Gagna- og fjarvinnsla á landsbyggðinni

Miðvikudaginn 09. febrúar 2000, kl. 15:01:25 (4153)

2000-02-09 15:01:25# 125. lþ. 60.5 fundur 309. mál: #A gagna- og fjarvinnsla á landsbyggðinni# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., iðnrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur, 125. lþ.

[15:01]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Ég tek alveg undir að mikið hefur verið talað og miklar væntingar eru í þessu máli. Ég hef líka sjálf miklar væntingar. En ég geri þetta ekki ein. Ég hef verið að leggja mig fram um að koma þessum málum í ákveðinn farveg síðan ég kom í iðn.- og viðskrn. og tel að þó nokkuð hafi áunnist, en ég er samt alls ekki ánægð með frammistöðu mína eða annarra.

Það er líka mikið búið að tala um flutning stofnana út á land en hins vegar hefur minna orðið um framkvæmdir og því miður er það oft þannig á Íslandi og hér á hv. Alþingi.

Það kom fram í máli hv. þm. Einars K. Guðfinnssonar að hægt ætti að vera að flytja strax ákveðin verkefni. Ég tel það einnig vera svo. En eins og kom fram í máli hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar verðum við að vinna þetta yfirvegað og fara ekki fram úr sjálfum okkur og ákveðnar reglur gilda um útboð þegar um starfsemi ríkisins er að ræða sem við þurfum að virða. Hins vegar eru reglurnar líka þannig að þegar um þróunarverkefni er að ræða höfum við ákveðna möguleika til að senda verkefni sem tilraunaverkefni út á land. Þetta verður allt saman skoðað í mikilli alvöru. Ég lét það koma fram í máli mínu áðan að ég teldi að ekki mundu líða margir mánuðir alla vega þangað til við færum að sjá árangur af því starfi sem nú er hafið og það vil ég hafa sem lokaorð mín.