Þjónustukaup

Fimmtudaginn 10. febrúar 2000, kl. 11:55:51 (4191)

2000-02-10 11:55:51# 125. lþ. 61.2 fundur 111. mál: #A þjónustukaup# frv. 42/2000, JóhS
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur, 125. lþ.

[11:55]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Mér fannst rök hæstv. ráðherra nokkuð veik um að málið væri flutt óbreytt frá því að efh.- og viðskn. fjallaði um það á sínum tíma vegna þess að nýtt þing væri að störfum sem ætti að fá tækifæri til að ræða málið eins og það var lagt fyrir af því að hæstv. ráðherra upplýsti í hinu fyrra málinu sem við ræddum að einhverjar breytingar hefðu verið gerðar á því frá því að það var lagt fram 1998. Og ef þessi rök ættu að gilda þá hefðu þau eins átt að gilda um hið fyrra frv. sem við ræddum. Hæstv. ráðherra nefndi að ýmislegt af því sem hefði komið fram í ræðu minni áðan hefði verið rætt í nefndinni. Nú hef ég ekki vitneskju um það vegna þess að ég átti á síðasta þingi ekki sæti í efh.- og viðskn. Þess vegna set ég fram ýmislegt af því sem hefur vakið athygli mína núna við skoðun á þessu máli sem ég hef skoðað sérstaklega með tilliti til þess að eiga sæti í efh.- og viðskn.

Hæstv. ráðherra var spurð --- en svaraði ekki --- um tvær megintillögur sem ég tel mjög athyglisverðar í umsögn Neytendasamtakanna, þ.e. að frv. taki til hvers konar ráðgjafarþjónustu en ekki bara ráðgjafarþjónustu í tengslum við fasteignir og vinnu við byggingarframkvæmdir og eins hitt að hafa eðlilegt svigrúm þegar um er að ræða að neytendur geti sýnt fram á galla sem hafa verið við afhendingu hinnar seldu þjónustu, að eðlilegur frestur megi líða þannig að hann geti leitað réttar síns varðandi slíka galla á seldri þjónustu sem koma fram síðar. Mér fannst mikilvægt að fá skoðun ráðherrans á þessu máli áður en málið fer til efh.- og viðskn. þar sem ég mun sérstaklega taka þá þætti upp.

Varðandi fasteignaviðskiptin og skörun á lögum um fasteignaviðskipti sem heyrir undir dómsmrh. og þessi lög, þá heldur ráðherrann því fram að þar sé ekki um neina skörun að ræða og ætla ég út af fyrir sig ekki að rengja það. Þetta þýðir með öðrum orðum að frv. taki þá ekki til vanefnda á samningum í fasteignaviðskiptum ef ég skil málið rétt. Það var m.a. það sem ég var að vitna til þegar um er að ræða vanefndir á afhendingu fasteigna. Ég spyr ráðherrann aftur skýrt um það hvort það sé þá svo að þetta frv. nái ekki til vanefnda á samningum vegna fasteignakaupa, m.a. á afhendingu eigna. Frv. nái fyrst og fremst til galla sem koma fram á fasteignunum sjálfum eftir að þær hafa verið þá afhentar væntanlega? Eru skilin þessi sem ég er að lýsa? Mér finnst líka athyglisvert það sem fram kom hjá hæstv. ráðherra, sem er auðvitað eðlilegt, að ákvæði þessa frv. sem er til hagsbóta til að bæta réttarstöðu neytenda, að annað gildi þegar um er að ræða nótulaus viðskipti og viðkomandi njóti ekki réttar nema hafa nótu undir hendi. Ég er sammála hæstv. ráðherra um að það er auðvitað mjög þýðingarmikið til þess að koma í veg fyrir nótulaus viðskipti. Mér finnst því afar brýnt að þetta frv. ásamt hinu frv. verði kynnt sérstaklega fyrir neytendum. Ég spyr hæstv. ráðherra hvort einhver áform séu um það af hendi viðskrn. að kynna sérstaklega þau ákvæði sem fela í sér réttarbót fyrir neytendur í landinu.

Það er allt of oft sem fólk, neytendur, veit ekki um réttarstöðu sína og við þurfum að gera bragarbót á því að kynna fólki þau réttindi sem það nýtur samkvæmt þeim lögum sem við erum að setja hér á Alþingi, ekki síst þegar um er að ræða ákvæði sem styrkja réttarstöðu neytenda bæði varðandi kaup á þjónustu og vöru eins og við höfum verið að ræða á þessum morgni.