Landsvirkjun

Fimmtudaginn 10. febrúar 2000, kl. 12:59:52 (4211)

2000-02-10 12:59:52# 125. lþ. 61.5 fundur 198. mál: #A Landsvirkjun# (aðild að fjarskiptafyrirtækjum) frv. 14/2000, ÁSJ
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur, 125. lþ.

[12:59]

Árni Steinar Jóhannsson:

Virðulegi forseti. Komið hefur fram hjá hv. formanni iðnn., Hjálmari Árnasyni, að þetta sé lítið frv., lítið mál. En það eru nú oft stórmál fólgin í kannski fjórum, fimm orðum í lagabreytingu. Ég skil þessa breytingu á frv. til laga um breytingu á lögum um Landsvirkjun allt öðruvísi en talað hefur verið um hér úr stólnum af hv. formanni iðnn. vegna þess, með leyfi forseta, að:

,,Við 2. mgr. 2. gr. laganna bætist: svo og aðild að fjarskiptafyrirtækjum.``

Ég skil þetta á þann hátt að fyrirtækinu sé þá heimilt að kaupa sig inn í hlutafélag, kannski Tal, kannski Landssímann, og þar með verða aðili að fjarskiptafyrirtæki eða kaupa það allt. Þetta er í allt öðrum dúr en menn túlka innihald þessara breytinga, sérstaklega hv. formaður iðnn., Hjálmar Árnason.

Það er nauðsynlegt að menn átti sig á því hvað þeir meina þegar þeir breyta lögunum og auðvitað erum við öll inni á því að það er í þágu þjóðarinnar að sem flestir geti notað þær rásir og þann fjarskiptabúnað sem fyrirtækið býr yfir. Ég held að allir séu á því. Það er að sjálfsögðu stórmál og gott fyrir þjóðina alla að sá búnaður sé notaður af sem flestum hvort sem það eru björgunarsveitir eða þau símafyrirtæki sem nú eru starfandi í landinu.

En ég skil þessa lagabreytingartillögu á allt annan hátt en hér hefur verið túlkað. Ég held að nauðsynlegt sé að þetta verði skoðað í nýju ljósi hvort sem málið fer til iðnn. eða samgn. og menn leggi a.m.k. niður fyrir sér og séu með það á hreinu hvað þeir eru að meina með breytingunum, hvert þeir eru að stefna. Ég held að það sé ekki á hreinu miðað við þær umræður sem hér hafa farið fram.

Það er líka alveg nauðsynlegt að taka hlutina í réttri röð. Staða Landsvirkjunar er þannig núna að stóru eignaraðilarnir hafa komið með hugmyndir um breytingar á rekstrarformi. Sumir hafa jafnvel gengið svo langt að lýsa áhuga á því að ganga út úr fyrirtækinu, þannig að innan kannski örfárra missira eða ára erum við að horfa fram á stórbreytingar á fyrirtækinu. Bæði Reykjavíkurborg og Akureyrarbær hafa reifað og sett fram hugmyndir og sýnt áhuga jafnvel, á því að selja fyrirtækið og hafa þreifað á málinu frá þeim sjónarhóli.

Ég held að þó að þetta séu ekki mörg orð í lagabreytingunni þá geti þetta verið miklu stærra mál en virðist og alveg nauðsynlegt frá mínum bæjardyrum séð að menn viti hvert þeir stefni. Ég vil bara árétta það að við erum öll með á því að öryggis sé gætt á hálendinu og það er sjálfsagður hlutur að nota þann búnað sem fyrirtækið hefur komið sér upp sjálft til að vakta mannvirki sín. En það er ekki sama hvernig að því er staðið. Ég held að við værum mjög illa sett ef við mundum gefa heimild til þess að blokkera kannski alla aðra en einn aðila, kannski óheppilegasta aðilann í geiranum, til að nota þessar rásir. Þá væri staðan kannski sú að jafnvel björgunarsveitir og aðrir gætu ekki notað rásirnar. Og þá er verr af stað farið en heima setið.

Þessum atriðum vildi ég koma á framfæri. Ég held að við eigum að ræða þetta í réttri röð. Við eigum að gera okkur grein fyrir því hvert stefnir með þetta fyrirtæki, hver áhugi eignaraðilanna er, hver sýn þeirra er varðandi þróunina næstu mánuði og missiri og síðan að fara ofan í þetta mál og laga tillöguna um breytingar á lagatexta að því sem menn virkilega meina.

[13:00]