Landsvirkjun

Fimmtudaginn 10. febrúar 2000, kl. 13:54:37 (4217)

2000-02-10 13:54:37# 125. lþ. 61.5 fundur 198. mál: #A Landsvirkjun# (aðild að fjarskiptafyrirtækjum) frv. 14/2000, LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur, 125. lþ.

[13:54]

Lúðvík Bergvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Það má vel halda því fram að hér sé einhver orðaleikur á ferðinni en orðaleikurinn hófst vitaskuld í iðnrn. því að þar var frv. var samið og þar var það þannig úr garði gert að lagatexti og orð greinargerðar fara ekki saman. Ef um orðaleik er að ræða erum við einfaldlega þátttakendur í leik sem hæstv. iðnrh. lagði upp með.

En ég skil hæstv. iðnrh. þá á þann veg að ekki sé verið að leggja hér til að Landsvirkjun verði aðili að einhverju fjarskiptafyrirtæki. Það er ekki verið að leggja til að þeir kaupi hlutafé í öðrum fjarskiptafyrirtækjum og það er ekki verið að leggja til að fjarskiptafyrirtækið gangi inn í önnur fyrirtæki heldur einvörðungu þannig að það sé verið að leita lagaheimildar hjá Alþingi til að fá heimild til þess að leigja þetta fjarskiptafyrirtæki öðrum fyrirtækjum til þess að þjónusta á hálendinu. Ég skil þetta frv. þannig, virðulegi forseti, og ef það er ekki réttur skilningur, held ég að hæstv. viðskrh. verði að koma upp og leiðrétta hann. Öðruvísi er ekki hægt að skilja þetta ef marka má orð hæstv. ráðherra.