Landsvirkjun

Fimmtudaginn 10. febrúar 2000, kl. 14:20:07 (4222)

2000-02-10 14:20:07# 125. lþ. 61.5 fundur 198. mál: #A Landsvirkjun# (aðild að fjarskiptafyrirtækjum) frv. 14/2000, LB
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur, 125. lþ.

[14:20]

Lúðvík Bergvinsson:

Virðulegi forseti. Það er nú ekki miklu við þessa umræðu að bæta. Það hefur eiginlega tekist með lagni að fá fram hvað hér er raunverulega á ferðinni. En ég vil taka undir með þeim hv. þm. sem hafa lýst yfir ákveðinni vanþóknun á því hvernig þetta mál er lagt fyrir Alþingi og ég tel það til lítils sóma fyrir þann hæstv. ráðherra sem kom með málið hér inn að það skuli ekki skýrt betur út í gögnum en raun ber vitni. En ég kem hingað upp fyrst og fremst í því skyni að beina einni spurningu til hæstv. ráðherra og hún er þessi: Er hugmyndin sú að leggja fjarskiptabúnað Landsvirkjunar til þessa fyrirtækis sem hlutafé og mun Landsvirkjun þá jafnframt ein eiga aðild eða eiga allt hlutafé í þessu fyrirtæki, eða liggur fyrir einhvers konar yfirlýsing um samstarf við einhverja aðra aðila?

Síðan er annað sem ekki hefur komið fram í þessari umræðu, virðulegi forseti, en það er að kynning á því hvað hér er raunverulega á ferðinni, hvort hér sé aðeins um lítið fjarskiptakerfi á hálendinu að ræða eða hvort hægt sé að nýta það með einhverjum öðrum hætti. Það liggur ekki fyrir og ég ætla ekkert að krefja hæstv. ráðherra svara um það hvort heldur er. En fyrst og fremst langar mig að beina þeirri spurningu til hæstv. ráðherra hvort hugmyndin sé sú að Landsvirkjun eigi þetta fjarskiptafyrirtæki ein eða hvort fyrir liggur einhver viljayfirlýsing eða ásetningur um samstarf við önnur fjarskiptafyrirtæki til reksturs á þessu nýja hlutafélagi.