan og ég gef mér að hafi þessi mál á sinni könnu, til að fá upplýsingar um hvar málin eru á vegi stödd og spyr:

1. Hvernig hefur verið unnið að því af hálfu ríkisstjórnarinnar að fylgja eftir skýrslu Iðntæknistofnunar um nýsköpun í gagna- og fjarvinnslu á landsbyggðinni frá því í september sl.?

2. Hefur verið tekin ákvörðun um flutning einstakra verkefna og ef svo er, hver eru þau og hvert verða þau flutt?