Landsvirkjun

Fimmtudaginn 10. febrúar 2000, kl. 12:58:21 (4210)

2000-02-10 12:58:21# 125. lþ. 61.5 fundur 198. mál: #A Landsvirkjun# (aðild að fjarskiptafyrirtækjum) frv. 14/2000, HjÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur, 125. lþ.

[12:58]

Hjálmar Árnason (andsvar):

Herra forseti. Það hefur áður komið fram og ég hef lýst því yfir áður að hvað varðar fyrirkomulag á notkun á slíkum tæknibúnaði þá er það verkefni sem hv. iðnn. mun skoða. Hins vegar er líka rétt í framhaldi af síðustu ræðu hv. þm. að leggja áherslu á að í grg., þó stutt sé, er meginatriði sem þar er dregið fram, þ.e. öryggismálin. Ég held að allir viti að öryggisþátturinn er kveikjan að þessu. Það er fyrst og fremst öryggisþátturinn og öllum er kunnugt um að fjarskiptavandamál eru á miðhálendinu, þar eru margir dauðir punktar bara vegna þess að dreifikerfið nær ekki þangað. Því hafa bæði björgunarsveitir og lögregla séð þarna ákveðin sóknarfæri. Ég hef engar athugasemdir við það. Eftir því sem ég best veit er það grunnurinn að því að með þetta mál er farið af stað.

En ég held að hvergi hafi komið fram að Landsvirkjun ætli sér að opna almenna fjarskiptaþjónustu og fara að hafa einhvern hagnað af því. Það held ég að hafi hvergi komið fram. En málið verður skoðað, herra forseti.