Endurskoðun skattalöggjafarinnar

Miðvikudaginn 09. febrúar 2000, kl. 15:33:55 (4171)

2000-02-09 15:33:55# 125. lþ. 60.3 fundur 157. mál: #A endurskoðun skattalöggjafarinnar# fsp. (til munnl.) frá fjmrh., JHall
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur, 125. lþ.

[15:33]

Jónas Hallgrímsson:

Virðulegur forseti. Ég fylgi úr hlaði fyrirspurn til hæstv. fjmrh. á þskj. 178, um endurskoðun skattalöggjafarinnar. Fyrirspurnin er lögð fram af hv. 2. þm. Norðurl. v., Árna Gunnarssyni, er tók sæti á Alþingi sem varamaður á yfirstandandi þingi. Ástæður þessarar fyrirspurnar eru fyrirheit um endurskoðun skattalöggjafarinnar er fram koma í stefnuyfirlýsingu hæstv. ríkisstjórnar frá því í maí á sl. ári.

Stefnuyfirlýsing hæstv. ríkisstjórnar er metnaðarfull og í henni er lýst helstu verkefnum sem stjórnarflokkarnir náðu samkomulagi um að vinna að á kjörtímabilinu. Meðal þeirra er að endurskoða skattalöggjöfina, reyndar bæði hvað varðar tekjuskatt og eignarskatt. Sú fyrirspurn sem hér er fylgt úr hlaði snýr að tekjuskatti einstaklinga og jaðaráhrifum í skattkerfinu en í stefnuyfirlýsingu hæstv. ríkisstjórnar er sett fram eftirfarandi markmið, með leyfi hæstv. forseta:

,,Að endurskoða skattalöggjöfina með það að markmiði m.a. að draga úr jaðaráhrifum og mismunun innan skattkerfisins og stuðla þannig að aukinni skilvirkni þess.``

Í fyrrnefndri stefnuyfirlýsingu koma jafnframt fram fyrirheit um að skattkerfið verði endurskoðað með hagsmuni fjölskyldunnar að leiðarljósi þar sem segir, með leyfi virðulegs forseta, að stjórnarflokkarnir munu vinna að því:

,,Að styrkja fjölskylduna sem hornstein þjóðfélagsins og treysta samheldni hennar og velferð. Meðal annars verði dregið úr tekjutengingu í barnabótakerfinu, t.d. með útgáfu sérstakra barnakorta eða öðrum sambærilegum aðgerðum.``

Virðulegi forseti. Spurning mín til hæstv. fjmrh. er hvað líði endurskoðun skattalöggjafarinnar, og þá sérstaklega með hliðsjón af þeim markmiðum er ég vitnaði til hér á undan í stefnuyfirlýsingu hæstv. ríkisstjórnar.