Gagna- og fjarvinnsla á landsbyggðinni

Miðvikudaginn 09. febrúar 2000, kl. 14:59:12 (4152)

2000-02-09 14:59:12# 125. lþ. 60.5 fundur 309. mál: #A gagna- og fjarvinnsla á landsbyggðinni# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., Fyrirspyrjandi SJS
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur, 125. lþ.

[14:59]

Fyrirspyrjandi (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin og undirtektir sem þetta mál hefur fengið frá hv. þm. En ég hlýt að segja það einnig fyrir mitt leyti að mér eru nokkur vonbrigði hversu hægt hlutirnir ganga fyrir sig. Það er mikið umhugsunarefni að hin opinbera stjórnsýsla og verkefni á vegum hins opinbera skuli reynast svona þung í vöfum í þessu sambandi á sama tíma og við sjáum hversu greiðlega hlutir geta stundum gengið fyrir sig þegar í hlut eiga einkaaðilar.

Í skýrslunni sem er hér sérstaklega til umfjöllunar eru nefnd ákveðin verkefni sem maður hefði haldið að hægt væri að taka grundvallarákvarðanir um að skyldu flutt. Ég hefði sætt mig prýðilega við það þó að í svari ráðherra hefði komið fram að það mundi taka mánuði, jafnvel missiri, að vinna að þeim flutningum. Mér þykir hins vegar miður að ekki skyldu koma fram neinar upplýsingar um að grundvallarákvarðanir hefðu verið teknar um það að tiltekin verkefni eins og firmaskrá, hlutafélagaskrá eða aðrir slíkir verkþættir yrðu unnir á landsbyggðinni og síðan yrði markvisst unnið að flutningi þeirra og menn hefðu sett sér þar einhvern tímaramma og helst ekki neinn snigilshraða í þeim efnum.

Að sjálfsögðu þarf að vinna að þessu yfirvegað og gæta þarf fyllsta tillits gagnvart því starfsfólki sem í hlut á en hitt er ljóst að einmitt um þessar mundir eru mjög hagstæðar aðstæður á vinnumarkaði til þess að svona færsla fari fram. Það er þensla á vinnumarkaði, umframeftirspurn eftir vinnuafli og ástæða er til að ætla að breytingar af þessu tagi gætu núna gerst án nokkurrar sársaukafullrar röskunar á högum starfsmanna ef skynsamlega væri að þessu unnið. Þess vegna er núna upplagt tækifæri til að gera athafnir úr orðum. Mikið hefur verið talað á undanförnum árum um möguleika hinnar nýju tækni til að koma okkur að liði í þessum efnum í sambandi við stöðu byggðarmála en því miður, herra forseti, hefur fram að þessu fyrst og fremst verið talað.