Þjónustukaup

Fimmtudaginn 10. febrúar 2000, kl. 12:01:15 (4192)

2000-02-10 12:01:15# 125. lþ. 61.2 fundur 111. mál: #A þjónustukaup# frv. 42/2000, viðskrh.
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur, 125. lþ.

[12:01]

Viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Ég vil í fyrsta lagi taka undir það sem kom fram hjá hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur að mjög mikilvægt er að þetta frv., ef af lögum verður, verði kynnt fyrir neytendum. Ég er sannfærð um að neytendur vita allt of lítið um réttarstöðu sína almennt. Með því að bæði þau frv. sem hafa verið á dagskrá í dag verði að lögum tel ég það mikilvægt að þau verði kynnt neytendum þó að ég geti ekki kveðið upp úr um það á þessari stundu hvernig það skuli gert.

Síðan var það spurning um vanefndir á afhendingu fasteigna. Það er svo að þetta frv. nær ekki til þess efnis heldur önnur lög. Í þriðja lagi spurði hv. þm. hvers vegna frv. næði ekki til hvers konar þjónustu. Það þótti ekki raunhæft að hafa frv. þannig vegna þess að það væri að æra óstöðugan að hafa það svo víðtækt.

Ég sagði áðan að það væri vegna þess að hér sæti nýtt þing að frv. væri flutt óbreytt og ég held mig við það að ég held að það sé alveg ástæða til að nýtt þing fái að fjalla um þetta mál í upphaflegri mynd. En auðvitað er það eins og vanalega að fastanefnd í þinginu er ekki algjörlega bundin af vilja ráðherrans þó ég meti ákaflega mikils að hv. þm. vill gjarnan fá hann nákvæmlega fram í umræðunni.

Þegar ég talaði um að ýmis ákvæði sem Neytendasamtökin hefðu bent á hefðu verið rædd í nefndinni var ég ekki að vitna til hv. efh.- og viðskn. heldur til þeirrar nefndar sem samdi frv. Hún fjallaði um ýmis þau atriði sem hv. þm. nefndi og komst að þeirri niðurstöðu að flytja frv. í þeim búningi sem það er í í dag og síðan er það nefndarinnar að fjalla um málið. Ég trúi því að það verði málefnaleg yfirferð.