Lausafjárkaup

Fimmtudaginn 10. febrúar 2000, kl. 10:51:03 (4182)

2000-02-10 10:51:03# 125. lþ. 61.1 fundur 110. mál: #A lausafjárkaup# (heildarlög) frv. 50/2000, JóhS
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur, 125. lþ.

[10:51]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Ég held að ég fari rétt með að þetta sé fyrsta stjfrv. sem núverandi viðskrh. mælir fyrir úr þessum ræðustól þannig að ég vil nota tækifærið og óska nýkjörnum viðskrh. velfarnaðar í starfi. Ég vonast til að eiga góð samskipti við hæstv. ráðherra um þau mikilvægu mál sem hæstv. ráðherra fer með og eru til umfjöllunar í efh.- og viðskn. þar sem ég á sæti.

Full ástæða er til að fagna því frv. sem er til umræðu enda löngu orðið tímabært að fá nýja heildarlöggjöf um lausafjárkaup. Þessi frumvarpssmíð hefur verið nokkuð lengi í undirbúningi eða um átta ára skeið, frá 1992. Það var lagt fyrir þingið 1998 og til meðferðar í efh.- og viðskn. þar sem það náði ekki fram að ganga. Af sjálfu leiðir að gífurlegar breytingar hafa orðið á öllum viðskiptaháttum og umhverfi viðskipta og þjónustu jafnt innan lands sem utan frá því að núgildandi lög um lausafjárkaup voru sett árið 1922. Eftir því sem ég hef haft tíma til að skoða þennan stóra og mikla lagabálk sýnist mér að um sé að ræða mjög vandaða lagasmíð. Til grundvallar henni er fyrst og fremst lögð norræn kaupalöggjöf eins og kom fram í máli hæstv. ráðherra.

Það sem ég tel mikilvægast við þetta yfirgripsmikla frv. eru ákvæðin um aukna neytendavernd og betri réttarstöðu neytenda með ákvæðum þessa frv. Fram kemur í greinargerð frv. að margvísleg ákvæði um neytendakaup sé að finna í frv. sem Neytendasamtökin hafa m.a. lagt ríka áherslu á að verði lögfest.

Neytendasamtökin hafa í gegnum árin krafist þess að gerðar verði breytingar á lögum um lausafjárkaup og lögfest lagaákvæði um neytendakaup, einnig að lengja fresti kaupenda til að gera athugasemdir og koma fram bótakröfum. Þegar frv. þetta var til umfjöllunar í efh.- og viðskn. á árinu 1998 komu Neytendasamtökin fram með mjög ítarlegar og margar breytingartillögur sem snertu m.a. ákvæði um neytendakaup og neytendavernd. Ég spyr hæstv. ráðherra hvort hann geti upplýst hvort og þá að hve miklu leyti tekið hefur verið tillit til ábendinga Neytendasamtakanna þegar frv. hefur verið lagt fram á nýjan leik.

Ég hef undir höndum umsögn sem lögð var fyrir efh.- og viðskn. frá Neytendasamtökunum og dagsett er 18. febrúar 1999. Þar eru gerðar athugasemdir sem ég vil fjalla um. Vitnað er til þess að lögin um lausafjárkaup séu ekki samræmd á Norðurlöndum, að nokkur munur sé á í ýmsum efnum og síðan er sagt orðrétt:

,,Það sama gildir hins vegar um þær breytingar, sem að gerðar hafa verið á lögunum á hinum Norðurlöndunum, að þær hafa nánast allar verið til þess að styrkja stöðu neytenda.

Ákveðin samræming í þessum efnum er nauðsynleg miðað við alþjóðlegt viðskiptaumhverfi nútímans. Þá er samræming nauðsynleg með tilliti til væntanlegra reglna Evrópubandalagsins þar sem gengið er út frá því, að komið verði á fót úrskurðarnefndum sem neytendur geti lagt mál sín fyrir og fengið úrlausn vegna ágreiningsmála sinna og seljenda með skjótum og ódýrum hætti.``

Inn á þessar úrskurðarnefndir mun ég koma síðar í máli mínu. Ég tel þær mjög mikilvægar en áfram segir í umsögn Neytendasamtakanna, með leyfi forseta:

,,Neytendasamtökin telja því brýnt, að þegar verði gerðar breytingar á lögum um lausafjárkaup varðandi stöðu neytenda til samræmis við sambærileg lög á hinum Norðurlöndunum.``

Síðan er farið yfir það sem talið er að þurfi að breyta. Talið er nauðsynlegt að taka upp ákvæði í lögum um lausafjárkaup og einnig telja Neytendasamtökin nauðsynlegt að gera óundanþæg ýmis ákvæði sem eru undanþegin í núgildandi lögum og einnig samkvæmt frv. Það á einkum við um ákvæði sem heimila seljendum að undanþiggja sig ábyrgð á söluhlut með einum eða öðrum hætti.

,,Neytendasamtökin telja að í neytendakaupum eigi almennir söluskilmálar til varnar hagsmunum neytenda að gilda undantekningalaust og óheimilt verði fyrir seljendur, sem hafa atvinnu af því að selja hluti, að undanþiggja sig ábyrgð við sölu þeirra. Þá bar nauðsyn til að endurskoða og breyta einstökum ákvæðum með tilliti til réttarþróunar og þjóðfélagsaðstæðna.``

Síðan segja samtökin, með leyfi forseta:

,,Þá er í frumvarpinu að finna ýmis nýmæli, sem að mati Neytendasamtakanna eru til mikilla bóta. Þrátt fyrir það telja Neytendasamtökin ekki hafa verið gengið nægilega langt í neytendavernd í ákveðnum tilvikum.`` Síðan er gerð nánari grein fyrir því í ítarlegu máli þar sem farið er yfir ýmsar greinar frv. og gerðar tillögur til breytinga.

Fyrirspurn mín til hæstv. ráðherra er: Að hve miklu leyti hefur, í frv. sem nú er lagt fyrir þingið, verið tekið tillit til þeirra ábendinga sem koma fram hjá Neytendasamtökunum í umsögn þeirra til hv. efh.- og viðskn.?

Einnig vil ég spyrja hæstv. ráðherra hvort hann telji ekki eðlilegra að hafa ein heildarlög um neytendavernd eða neytendalöggjöf fremur en að lagaákvæði um neytendavernd sé að finna í mörgum lögum eins og getið er um í frv. og hæstv. ráðherra kom inn á í máli sínu. Reyndar er annað mál á dagskrá, frv. um þjónustukaup minnir mig að það að heiti, sem fjallar um málefni neytenda. Maður veltir fyrir sér hvort ekki sé hægt að setja inn heildarlöggjöf um neytendavernd eða neytendalöggjöf. Ég spyr hæstv. ráðherra um skoðun hennar á því, hvort hún telji ekki eðlilegt að stefna að því að samræma þessi ákvæði.

Það er skoðun mín að fyllilega hljóti að koma til greina að samræma öll lagaákvæðin í eina heildarlöggjöf um neytendavernd þó ekki væri nema til að gera öll hin fjölmörgu ákvæði í ýmsum lögum aðgengilegri fyrir neytendur sem eðli máls samkvæmt þurfa oft að leita með mál sín í þá löggjöf sem gildir um neytendavernd. Ef ég man rétt hefur t.d. Svíþjóð farið þá leið að setja heildarlög um neytendavernd. Ég spyr hæstv. ráðherra að því hvort það sé ekki rétt.

Ég vil einnig spyrja hæstv. ráðherra hvort hún telji að með lögfestingu á því frv. sem er til umræðu sé neytendaréttur og neytendavernd á Íslandi sambærileg við það sem gerist t.d. annars staðar á Norðurlöndum og það sé fullkomlega tryggð í þessari löggjöf sambærileg staða neytenda hér á landi og í þeim löndum sem við viljum helst bera okkur saman við. Þar vitna ég einmitt til þess sem fram kom hjá Neytendasamtökunum og ég nefndi áðan. Þau telja að a.m.k. í því frv. sem var lagt fyrir þingið 1998 sé neytendavernd ekki nægilega tryggð en ég hef ekki átt þess kost að bera saman hvort breytingar hafi verið gerðar á frv. sem lagt var fyrir 1998 og því sem við erum að fjalla um núna eða að hve miklu leyti hafi verið tekið tillit til ábendinga og umsagna sem fram hafa komið í nefndinni til að styrkja enn frekar neytendavernd í löggjöf.

[11:00]

Einnig væri áhugavert að fá fram skoðun hæstv. viðskrh. á því hvort hæstv. ráðherra telji rétt að stjórnvöld stofni til sérstaks embættis umboðsmanns neytenda. Ég held að það sé mjög áhugavert mál að skoða hvort eðlilegt sé að stefna að því að stofna til embættis umboðsmanns neytenda. Neytendamál eru sífellt að verða flóknari og umfangsmeiri og væri fróðlegt að fá fram álit hæstv. ráðherra á því hvort ekki væri a.m.k. eðlilegt að skoða það mál að fara þá leið.

Í því sambandi vil ég minna á tillögu sem flutt var árið 1995 af þáv. varaþm. Þjóðvaka, Vilhjálmi Inga Árnasyni, og árið 1996 af hv. þm. Svanfríði Jónasdóttur og fleirum, en sú þáltill. laut að stofnun úrskurðarnefndar í málefnum neytenda. Efnisatriði í þeirri ályktun var að fela ríkisstjórninni að koma á fót tveimur úrskurðarnefndum í málefnum neytenda. Í fyrsta lagi ,,nefnd sem fjalli um ágreiningsmál neytenda og opinberra þjónustufyrirtækja; nefndin verði skipuð þremur fulltrúum, einum tilnefndum af viðskiptaráðherra, öðrum tilnefndum af Neytendasamtökunum og þeim þriðja tilnefndum af því opinbera þjónustufyrirtæki sem mál varðar hverju sinni.`` Í öðru lagi ,,nefnd sem fjalli um ágreiningsmál neytenda og sjálfstætt starfandi sérfræðinga; nefndin verði skipuð þremur fulltrúum, einum tilnefndum af viðskiptaráðherra, öðrum tilnefndum af Neytendasamtökunum og þeim þriðja tilnefndum af því fagfélagi sérfræðinga sem mál varðar hverju sinni.``

Í grg. þeirrar þáltill. kom ýmislegt fram sem erindi á inn í þessa umræðu hér og nú.

Þar segir að þannig hafi ,,íslensk stjórnvöld, ein stjórnvalda á Norðurlöndum, ekki átt frumkvæði að því að auðvelda neytendum aðgang að ódýrum og aðgengilegum valkostum til að fá niðurstöðu í ágreiningsmálum sín og seljenda eða veitenda.`` Og komum við kannski nánar að því í því máli sem er á dagskrá hér á eftir um þjónustukaup.

Einnig segir í grg. að á ,,sama tíma og áhugi íslenskra stjórnvalda á neytendamálum hefur verið takmarkaður og einkennst af andvaraleysi hefur ríkur skilningur verið á því annars staðar á Norðurlöndum að mikilvægt sé fyrir neytendur að eiga kost á að fá niðurstöðu í ágreiningsmálum sínum við seljendur og veitendur á hraðvirkan og ódýran hátt. Þar hafa stjórnvöld stofnað sérstök embætti umboðsmanna neytenda, komið á fót úrskurðarnefndum, auðveldað aðgengi neytenda og samtaka þeirra að dómstólum og sett sérstaka löggjöf til hagsbóta fyrir neytendur.`` Hér er sagt að annars staðar á Norðurlöndum hafi verið stofnað til sérstakra embætta umboðsmanna neytenda. Ég hef ekki átt þess kost að kanna sérstaklega hvort það hafi verið gert og spyr hæstv. ráðherra hvort slík embætti sé að finna á hinum Norðurlöndunum og ef svo er, hvaða reynsla er þá fengin af þeim embættum.

Herra forseti. Ég geri mér ekki alveg grein fyrir því hvort hæstv. ráðherra er að hlýða á mál mitt eða ekki af því að nú er hún ekki í salnum en ég vænti þess af því að ég er að bera fram nokkrar spurningar til hæstv. ráðherra að hún hlýði á mál mitt.

(Forseti (ÍGP): Forseti skal sjá til þess. Hæstv. ráðherra birtist hér í dyrunum.)

Ég geri ekki athugasemd við það að ráðherra sé hér í hliðarsal að ræða við ráðgjafa sína svo fremi ég sé örugg um að hún hlýði á mál mitt.

Spurning mín lýtur að þessu sérstaka embætti umboðsmanns neytenda, hvort ráðherra geti staðfest að það sé til staðar annars staðar á Norðurlöndum og þá hvaða reynsla er af þeim fengin.

Síðan segir í grg.: ,,Íslensk stjórnvöld hafa eins og fyrr segir ekki átt frumkvæði að setningu neytendalöggjafar umfram það sem þau hafa orðið að gera í tengslum við EES-samninginn. Í skýrslu frá viðskrn. til EFTA árið 1991 er það sérstaklega tekið fram að engin umræða hafi farið fram nýlega um stofnun smámáladómstóls hér á landi og að í næstu framtíð séu ekki áformaðar neinar breytingar þar að lútandi.

Ég geri mér vissulega grein fyrir því, herra forseti, að frá því að þessi grg. er rituð, á árinu 1996--1997, en hún fylgdi með þáltill. á 121. löggjafarþingi, hefur verið gerð nokkur breyting til þess að styrkja stöðu neytenda og er það ekki síst þó að finna í því frv. sem við ræðum nú og því sem er hér síðar á dagskrá þessa fundar.

Í lokin vil ég vitna til þess sem hér segir. ,,Afskipti stjórnvalda annars staðar á Norðurlöndum af ágreiningsmálum neytenda og veitenda þjónustu eru víðtæk. Í Svíþjóð og Finnlandi eru starfandi sérstakir umboðsmenn neytenda`` --- hér stendur að vísu í Svíþjóð og Finnlandi eingöngu --- ,,og úrskurðarnefndir í ýmsum málaflokkum sem kostaðar eru af ríkinu. Í Noregi og Danmörku eru einnig sérstakir umboðsmenn neytenda`` --- hér kemur fram að þetta sé í öllum löndunum --- ,,auk þess sem úrskurðarnefndir eru starfandi í fjölmörgum málaflokkum. Ljóst er að stjórnvöld annars staðar á Norðurlöndum láta sig neytendamál meira máli skipta en íslensk og veita umtalsvert meiri fjármuni miðað við höfðatölu til að tryggja þegnum sínum skjóta og ódýra úrlausn mála sinna.``

Ég held, herra forseti, að þar sem ég á sæti í efh.- og viðskn., sem fær þetta frv. til umfjöllunar, að ég fari ekki efnislega yfir einstakar greinar eða þætti frv. Ég hef vikið að málinu í stórum dráttum þar sem ég hef beint ákveðnum spurningum til hæstv. ráðherra sem allar lúta að neytendaverndinni og hvort nægilega langt sé gengið í því efni og hvort ekki sé ástæða til að huga að því, þó að það sé ekki endilega í tengslum við þetta frv., að stofnað sé til embættis umboðsmanns neytenda.

Ég mun gera það, herra forseti, sem í mínu valdi stendur til að greiða fyrir málinu í efh.- og viðskn. sem fær málið til meðferðar. Að vísu er hér um stóran og viðamikinn málaflokk að ræða og með frv. og grg. er þetta vel á annað hundrað blaðsíður. Efh.- og viðskn. á því ærinn starfa fyrir höndum að fara yfir þetta frv.