Fæðingarorlof

Miðvikudaginn 09. febrúar 2000, kl. 15:22:24 (4162)

2000-02-09 15:22:24# 125. lþ. 60.2 fundur 153. mál: #A fæðingarorlof# fsp. (til munnl.) frá fjmrh., BH
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur, 125. lþ.

[15:22]

Bryndís Hlöðversdóttir:

Herra forseti. Það er ánægjulegt að sjá að hv. þm. ríkisstjórnarinnar muna eftir loforðunum frá því fyrir kosningar. Eins og við munum var þverpólitísk samstaða um að bæta stöðu foreldra í fæðingarorlofi.

Ég vil hins vegar vekja athygli á því að með túlkun sinni á fæðingarorlofstilskipun Evrópusambandsins hefur hæstv. ríkisstjórn komið í veg fyrir verulega réttarbót á þessu sviði en tilskipunin gæti falið í sér verulega hækkun lágmarksgreiðslna í fæðingarorlofi ef hún væri túlkuð á annan veg en ríkisstjórnin gerir. Samtök launafólks hafa nú kært þessa túlkun til Eftirlitsstofnunar EFTA og málinu er ekki lokið. Ég vil draga þetta inn í umræðuna og vekja athygli á því að það er tómt mál að tala um lengingu fæðingarorlofs ef ekki er líka hugað að því að lágmarksgreiðslurnar í fæðingarorlofi séu þannig að fólk geti í raun og veru lifað af þeim á meðan á fæðingarorlofi stendur því að annars hefur fólk einfaldlega ekki efni á því að taka sér það fæðingarorlof sem um er talað.