Rafræn eignarskráning á verðbréfum

Fimmtudaginn 10. febrúar 2000, kl. 12:06:00 (4194)

2000-02-10 12:06:00# 125. lþ. 61.3 fundur 163. mál: #A rafræn eignarskráning á verðbréfum# (breyting ýmissa laga) frv. 32/2000, viðskrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur, 125. lþ.

[12:06]

Viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna tilkomu rafrænnar eignaskráningar á verðbréfum. Frv. er á þskj. 189 og er 163. mál þingsins.

Forsaga málsins er sú að fyrir tveimur árum voru samþykkt á Alþingi lög nr. 131/1997, um rafræna eignaskráningu verðbréfa. Frá því lögin voru sett hefur undirbúningur að stofnun verðbréfamiðstöðvar verið í fullum gangi og er þess að vænta að slíkri skráningu verðbréfa verði hrint í framkvæmd þegar á næsta ári. Í athugasemdum við það frv. sem síðar varð að fyrrnefndum lögum, nr. 131/1997, var gerð grein fyrir því að tekið yrði til nánari athugunar hvort breyta þyrfti ákvæðum einhverra laga vegna þess nýmælis sem felst í rafrænni eignaskráningu verðbréfa.

Í frv. því sem hér liggur fyrir er að finna tillögur til fáeinna lagabreytinga sem eftir samráð við ýmsa aðila er talið nauðsynlegt að gera vegna tilkomu rafrænnar eignaskráningar verðbréfa í verðbréfamiðstöð. Í þinginu hefur áður verið fjallað ítarlega um þetta mál og það mikla hagræði sem felst í því að taka upp slíka skráningu verðbréfa fyrir samfélagið í heild. Ég tel því ekki þörf á að fara aftur yfir þau atriði nú en vil þó minna á að rafræn eignaskráning verðbréfa sem gefin er út hér á landi, svo sem hlutabréfa og annarra mikilvægra markaðsverðbréfa, mun einnig leiða til þess að erlendir fjárfestar sýni íslenskum fjármagnsmarkaði aukinn áhuga og til lengri tíma litið mun það styrkja undirstöður og uppbyggingu atvinnulífsins hér á landi.

Ég vil þá, með leyfi hæstv. forseta, víkja að einstökum ákvæðum frv.

Í I. kafla eru lagðar til breytingar á lögum nr. 131/1997, um rafræna eignaskráningu verðbréfa.

Í 1. gr. er lagt til að í 15. gr. laganna komi ákvæði sem veiti Seðlabanka Íslands beinan innlausnarrétt á þeim rafrænu verðbréfum sem reiknistofnun kann að hafa lagt fram til tryggingar ef brýnar ástæður gera það nauðsynlegt fyrir bankann að ganga að slíkum tryggingum til að tryggja fullar efndir á eignaskráningum sem reiknistofnun hefur framkvæmt í verðbréfamiðstöð.

Meðal hlutverka Seðlabanka Íslands er að bankinn stuðli að öryggi í greiðslumiðlun í landinu og hefur ákvæði 15. gr. laganna tekið mið af því. Það að veita Seðlabankanum beinan innlausnarrétt eins og lagt er til í þessari grein er því til þess fallið að auka öryggi á uppgjöri í viðskiptum á fjármagnsmarkaðnum.

Í 2. gr. er lögð til smávægileg lagfæring á orðanotkun sem skýrir sig að öllu leyti sjálf.

Í 3. gr. er lagt til að bætt verði við nýjum málslið inn í ákvæði til bráðabirgða II og þar með kveðið skýrt á um að þegar innköllun er lokið á áþreifanlegum verðbréfum og þau gefin út sem rafræn þá séu hin áþreifanlegu verðbréf ógild. Fyrirhugað er, eins og kemur fram í þessu ákvæði laganna, að gefa út reglugerð um nánari framkvæmdaatriði yfirfærslunnar en sú breyting sem hér er lögð til mun jafnframt styrkja lagastoð þeirrar reglugerðar.

Í II. kafla er lögð til smávægileg breyting á lögum nr. 21/1991, um gjaldþrot o.fl., en við nánari athugun þótti rétt að inn í upptalningu í 2. mgr. 82. gr. laganna verði bætt orðinu ,,verðbréfamiðstöð`` til frekari áréttingar. Að öðru leyti þarfnast ákvæðið ekki frekari skýringar.

Í III. kafla er lögð til breyting á 22. gr. laga nr. 44/1998, um húsnæðismál. Nú þegar er orðið mikið magn húsbréfa á verðbréfamarkaði eins og alkunna er. Af þeirri ástæðu er mikilvægt að hagræðið sem felst í rafrænni skráningu þessara bréfa verði sem fyrst að veruleika eftir að slík skráning verður framkvæmanleg og verðbréfamiðstöð tekur til starfa. Nauðsynlegt er því að ákvæði 22. gr. laga um húsnæðismál, nr. 44/1998, séu skýr að þessu leyti. Jafnframt þykir rétt að í ákvæðinu komi fram nánari reglur um hvernig yfirfærslan skuli gerð samanber m.a. ákvæði greinarinnar um auglýsingar Íbúðalánasjóðs um yfirfærsluna, tilhögun útgreiðslna á útdregnum húsbréfum eftir að yfirfærslan hefur átt sér stað o.s.frv.

Hæstv. forseti. Ég hef nú gert grein fyrir meginatriðum frv. og legg til að því verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. efh.- og viðskn. og 2. umr.