Rafræn eignarskráning á verðbréfum

Fimmtudaginn 10. febrúar 2000, kl. 12:11:28 (4195)

2000-02-10 12:11:28# 125. lþ. 61.3 fundur 163. mál: #A rafræn eignarskráning á verðbréfum# (breyting ýmissa laga) frv. 32/2000, MF
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur, 125. lþ.

[12:11]

Margrét Frímannsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég fagna því frv. sem er til umræðu. Ljóst var strax þegar samþykkt var að fara í rafræna skráningu að það þyrfti að breyta fleiri lögum í kjölfar þess og það frv. sem hér liggur fyrir er svar við því. Má ekki seinna vera því að mér skilst að þessi rafræna eignaskráning verðbréfa sé u.þ.b. að hefjast núna á næstunni. En í athugasemdum við lagafrv. mætti hins vegar skilja það svo að það sé í upphafi næsta árs --- ég tók ekki eftir hvort hæstv. ráðherra talaði í þá veru. En eftir því sem ég best veit þá hefst þessi rafræna eignaskráning á allra næstu dögum eða vikum og má ekki seinna vera að leggja frv. fram. Því ef eitthvað getur orðið til að auðvelda markaðinn og að hann sé opnari og það liggi fyrir meiri upplýsingar um það sem er að gerast á verðbréfamarkaði hverju sinni er þetta í raun og veru grundvöllur þess að rafræn eignaskráning verði tekin upp. Mikil nauðsyn er á því að hún hefjist sem allra fyrst. Það sem gerist m.a. í kjölfar þess --- og ég vildi nú ræða við hæstv. ráðherra því í sjálfu sér eru ekki mörg atriði í þessu frv. umfram það sem búast mátti við --- að tekin var ákvörðun um þessa rafrænu eignaskráningu. Það er fyrir það fyrsta hvort rafræn eignaskráning getur hafist öðruvísi en að efh.- og viðskn. samþykki það fylgifrv. sem hér er, og hvaða tíma er verið að tala um að nefndin hafi til umfjöllunar um frv. og Alþingi á afgreiðslu. Það er fyrsta spurningin sem ég vildi beina til hæstv. ráðherra.

Í Morgunblaðinu núna einhvern daginn, ég er ekki með dagsetningu, er viðtal við framkvæmdastjóra Verðbréfaþings Íslands um tímasetningu innherjaviðskipta í hlutafélögum, og innherjaviðskipti hafa verið töluvert í umræðunni og m.a. á hv. Alþingi í gær, en þar segir, með leyfi forseta:

,,Nafnbirting vegna viðskipta innherja mun hefjast í kjölfar þess að farið verður að eignarskrá hlutabréf rafrænt hjá Verðbréfaskráningu sem verður á næstunni, að sögn Stefáns Halldórssonar.

Hann segir að á Verðbréfaþingi sé nú unnið að endurskoðun reglna um nafnbirtinguna. Fram til þessa hafi birting nafna verið erfiðleikum bundin. Tilkynningar um innherjaviðskipti hafi borist of seint frá félögunum, þar sem upplýsingar um eigendaskipti að hlutabréfum séu lengi að berast hlutaskrám.``

Við vorum með fund í efh.- og viðskn. á þriðjudaginn þar sem fyrst og fremst var rætt um innherjaviðskipti og farið yfir þær reglur sem eru í gildi. Þá kom mjög skýrt fram hjá öllum þeim aðilum sem mættu á fund efh.- og viðskn. að í raun og veru þyrfti að leggja megináherslu á að allar þær reglur sem þyrfti að taka upp og breyta í kjölfar þess að rafræn eignaskráning væri tekin upp þyrftu að vera tilbúnar núna innan mjög stutts tíma. Ég vil því beina þeirri spurningu til hæstv. ráðherra hvort það sé þannig að það séu einhverjir þeir þættir, hvort sem um er að ræða reglugerðir eða reglur er varða þessi viðskipti á verðbréfamarkaðnum, sem þurfi eða eigi eftir að vinna og í hvaða tilvikum það sé og um hvers konar nafnbirtingar sé að ræða hvað varðar innherjaviðskipti.

[12:15]

Hvernig er það kerfi sem Stefán Halldórsson er að vitna til um reglur um nafnbirtingu innherjaviðskipta sem fylgir því að þessi rafræna eignaskráning verði tekin upp og þær reglur sem hann segir að verið sé að vinna að og eru í öllum tilvikum varðandi þessa framkvæmd? Eru þær unnar í samráði við ráðuneytið eða starfsmenn ráðuneytis og samþykktar og viðurkenndar af ráðuneyti eða Fjármálaeftirlitinu?

Í ljósi þeirrar umræðu sem hefur verið tel ég líka afar mikilvægt að það sé vönduð yfirferð yfir málið í heild sinni, hvernig að allri framkvæmdinni verður staðið, að farið verði yfir það með efh.- og viðskn. því að mjög berlega kom í ljós á fundi efh.- og viðskn. þar sem var rætt var um innherjaviðskipti að þarna er um mjög flóknar reglur og flókið ferli að ræða. Þingmenn, sem eiga að hafa visst eftirlit með því að þarna sé eðlilega og rétt staðið að málum og að lögum sem hér eru samþykkt sé framfylgt á eðlilegan hátt, voru kannski ekki með allar þessar reglur á hreinu.

Ég tel því mjög nauðsynlegt að fyrir liggi skýrar upplýsingar um það hvernig staðið verður að málum eftir að rafræn eignaskráning er tekin upp og þær upplýsingar liggi fyrir ekki bara hjá þeim sem eru á þessum margumtalaða verðbréfamarkaði sem er víst stór hluti þjóðarinnar miðað við upptalningu á öllum þeim sem eiga hlutabréf í hinum ýmsu stofnunum og fyrirtækjum. Eins og kom fram í fjölmiðlum í gær er það orðinn mjög stór hluti þjóðarinnar sem er einhvers staðar með hlutabréf og hefur áhuga á þessum viðskiptum. En ég tel mjög nauðsynlegt að þær reglur sem gilda þarna séu öllum ljósar. Spurningin er þá hvort hæstv. ráðherra muni standa fyrir kynningu eða útgáfu á einhverju upplýsingariti þar sem farið yrði yfir framkvæmd eftir að rafræn eignaskráning verður tekin upp.