Landsvirkjun

Fimmtudaginn 10. febrúar 2000, kl. 12:37:23 (4201)

2000-02-10 12:37:23# 125. lþ. 61.5 fundur 198. mál: #A Landsvirkjun# (aðild að fjarskiptafyrirtækjum) frv. 14/2000, LB
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur, 125. lþ.

[12:37]

Lúðvík Bergvinsson:

Virðulegi forseti. Við fyrstu sýn virðist hér ekki vera stórt mál á ferðinni og það er ekki löng greinargerð sem fylgir þessari litlu lagabreytingu eða frv. um breytingu á lögum sem hljóðar svo, með leyfi foreta:

,,Við 2. mgr. 2. gr. laganna bætist: svo og aðild að fjarskiptafyrirtækjum.``

Það er sem sagt verið er að leita eftir heimild hjá Alþingi til þess að veita Landsvirkjun heimild til þess að eiga aðild að fjarskiptafyrirtæki.

Virðulegi forseti. Það er alveg rétt sem kom fram hjá hv. þm. Pétri Blöndal áðan að það er í raun verið að ríkisvæða fjarskiptamarkaðinn frekar en nú er, ef svo má að orði komast, þ.e. við erum nú fyrir með fyrirtæki í eigu ríkisvaldsins sem hefur um það bil 96--98% af þessum markaði og núna er verið að leita eftir heimild Alþingis fyrir því að Landsvirkjun sem er að 50% í eigu ríkisins en 45% í eigu Reykjavíkurborgar og að mig minnir 5% í eigu Akureyrarbæjar, fái heimild til þess að eiga aðild að fjarskiptafyrirtækum.

Virðulegi forseti. Þegar greinargerðin, sem er nú ekki efnismikil, er lesin er maður eiginlega engu nær og áttar sig ekki almennilega á því hvað þarna er á ferðinni. Maður veltir því í fyrsta lagi fyrir sér hvort hugsanlegt sé að hér sé á ferðinni einhvers konar undanfari þess að fyrirtækið verði einkavætt, þ.e. að fyrirtækið geti nýtt það fjarskiptakerfi sem það á sem ég reyndar þekki ekki nægilega vel og veit ekki hversu öflugt er. Hugsanlegt er að með því að leggja þetta fjarskiptafyrirtæki inn í önnur fjarskiptafyrirtæki þá sé verið að undirbúa einkavæðingu. Ég veit það ekki. En ég er ekki í nokkrum vafa um að ef þetta er hugmyndin þá er það án efa til þess fallið að auka verðmæti Landsvirkjunar. Ég held að það sé ekki nokkur spurning því að vöxturinn á fjarskipta- og tölvumarkaði er slíkur að leitun er að öðru eins í sögunni.

Þess vegna held ég, virðulegi forseti, að það sé mjög mikilvægt að hæstv. viðskrh. skýri betur út fyrir okkur á hinu háa Alþingi hverju sé verið að leita eftir og hvaða hugmyndir liggi þarna að baki. Það er a.m.k. skoðun þess sem hér stendur að ekki sé ástæða til þess að ríkið auki hlutdeild sína á fjarskipta- og tölvumarkaði frá því sem nú er. Ég held að það sé algjörlega nauðsynlegt fyrir hæstv. iðnrh. að skýra frekar en hér kemur fram á hvaða vegferð ríkisstjórnin er í þessu máli.