Landsvirkjun

Fimmtudaginn 10. febrúar 2000, kl. 13:41:19 (4213)

2000-02-10 13:41:19# 125. lþ. 61.5 fundur 198. mál: #A Landsvirkjun# (aðild að fjarskiptafyrirtækjum) frv. 14/2000, KolH
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur, 125. lþ.

[13:41]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Virðulegi forseti. Hér er sannarlega hreyft máli sem leynir á sér og þó að frv. sé ekki margort, þykkt eða greinargerðin stór, þá er greinilega um að ræða mun stærra mál en þetta litla frv. gefur til kynna.

Það er alveg ljóst að Landsvirkjun, sem er ríkisfyrirtæki í almannaeign, nýtur umtalsverðra sérréttinda samkvæmt lögum. Þar nægir bara að nefna að þessu fyrirtæki er heimilt að taka lán og taka ábyrgð á greiðslum og þetta er fyrirtæki sem er undanþegið tekjuskatti, eignarskatti og stimpilgjöldum vegna lána sem fyrirtækið tekur. Það er undanþegið útsvari, það er undanþegið aðstöðugjaldi svo og öðrum gjöldum til sveitarfélaga. Það er því alveg ljóst að hér er um fyrirtæki að ræða sem hefur yfirburðastöðu á markaðnum, á markaði orkusölu og orkudreifingar sem er og hefur verið meginverksvið þessa fyrirtækis.

Það er síðan í bígerð og hefur verið stundað núna upp á síðkastið að víkka út starfsemi fyrirtækisins. Eins og hv. þm. sem hér hafa talað hafa bent á rekur Landsvirkjun ráðgjafarþjónustu og ætlar að fara að hasla sér völl á símamarkaði eða fjarskiptamarkaði og við vitum að sjálfsögðu ekki hvað meira býr að baki. Hv. þm. Pétur Blöndal benti á að bakarí gæti verið á næsta leiti eða annað í þeim dúr. Hvað vitum við?

En það er algerlega ljóst að svona stórt fyrirtæki sem hefur milli 300 og 400 ársverk sinna starfsmanna, fastráðinna og lausráðinna, er yfirburðafyrirtæki. Það er risi, eins og hv. þm. Pétur Blöndal sagði áðan. Maður spyr: Hvað rekur fyrirtæki af þessu tagi og þá sem eru ábyrgir fyrir því út í slíka útþenslustefnu? Hvað býr hér að baki? Eðlilegt er að spyrja slíkra spurninga, ekki síst í ljósi þess sem fram kemur í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar og hefur komið fram í stefnuræðu hæstv. forsrh. að fyrir dyrum standi að breyta skipulagi orkumála þannig að samkeppni verði innleidd til að auka hagkvæmni og lækka orkuverð. Ég verð að segja, herra forseti, að ræða hæstv. iðnrh. áðan þar sem hún fylgdi frv. úr hlaði brá ekki ljósi á þau atriði sem vekja spurningar. Hvað býr hér að baki?

Hv. þm. Hjálmar Árnason, sem hélt ræðu áðan af miklum móð eins og hann væri orðinn málsvari Landsvirkjunar á Alþingi, brá heldur ekki ljósi á það hvað hér býr að baki. Hér hafa verið viðraðar óljósar og þokukenndar útskýringar hv. þm. Hjálmars Árnasonar og hæstv. ráðherra Valgerðar Sverrisdóttur. Hv. þm. Hjálmar Árnason heldur því fram að neyð sé að reka Landsvirkjun út í að koma sér upp fjarskiptabúnaði, neyð sé að reka fyrirtækið út á þetta svið, ég tek þá skýringu ekki gilda, herra forseti. Ég tel hana í hæsta máta undarlega. Það er engin neyð í gangi hjá Landsvirkjun. Það er eitthvað annað sem hefur ekki verið sagt hér og hæstv. ráðherra á eftir að skýra það fyrir þingmönnum hvað það er sem hér býr að baki. Hvers vegna er farið út í þennan breytta starfsvettvang Landsvirkjunar?

Hv. þm. Hjálmar Árnason lýsti því einnig áðan hvernig fyrirtækið væri að nýta mannauðinn sem býr í fyrirtækinu og að því er mér skildist bara hreinlega fyrir góðmennskusakir að sjá til þess að öryggi ferðamanna sem eiga leið um miðhálendið sé tryggt. Herra forseti. Þetta er heldur ekki gild skýring. Það er eitthvað annað sem á eftir að segja hér. Hvað hefur sú samkeppni, sem boðuð er á fjarskiptamarkaðnum og er í raun orðin staðreynd, leitt af sér? Hvað er hún að leiða af sér sem gerir það fýsilegt fyrir Landsvirkjun að fara inn á þann markað? Þeirri spurningu þarf að svara. Það er alveg ljóst að þessi samkeppni er á næsta leiti. Það hvarflar sannarlega að manni, herra forseti, að hér sé verið að víkka út starfssvið Landsvirkjunar mögulega í því skyni að gera það að fýsilegri kosti þegar þar að kemur þegar þarf að fara að liða fyrirtækið í sundur, búta það upp og selja einkaaðilum. Er það það sem verið er að gera, að gera fyrirtækið þannig úr garði að það verði fleiri einkaaðilar sem eigi möguleika á því að koma hér að málum þegar við stöndum frammi fyrir því að þetta fyrirtæki sem er nú í eigu almennings verði limað í sundur og selt í einingum? Þessari spurningu þurfum við að fá svarað, herra forseti.

Ég vitna að lokum í ársskýrslu Landsvirkjunar frá 1998 sem er hið merkasta plagg. Þar segir og styður það mál mitt hve skammt er í þá samkeppni sem fram undan er. Þar segir, með leyfi forseta:

,,Það stefnir í aðskilnað meginþátta framleiðslu og flutnings í starfsemi Landsvirkjunar með einhverjum hætti og ljóst er að vinnsla annarra framleiðenda á eftir að aukast enn meira.``

Fleiri vísbendingar eru í þessari skýrslu sem gefa okkur til kynna að Landsvirkjun er vel undir það búin að fara út í þetta hlutverk sem virðist liggja fyrir fyrirtækinu að vera limað sundur, brotið upp í einingar og sett á markað og selt hæstbjóðanda.