Landsvirkjun

Fimmtudaginn 10. febrúar 2000, kl. 14:06:17 (4220)

2000-02-10 14:06:17# 125. lþ. 61.5 fundur 198. mál: #A Landsvirkjun# (aðild að fjarskiptafyrirtækjum) frv. 14/2000, RG
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur, 125. lþ.

[14:06]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Það hefur verið athyglisvert að hlusta á umræðurnar sem hér hafa farið fram. Hæstv. iðnrh. hefur ítrekað sagt að þetta frv. láti ekki mikið yfir sér, það sé fremur einfalt, að þetta sé fyrst og fremst öryggisþáttur og fjarskiptauppbygging Landsvirkjunar sé þess eðlis að það sé öryggisatriði fyrir þjóðina að nýta hana.

Ég ætla að leyfa mér, herra forseti, að halda því fram að miðað við umræðurnar eins og þær eru þróast sé þetta frv. algjört hneyksli. Það er algjört hneyksli að leggja þetta frv. fyrir þingið eins og það er gert. Hér segir, með leyfi forseta:

,,1. gr.

Við 2. mgr. 2. gr. laganna bætist: svo og aðild að fjarskiptafyrirtækjum.``

Greinargerðin er sex og hálf lína. Hún er svona:

,,Í 2. gr. laga um Landsvirkjun er greint frá tilgangi fyrirtækisins og heimildum til að taka þátt í og eiga fyrirtæki á sviði orkumála og tengdrar starfsemi.

Landsvirkjun á og rekur fjarskiptakerfi vegna starfsemi sinnar. Það kerfi getur komið að gagni fyrir fleiri aðila, m.a. þá sem starfa að öryggismálum. Ýmsir aðilar hafa óskað eftir samstarfi við Landsvirkjun um fjarskiptastarfsemi þar sem fjarskiptakerfi fyrirtækisins yrði notað. Til að af slíku geti orðið þarf Landsvirkjun lagaheimild, enda eðlilegt að slík starfsemi sé rekin utan hefðbundins reksturs fyrirtækisins.``

Herra forseti. Þetta er frv. og greinargerðin. Hvað gerist síðan þegar umræða hefst á hv. Alþingi? Hv. þingmenn Samfylkingarinnar, Margrét Frímannsdóttir og Lúðvík Bergvinsson hafa komið hér með mikilvægar ábendingar og áleitnar spurningar. Það hefur verið fátt um svör frá ráðherranum þar til í ræðunni nú að loknu matarhléi. Margrét Frímannsdóttir hefur bent á öryggiskerfi ríkisins og farið orðum um TETRA-verkefnið. Hv. þm. Hjálmar Árnason vekur athygli á því í sinni ræðu að þetta auki möguleika Landsvirkjunar á að styrkja fyrirtæki með eins konar aðild alveg eins og Landsvirkjun hafi í raun styrkt vetnisfélagið með aðild sinni og nú geti Landsvirkjun komið inn í fleiri félög með þessum hætti. Þá vaknaði að sjálfsögðu þessi spurning: Hvernig á að velja þau fyrirtæki sem þarna yrðu studd af Landsvirkjun? Það hefur ekki verið mjög góð reynsla af því hvernig ríkisstjórnin hefur stýrt ríkisfyrirtækjum inn í fyrirhugað einkavæðingarferli og óljóst af þessu frv. hvort það sé undirbúningur að slíku eins og oft hefur gerst.

Það er þó ekki hið alvarlega í málinu varðandi framsetningu frv. og greinargerð, nei, heldur hitt að nú í síðari ræðu hæstv. iðnrh. koma fram alveg nýjar upplýsingar. Nefnilegar þær að það á að stofna nýtt fjarskiptafyrirtæki. Þetta nýja fjarskiptafyrirtæki verður stofnað um ljósleiðarann sem Landsvirkjun á í dag.

Herra forseti. Hvernig stendur á því að þetta frv. fjallar ekki um það? Hvernig stendur á því að í greinargerð með frv. skuli ekki vera fjallað um að það eigi að stofna nýtt fjarskiptafyrirtæki um ljósleiðarann? Það sagði hæstv. ráðherra hér fyrir hálfri stundu síðan. Hvernig stendur á því að það skuli koma fram í þessari umræðu eins og aukaupplýsingar í málinu á meðan að það er staðreynd af talsverðri vigt, ekki síst lítandi til þess hversu stórt fyrirtæki Landsvirkjun er og möguleika Landsvirkjunar, yfirráðamöguleika Landsvirkjunar varðandi þau félög sem hún kýs að fara inn í eins og hv. þm. Hjálmar Árnason gat um áðan. En það að nýtt fjarskiptafyrirtæki verði stofnað um ljósleiðarann er alveg sérstakt mál og mjög mikilvægar upplýsingar fyrir þessa umræðu.

Við hljótum að velta þessu fyrir okkur í tengslum við umræðuna sem farið hefur fram á Alþingi um Landssímann. Hér hafa verið heitar umræður í fjarskiptamálum um það hvort ríkið eigi að eiga fjarskiptakerfið, þó svo e.t.v. þjónustufyrirtæki Landssímans yrðu seld. Það mál hefur ekki verið til lykta leitt enn þá heldur hafa verið gefnar upplýsingar um að það sé mjög erfitt að skilja fjarskiptakerfið frá Landssímanum, sem líkja má við vegakerfið í landinu að stærð, þyngd og pólitísku mikilvægi. Við höfum lesið það út úr umræðum og skrifum manna að það megi alveg gera ráð fyrir því að þegar og ef Landssíminn verður seldur þá verði allt selt, Landssíminn og fjarskiptakerfið. Og það hefur valdið mörgum okkar áhyggjum með tilvísun til þess að fjarskiptanetið sem þjóðin sjálf hefur byggt upp út um allt land, út á hvert einasta nes, er svo mikilvægt að það ríkir ákveðinn ótti, þ.e. ef einkaaðilar eiga að halda utan um það, við þá viðskiptahugsun sem um leið kemur inn í fyrirtæki sem er komið út á markað. En nú fáum við þessar nýju upplýsingar, herra forseti. Það á að stofna nýtt fjarskiptafyrirtæki um ljósleiðarann sem Landsvirkjun á í dag og sem er svo vel úr garði gerður að hann nær um allt hálendið. Takmarkaðar upplýsingar eru í frv. Takmarkaðar upplýsingar hafa komið fram hjá ráðherranum sjálfum. Við eigum rétt á að gera kröfu um að ráðherrann skýri þetta mál alveg upp á nýtt og gefi ítarlegar upplýsingar um hvað felist í þessari lagasetningu.

Herra forseti. Að lokum þetta. Á þriðjudaginn vorum við að ræða stórt frv., stjfrv. um persónuvernd sem hæstv. dómsmrh. mælti fyrir. Í hvert sinn sem mikilvægar upplýsingar komu fram eða harðar pólitískar spurningar um frv. sem hafði tekið miklum breytingum frá því að fyrra frv. um persónuvernd var kynnt í heilbr.- og trn. og frá því að stórt og umdeilt frv. var gert að lögum um gagnagrunn á heilbrigðissviði, í hvert einasta skipti sem alvarlegar umræður og ábendingar komu fram, kom ráðherrann í ræðustól og lýsti því yfir að þetta yrði að skoðast vel í allshn. og að mikilvægt væri að allshn. færi yfir þetta ákvæði. Við þekkjum vel hvernig farið er með þessi mál í nefnd og þess vegna er það ekki ásættanlegt ef það á að vera lenska ráðherranna við 1. umr. um frv. að líta til þess að það sé hið besta mál að skerpa á frv. eða skerpa á ákvæðum í iðnn., eins og ráðherrann tók til orða hér fyrir hádegið, heldur eigum við að fá þær upplýsingar sem liggja til grundvallar því hvernig, í þessu tilfelli iðnn., fer í málið á fundi sínum.

Herra forseti. Ég kalla eftir því að hæstv. ráðherra skýri þessi mál nánar.