Landsvirkjun

Fimmtudaginn 10. febrúar 2000, kl. 13:56:28 (4219)

2000-02-10 13:56:28# 125. lþ. 61.5 fundur 198. mál: #A Landsvirkjun# (aðild að fjarskiptafyrirtækjum) frv. 14/2000, MF
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur, 125. lþ.

[13:56]

Margrét Frímannsdóttir:

Virðulegi forseti. Mönnum hefur orðið töluvert tíðrætt um helstu rök sem hæstv. ráðherra og hv. formaður iðnn. hafa komið fram með að fyrst og fremst sé um það að ræða að nýta það fjarskiptakerfi sem Landsvirkjun á í dag vegna öryggismála og almannahagsmuna og ljósleiðarakerfið og hálendið eru sérstaklega tekið þar sem dæmi.

Hæstv. ráðherra svaraði ekki þeim spurningum sem ég lagði fram áðan en upphaflega fer umræðan af stað vegna svokallaðs TETRA-fjarskiptakerfis sem ríkislögreglustjóri ásamt slökkviliði Reykjavíkur kannaði möguleika á að Landsvirkjun tæki þátt í. Þá var um að ræða að bjóða út kerfið og þjónustuna vegna þess að það kerfi sem menn hafa notast við er orðið úrelt. Leitað var eftir því við Landsvirkjun hvort fyrirtækið væri tilbúið til þess að taka þátt í því útboði. Menn reiknuðu út kostnaðinn við að reka kerfið í um það bil fimm ár og gáfu á sínum tíma þær upplýsingar að sá kostnaður gæti orðið allt að 300 millj. kr.

Nú gerist það að rekstur TETRA-fjarskiptakerfisins sem er þetta öryggiskerfi, það þýðir ekkert að horfa fram hjá því og það er ekki hægt að ræða annars vegar bara um Landsvirkjun og fjarskiptakerfi Landsvirkjunar og öryggishagsmuni eða almannahagsmuni vegna þess að TETRA-kerfið sem um er að ræða er það sem málið snýst um. Er það þá þannig að það sé í höndum Landsvirkjunar? Nei, það er boðið út og hver fékk? Það er fyrirtæki sem heitir Irja eftir þeim upplýsingum sem ég hef, var stofnað í október sl. og eigandi þess er Jón Þóroddur Jónsson, sem er stjórnarformaður, og eiginkonan varaformaður stjórnar. Það er ekki þannig að þessi öryggismál séu í höndum Landsvirkjunar og þar standi menn hjá ríkislögreglustjóra, hjá Landsbjörg eða hjá slökkviliðinu í Reykjavík á öndinni yfir því hvort Alþingi sé ekki tilbúið til þess að veita Landsvirkjun þessa heimild vegna þess að þessar stofnanir sem fara með öryggismál okkar Íslendinga ætli að semja beint við Landsvirkjun. Spurningin hlýtur að vera sú, hvort sá einstaklingur eða það fyrirtæki sem bauð í rekstur TETRA-fjarskiptakerfisins og þjónustuna gerði það með þeim formerkjum að það leigði kerfið af Landsvirkjun vegna þess að kostir Landsvirkjunar eru bara tveir í málinu. Annar er sá að Landsvirkjun tæki þátt í þessu sameiginlega útboði vegna TETRA-kerfisins með þeim aðilum sem hafa undirbúið útboðsgögn vegna málsins og þeim aðilum sem ég hef hér talað um og að Landsvirkjun yrði skilgreind sem notandi kerfisins á sama hátt og aðrir. Þá væri það þó þannig að þeir hefðu sérstöðu af því að þeir legðu fram verðmæti umfram aðra aðila, þ.e. kerfið sjálft. Vissulega þyrfti lagaheimild til þess að Landsvirkjun gæti farið þessa leið en þá væri það heimild til að leigja hluta af fjarskiptakerfinu vegna öryggishagsmuna og til þess að reka þetta kerfi, TETRA-kerfið, ekkert annað, bara bundið því. Það er ein leiðin.

[14:00]

Hin leiðin er sú að Landsvirkjun taki að sér að reka fyrirtæki sem væri með hreinan og kláran fjarskiptarekstur án þess að nokkurs staðar kæmi fram að sá rekstur væri bundinn því að Landsvirkjun væri þátttakandi í þessu öryggiskerfi, TETRA-kerfinu. Landsvirkjun getur því samkvæmt heimildinni ekki bara farið og sinnt þessum öryggismálum --- sem væri gott mál. Það væri kostur --- heldur getur Landsvirkjun gerst aðili að hverju því fjarskiptafyrirtæki sem henni sýnist. Hvað þýðir að gerast aðili? Hvað þýðir það að Landsvirkjun geti gerst aðili að fyrirtæki? Það getur verið með 99% eignaraðild og er aðili þess vegna. Þetta er mjög stórt mál. Ég átti satt að segja von á því að hér kæmu nánari útskýringar á frv. en hafa komið fram í umræðunni og ég átti satt að segja von á því að menn færu yfir þennan aðdraganda þannig að þingheimi væri ljóst að heimildin væri eingöngu til þess að geta sinnt þessari öryggisþjónustu. En hún er það ekki. Hún er víðtæk.

Ég fagna því sannarlega að hæstv. ráðherra segir að það megi takmarka heimildina þannig að eingöngu verði um að ræða að núverandi fjarskiptakerfi sem Landsvirkjun á og rekur, að það nýtist vegna öryggismála í TETRA-fjarskiptakerfi. En þá hlýt ég líka að spyrja hvað lá að baki hjá þeim einstaklingi sem bauð í kerfið og þjónustuna. Útboðið hlýtur annars vegar að hafa hljóðað upp á að menn rækju kerfið, settu upp nýtt kerfi og veittu þessa þjónustu eða að viðkomandi einstaklingur hafi gert samninga við þá sem eiga kerfið í dag, þ.e. Landsvirkjun. Ég hlýt að fara fram á svör. Það má vel vera að hæstv. ráðherra geti ekki svarað þessu hér og nú en nefndin hlýtur að fara fram á svör vegna þess að það er ekki einungis að verið sé að hugsa um almannahagsmuni. Það er líka verið að hugsa um kerfið sem Landsvirkjun á og rekur. Landsvirkjun hefur fram undir þetta ekki átt marga samkeppnisaðila, einungis Landssímann sem er líka í eigu ríkisins. Nú eru komnir aðrir aðilar inn á fjarskiptamarkaðinn og Landsvirkjun þarf að eiga við allt annað umhverfi. Fjarskiptakerfið sem þeir eiga á hálendinu er lítil eign fyrir Landsvirkjun ef önnur fjarskiptafyrirtæki eru tilbúin til að reisa annað kerfi við hliðina á því. Þá er þessi eign ekki lengur eins verðmæt og hún hefur verið fram að þessu. Það er ekki hægt að horfa fram hjá því. Hafi menn búist við því að frv. með afar lítilli greinargerð --- það er ein grein sem hljóðar ósköp einfaldlega: ,,Við 2. mgr. 2. gr. laganna bætist: svo og aðild að fjarskiptafyrirtækjum.`` --- rynni bara í gegn vegna öryggishagsmuna þá er það rangt. Málið snýst ekki eingöngu um að nýta mannafla, þekkingu og afburðahæfileika þeirra sem starfa hjá Landsvirkjun. Málið snýst ekkert um það þó að það sé út af fyrir sig mjög gott. Mannauður, tækni og þekking finnast hjá fleiri fyrirtækjum og það má ekki afgreiða þetta á svona ódýran hátt. Það hefur gerst hér að farið hafa í gegn frv. þar sem túlkun á heimildum sem frv. hafa veitt hefur verið allt önnur í framkvæmd en kynnt hefur verið á hv. Alþingi. En ég hlýt að spyrja frekar um þetta fyrirtæki, Irju, sem fékk verkefnið sem málið snerist um í upphafi, þ.e. TETRA-verkefnið. Ég hlýt að spyrja hvort þetta fyrirtæki hafi boðið í í samstarfi við Landsvirkjun og þá með það í huga að nota það kerfi sem fyrir er. Eða hljóðaði útboðslýsingin þannig að viðkomandi aðili sem fékk verkefnið hafi þurft að setja upp nýtt kerfi til þess að geta veitt þá þjónustu sem hér um ræðir? Hún er nauðsynleg. Það er nauðsynlegt að þessi þjónusta sé til staðar. En af einhverjum ástæðum öðrum en þeim að heimildin var ekki til staðar var farið í að bjóða verkið út og það samþykktu þeir sem að verkefninu standa, þ.e. ríkislögreglustjóri og slökkviliðsstjórinn í Reykjavík. Þeir aðilar sem hlut eiga að máli.