Landsvirkjun

Fimmtudaginn 10. febrúar 2000, kl. 12:23:06 (4198)

2000-02-10 12:23:06# 125. lþ. 61.5 fundur 198. mál: #A Landsvirkjun# (aðild að fjarskiptafyrirtækjum) frv. 14/2000, iðnrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur, 125. lþ.

[12:23]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á lögum um Landsvirkjun. Í 2. gr. núgildandi laga um Landsvirkjun er kveðið á um tilgang fyrirtækisins. Í 2. mgr. greinarinnar segir að Landsvirkjun sé heimilt að hagnýta sér þá þekkingu og búnað sem fyrirtækið ræður yfir á sviði orkumála til verkefna erlendis með því að taka að sér verkefni fyrir fyrirtæki eða stofna og eiga hlut í erlendum fyrirtækjum sem annast rannsóknir, ráðgjöf eða aðra þjónustu á sviði orkumála.

Þá segir að Landsvirkjun sé einnig heimilt að stofna og eiga hlut í innlendum fyrirtækjum sem annast rannsóknar- og þróunarverkefni, þó ekki að taka að sér ráðgjöf eða verktöku í samkeppni við önnur fyrirtæki á almennum markaði hér á landi. Loks segir að Landsvirkjun sé heimilt að eiga aðild að innlendum fyrirtækjum sem annast framleiðslu, flutning, dreifingu og sölu orku.

Í frv. því sem ég mæli fyrir er lagt til að Landsvirkjun verði auk ofangreinds veitt heimild til að eiga aðild að fjarskiptafyrirtækjum. Í greinargerð með frv. kemur fram að það kerfi sem Landsvirkjun á og rekur vegna starfsemi sinnar geti komið að gagni fyrir fleiri aðila, m.a. þá sem starfa að öryggismálum. Ef frv. verður að lögum veitir það Landsvirkjun lagaheimild til að eiga aðild að slíkum fyrirtækjum enda eðlilegt að slík starfsemi sé rekin utan hefðbundins reksturs fyrirtækisins.

Hæstv. forseti. Ég legg til að frv. verði eftir 1. umr. vísað til hv. iðnn.