Lausafjárkaup

Fimmtudaginn 10. febrúar 2000, kl. 11:07:48 (4183)

2000-02-10 11:07:48# 125. lþ. 61.1 fundur 110. mál: #A lausafjárkaup# (heildarlög) frv. 50/2000, SJS
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur, 125. lþ.

[11:07]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Það má segja um lögin frá 1922, sem hér er verið að endurskoða, að þau hafa reynst augljóslega bæði endingargóð og vönduð og ég held að við gætum verið stolt af því nú á dögum ef okkur tækist að setja fram slíka löggjöf að menn gætu búið við hana í hartnær öld án þess að það væri til stórfelldra vandræða. En það er sjálfsagt engu að síður svo að óhjákvæmilegt er eða rétt að gera ýmsar breytingar á og það eru ekki síst gerbreyttir viðskiptahættir, staða okkar gagnvart öðrum löndum þannig að réttarumhverfið hér sé með sambærilegum hætti og t.d. annars staðar á Norðurlöndunum og svo auðvitað ekki síst staða neytenda og þau viðhorf sem nú eru uppi í þeim efnum, að eðlilegt sé að tryggja betur stöðu þeirra en kannski var gert á sinni tíð líka í ljósi breyttra viðskiptahátta og þess viðskiptaumhverfis sem nú er við lýði.

Þetta frv. var flutt á næstsíðasta þingi, var til umfjöllunar á sl. vetri og þá talsvert unnið í hv. efh.- og viðskn. Ég sé í grg. að sú vinna hefur verið höfð til hliðsjónar áður en málið var endurflutt. Ég vænti því þess að málið eigi að geta fengið framgang á þessu þingi og náð að verða að lögum. Það verður að vísu augljóslega ekki svo hröð afgreiðsla á þessu að ákvæði 99. gr. geti gengið fram óbreytt en þar stendur að lög þessi öðlist gildi 1. janúar 2000. Það mun tæpast verða úr þessu, en því þarf að sjálfsögðu að breyta og tekur mið af því að frv. hefur verið samið áður en þau tímamót gengu í garð. Síðasta ár aldarinnar hófst þá eins og menn vilja hafa það í Þjóðvinafélaginu.

Vegna þess sem hér var rætt áðan af hv. síðasta ræðumanni, Jóhönnu Sigurðardóttur, þá vil ég taka undir að það er auðvitað eðlilegt að menn velti fyrir sér stöðu neytenda í lagalegu tilliti í þessum efnum og hvort jafnvel væri heppilegra að reyna að færa saman inn í ein heildarlög allt sem snýr að neytendavernd. En það hefur þó líka galla. Staðreyndin er sú að í samkeppnislögum og/eða annars staðar þar sem verið er að ganga frá leikreglum á einhverjum einstökum sviðum, þá er í rauninni líka að mörgu leyti heppilegt að neytendaverndin eða ákvæði sem lúta sérstaklega að stöðu almennings sé þar að finna, þannig að þarna eru kannski kostir og allar á í báðum tilvikum.

Að síðustu ætla ég, herra forseti, aðeins að velta upp spurningum um umboðsmann neytenda sem hluta af því lagalega og stjórnsýslulega kerfi sem á að tryggja stöðu þeirra í sífellt flóknari heimi og við rekumst auðvitað á það á öllum sviðum. Ég held að áður en menn færu út á þá braut t.d. að bæta við einu umboðsmannsembættinu enn, sem væri þá umboðsmaður neytenda, ætti að fara fram almenn grundvallarumræða um hvort það er það fyrirkomulag sem við ætlum að fara að styðjast við almennt og í vaxandi mæli. Á Íslandi hefur þróunin ekki orðið sú sama og annars staðar á Norðurlöndunum, t.d. í Svíþjóð, þar sem þetta umboðsmannakerfi er umfangsmest hygg ég vera og þar eru eiginlega umboðsmenn orðnir fyrir flesta helstu þjóðfélagshópa og hagsmunasvið þjóðfélagsins. Það fyrirkomulag er þar mjög útbreitt og þróað. En ég held að með alveg sama hætti og menn mundu geta rökstutt þörfina fyrir umboðsmann neytenda kæmu upp hugmyndir um umboðsmann aldraðra, sjúklinga og fleiri slíkra hópa. Ég held því að það væri kannski skynsamlegt að velta því upp sem grundvallarspurningu hvort við ætlum lengra inn á þá braut en orðið er með þeim tveimur embættum sem nú eru við lýði, þ.e. umboðsmanni Alþingis sem er auðvitað almenns eðlis og tekur til stjórnsýslunnar og þeirra þátta og svo umboðsmanni barna sem ég tel að hafi verið og séu mjög sérstök rök fyrir. Það embætti er kannski í ákveðnum sérflokki vegna eðlis þeirrar hagsmunagæslu sem þar er á ferðinni, sem sagt umboðsmaður eða réttargæslumaður fyrir hóp sem á mjög erfitt sjálfur með að gæta réttar síns eðli málsins samkvæmt.

Ég vona að þetta misskiljist ekki þannig að ég sé á móti því eða telji það ekki að mörgu leyti hið þarfasta mál að velta upp spurningum um umboðsmann neytenda, en ég hefði þá gjarnan viljað sjá það rætt í tengslum við almenna umræðu um það hvort við værum að fara lengra inn á þá braut og við mundum kannski stefna að því að setja upp umboðsmannsembætti fyrir helstu hópa og hagsmunasvið sem í raun og veru mundi þá gilda svipað um.

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa um þetta fleiri orð. Þetta er flókinn og mikill bálkur sem sjálfsagt er þörf á að fara enn einu sinni rækilega yfir en ég hygg þó að sú vinna sem þegar hefur verið unnin í þessum efnum og vandaður aðdragandi þessa máls sem hefur farið út til umsagna fjölmargra aðila á undirbúningsstigi eigi að tryggja að sæmilega sé fyrir því séð að öll helstu sjónarmið hafi komið fram og það séu ekki í þessu stórfelldir fingurbrjótar, enda um þetta vélað af miklum kunnáttumönnum eins og fram kemur í grg. með frv.